27.03.1923
Neðri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (2973)

105. mál, innlendar póstkröfur

Flm. (Magnús Jónsson):

Jeg gat þess til, að eina mótbáran gegn till. mundi koma frá póststjórnarinnar hálfu. Jeg er þakklátur hæstv. atvrh. (KIJ) fyrir upplýsingarnar og að hann tók liðlega í málið. Mjer þykir vænt um, að mótbárur þær, er póststjórnin hefir gegn till., skyldu strax koma fram, því við það kom í ljós, að andmælin gegn till. eru alveg hverfandi, og vita þá háttv. þm., að hverju þeir hafa að ganga í þessu máli.

Ástæður þær gegn till., sem hæstv. atvrh. (KIJ) taldi fram, fyrir hönd póstmeistara, voru allar smávægilegar. Fyrst mintist hann á, að það myndi hafa í för með sjer launahækkun brjefhirðingamanna, því bæði væri þetta vandaverk, og auk þess fylgdi því talsverð peningaábyrgð. Jeg segi ekki um það, hvort þetta sjeu nægar ástæður til launahækkunar þeirra, því bæði yrði vandinn lítill, ef þeir fá góð skýrsluform, sem auðvelt ætti að vera að útfylla, og peningaábyrgðin þyrfti ekki að vera mikil, ef oft væri gert upp og aldrei látið safnast mikið fyrir. En þó svo væri, að hækka þyrfti launin, þá fær póstsjóður það aftur með innheimtugjaldinu. Þessi ástæða er því svo lítil, að hún vegur ekkert upp í það hagræði, sem fengist með því að láta innheimtuna ná til brjefhirðinganna. Ólíklegt tel jeg, að skifta þurfi nokkursstaðar um brjefhirðingamenn vegna innheimtunnar, og að minsta kosti yrði aldrei hörgull á mönnum, er gegnt gætu starfanum. Væri þar sjálfsagt hægt að fá þrjá fyrir einn.

Um peningaskápana held jeg megi segja, eins og háttv. þm. Dala. (BJ) komst að orði, að þar hafi verið leitað að ástæðu. Þeir menn, er brjefhirðingar hafa á hendi, hafa oft miklu meiri peninga handa milli en leiða myndi af innheimtu póstkrafna. Vitanlega yrði það talsverður kostnaður, ef kaupa ætti peningaskápa handa öllum brjefhirðingum, en ótrúlegt, að nokkur þörf sje á því.

Yfirleitt tel jeg, að þessar upplýsingar greiði fyrir málinu. Þetta yrði svo mikið hagræði fyrir bóka- og blaðaútgefendur, að andmæli háttv. póststjórnar vega þar ekkert á móti. Almenningi yrði einnig mikið hagræði að þessu, því margir vilja einmitt greiða andvirði blaða og bóka með póstkröfu, sökum þess, að það er mikið umstangsminna, enda er þetta fyrirkomulag mjög mikið notað orðið um allan heim.

Á mörgum stöðum hjer á landi er póstafgreiðslustöðum ekki svo vel í sveit komið, að auðvelt sje fyrir almenning í þeim sveitum, er heyra undir póstafgreiðslustaðina, að borga þangað póstkröfur sínar. Get jeg nefnt Hraungerði í Árnessýslu sem dæmi þess. Aftur á móti eru brjefhirðingastaðir svo víða, að flestir geta náð til einhvers þeirra.

Jeg ætla ekki að teygja meir umræður um þetta. Býst jeg við, að till. fái góðan byr í háttv. deild. Því að auk alls annars býst jeg við, að hæstv. atvrh. (KIJ) hafi einmitt, af velvilja sínum til málsins, talið rök póststjórnarinnar hjer á móti því, af því að hann hefir sjeð sem var, að þau voru í raun rjettri meðmæli.