27.03.1923
Neðri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (2970)

105. mál, innlendar póstkröfur

Flm. (Magnús Jónsson):

Eins og sjá má á þskj. 180, er þessi tillaga borin fram samkvæmt tilmælum allmargra útgefenda bóka, blaða og tímrita. Jeg vænti þess, að háttv. þm. hafi lesið fylgiskjalið og kynt sjer þetta mál, sem er alls ekki flókið og engar hættur því samfara, þótt nái fram að ganga. Það liggur í augum uppi, hversu óþægilegt það er að geta ekki hagnýtt sjer jafnþægilega aðferð og póstkröfur eru við innheimtu þessara smáupphæða, sem hjer er oftast um að ræða. Og almenningur vill helst nota þessa aðferð við þess háttar greiðslur. Þessi tillaga til þál. er því borin fram til að greiða úr þessu og þeim erfiðleikum, sem eru á núverandi fyrirkomulagi. Þessi innheimtuaðferð er nú næstum því útilokuð hjer innanlands, vegna þess, að póstkröfur verða ekki innheimtar nema á póstafgreiðslustöðum. Þess vegna er í þessari till. til þál. farið fram á, að einnig verði innheimtar póstkröfur á brjefhirðingastöðunum.

Í fylgiskjalinu er bent á aðferð, sem notuð er á símastöðvunum og virðist mjög vera handhæg. Stöðvamar hafa handhæg eyðublöð, sem þar eru útfylt, og eru þau svo send útfylt til eftirlitsstöðvanna á mánaðarfresti, og er þá ávalt auðvelt að kippa í lag, ef eitthvað ber út af þessu viðvíkjandi. Er mjer sagt, að á símastöðvunum fari þetta vel úr hendi, enda er þetta ofureinfalt og óbreytt, og yrði auk þess enn einfaldara í því máli, sem hjer er um að ræða.

Jeg ætla ekki að teygja umræður um þetta að sinni, og vænti þess, að þessi till. gangi auðveldlega í gegnum háttv. deild, enda ekki gott að sjá neina agnúa á þessu máli, þar sem hjer er ekki farið fram á annað en það, sem öllum er til þæginda. Það væri þá helst frá póststjórnarinnar hálfu, að hún fyndi einhverja örðugleika á framkvæmd þessa máls; en þá er á það að líta, að hjer er ekki annað gert en skora á stjórnina að koma þessu í kring, og það er þá á valdi hennar að láta það vera, ef póststjórnin telur fram svo ríkar ástæður á móti, að hún treystist ekki til að koma því í framkvæmd.