27.03.1923
Neðri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í D-deild Alþingistíðinda. (2979)

107. mál, baðlyfjagerð og útrýming fjárkláða

Sveinn Ólafsson:

Jeg stend ekki upp til þess að mótmæla þessari tillögu, en ein athugasemd hjá hv. 2. þm. Húnv. (ÞórJ) gaf mjer tilefnið. Hann sagði, að baðlögurinn danski, sem notaður var næstliðið haust og keyptur var eftir ráðum dýralæknis hjer, mundi sumstaðar hafa grandað fjenu, en ekki unnið á færilúsinni. Jeg býst við, að einhverjum hafi þótt saga þessi ótrúleg, en jeg hygg, að hún hafi við talsverð rök að styðjast. Mjer hafa borist frjettir austan af landi um slæma reynslu af baðefni þessu, og að fje hafi farist þar á nokkrum stöðum, þar sem slys af þessu tæi hafa aldrei komið fyrir og þaulvanir menn hafa fengist við böðunina. Hefir um þetta verið leitað til dýralæknis þar, án þess nokkrar verulegar skýringar á slysunum hafi fengist. Giskar hann á, að fjárdauðanum kunni að hafa valdið lungnaormar í fjenu, sem þess vegna hafi eigi þolað baðið. En slíkt er harla ótrúlegt, því að lungnaormar eru alltíðir í fje á þeim slóðum, og þekki jeg þó engin dæmi þess, að fje hafi þann veg drepist eftir böðun, enda er mjer sagt, að fjeð hafi verið mjög hraustlegt og vænt, er baðað var.

Jeg verð því að álíta, enn sem komið er, að hjer sje um mjög varasama baðlagartegund að ræða, ef eigi háskasamlega, og mundi mjer þykja miður, ef að nýju ætti að fara að nota leifar þessa baðlagar að hausti. Jeg held, að margir sjeu búnir að fá þær fettur af þessum baðlagarkaupum, að rjettara sje að lofa þeim að nota baðlagartegundir, sem reyndar eru að gæðum og þeir þekkja sjálfir, heldur en óþverra þennan, eða þá að sannprófa nýjan baðlög áður en farið er að nota hann.