24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í D-deild Alþingistíðinda. (3011)

125. mál, landmælingar og landsuppdrættir

Flm. (Magnús Jónsson):

Flestum hv. þm. mun kunnugt mál þetta, og munu sennilega eiga meira eða minna af uppdráttum herforingjaráðsins danska.

Fyrsta orsökin til þessara landmælinga liggur ekki á landi, heldur í sjó, ef svo mætti segja. Var hún sú, að þegar verið var að mæla upp sjóinn fyrir Suðvesturlandinu, þá kom það í ljós, að strönd landsins var mörkuð skakt á uppdráttinn, og olli það erfiðleikum á því að gera nákvæm kort af miðum fyrir sunnan land.

Herforingjaráðið hafði þá nýlega — þetta var nokkru fyrir aldamótin — lokið við að gera mjög nákvæman uppdrátt af Færeyjum. Af Íslandi voru þá engir uppdrættir til aðrir en uppdráttur Björns Gunnlaugssonar og uppdráttur Þorvalds Thoroddsens, sem var bygður á uppdrætti Björns Gunnlaugssonar, aðeins löguð mynd hálendisins, eins og þar var komist að orði.

Fyrsti undirbúningurinn undir mælingar herforingjaráðsins var sá, að ríkisþing Dana veitti árið 1900 15000 kr. í tvö ár til þess að byrja á þríhyrningsmælingum fyrir sunnan land, til þess að fá strandlengju Suðurlands rjett setta. Voru svo 1902 sendir tveir leiðangrar, annar til Hornafjarðar, en hinn til Reykjavíkur, eða námunda við hana, og áttu þeir svo að mætast við Dyrhólaey.

Sumarið 1903 var svo fyrri þríhyrningamælingunni lokið. Byrjuðu þá nákvæmar mælingar til grundvallar uppdráttum af landinu. Gekk verkið furðu vel, þó að við marga erfiðleika væri að etja.

Leiddu þessar mælingar í ljós, að uppdráttum landsins hafði verið mjög ábótavant. Ströndin reyndist öðruvísi, vegalengdir aðrar og hæð fjalla, t. d. reyndist Öræfajökull 573 fetum hærri en hann áður var talinn. Þessi ónákvæmni, sem í ljós kom, varð til þess, að herforingjaráðið setti sjer það mark að mæla upp alt landið.

Kom fyrst sjerstakur uppdráttur af Reykjavík og svo annar af nágrenninu, og svo sjerstakt kort yfir Hafnarfjörð, og svo jafnt og þjett úr því.

Hjeldu mælingar þessar svo áfram óslitið í 13 ár, eða til 1914, er stríðið kom og hindraði þetta sem margt annað. Hefi jeg sjeð prentaða skýrslu um kostnaðinn af verkinu, sem jeg raunar skal ekki fullyrða að sje rjett, en þar er hann talinn 364000 kr. Hafði ríkisþing Dana veitt 292500 kr., en landssjóður 71500 kr.

Árið 1914 var búið að gera uppdrætti og mæla alt landið frá Hornafirði til Miðfjarðar í Húnavatnssýslu. Árið 1920 var svo aftur unnið að mælingunum, og voru þá gerðir uppdrættir af Húnavatnssýslu austur fyrir Blöndu, og einnig mun Skagafjörður hafa verið mældur að einhverju leyti.

Er nú mikið fje komið í þetta og auðsætt, að ljúka verður þessu verki, enda eru þessir uppdrættir mjög góðir og eru undirstaðan að því að þekkja landið rjett. Eru þeir sú eina Íslandslýsing, er að verulegu haldi kemur. Geta menn ekki þekt sína eigin sveit jafnvel á annan veg og af uppdráttunum. Er kunnugt, að vegalengdir hafa mjög verið miðaðar við það, hversu lengi var verið að ganga eða ríða þennan og þennan spotta, en mjög var það auðvitað ónákvæmt og sífelt ágreiningsefni. Þarf ekki að fjölyrða um það, að eina leiðin til þess að þekkja landið er það að hafa uppdrættina.

Ef litið er til eldri uppdrátta, t. d. þess, sem er í ferðabók Eggerts Ólafssonar, sem er sá elsti, þá sjest, hve feikilega menn hafa gert sjer skakkar hugmyndir um margt. Sama má segja um uppdrætti annara landa áður en reglulegar, nákvæmar mælingar fóru fram. Mælingar Bjöms Gunnlaugssonar, sem mældi landið að mig minnir á árunum 1830–1840, voru að vísu góðar, þegar litið var til allra ástæðna, og herforingjaráðið hefir lokið miklu lofsorði á það, hve miklu hann hafi fengið afkastað, en nákvæmar vora þær þó ekki, sem ekki var von.

Um uppdrætti herforingjaráðsins get jeg auðvitað ekki dæmt sem sjerfræðingur, og heyrt hefi jeg suma hafa talsvert út á þá að setja, en jeg veit þó, að hjer er um afskaplega mikla framför að ræða. Hefi jeg talsvert notað uppdrættina á ferðalögum, og hafa þeir reynst mjer mjög sannir og fullnægjandi. Sjálfsagt má finna í örsmáum atriðum sumstaðar ónákvæmni, t. d. hvar gras er og hvar ber holt og slíkt, en meðfram stafar það af því, að mælingamar eru í raun rjettri miðaðar við smærri mælikvarða en uppdrættirnir hafa. Eru uppdrættir þessir ágæt undirstaða til að byggja á ýmsar verklegar framkvæmdir, svo sem vegagerðir o. fl. Ættu þeir að vera uppsettir hjer á Alþingi, t. d. hver sýsla eða nálægt því, svo að þægilegra væri fyrir þm. að átta sig á þeim bygðarlögum, þar sem þeir eru ókunnir. En það verður mjög erfitt með því að skoða hvern einstakan uppdrátt.

Einnig eru þeir nær því ómissandi á ferðalögum, og auk þess er bæði skemtilegt og fróðlegt að eiga þá.

Skal jeg svo ekki hafa þennan almenna inngang lengri, en víkja að einstökum liðum tillögu minnar.

Um 1. liðinn skal jeg geta þess, að jeg taldi sjálfsagt, að reynt væri að leita samninga við hina fyrri aðilja þessa máls, herforingjaráðið; hafa þeir reynslu af mælingunum hjer, og við höfum einnig reynsluna af þeim og hefir þótt hún góð. Get jeg líka vel skilið, að það muni herforingjaráðinu metnaðarmál að ljúka við þessar mælingar, sem það hefir fyrst upp tekið. Þó hefi jeg skilið hjer eftir smugu, ef svo skyldi reynast, að erfitt yrði að ná samningum við það. Mætti vera, að það hefði svo mikið að gera, að það gæti ekki sint því, eða þá að hægt væri að fá verkið ódýrara en það gæfi kost á.

Annar liður till. fjallar um það að setja takmörk um það, hve verkið standi lengi yfir. Sá tími, er gekk til þess, sem búið er af verkinu, er 14 ár. Er talið svo, að verkið sje nokkru meira en hálfnað. Strandlengjan er miklu meira en hálfnuð, en öræfin eru eftir. Var það ætlun herforingjaráðsins að mæla hálendið miklu lauslegar –leggja áhersluna á að fá rjetta afstöðuna, en staðirnir, sem þarf að festa nákvæmlega, eru miklu færri.

Taldi jeg, að hægt mundi að ljúka verkinu 1935, ef byrjað er 1924, því að ef kortin eru dregin upp með minni mælikvarða, eins og till. fer fram á, er

4 verkið talsvert minna, og mundi það muna 1–2 árum. Auðvitað er mjer þetta ekkert kappsmál, en jeg hefi viljað gefa stjórninni eitthvað fast við að styðjast, til þess að hún gæti hagað sjer eftir því, hve marga menn þyrfti o. s. frv.

Þriðji liðurinn er um stærð mælikvarða uppdráttanna. Uppdrættirnir, er gerðir hafa verið, eru 1:50000, en í till. er miðað við 1:100000. Í bók, sem herforingjaráðið hefir gefið út um mælingarnar, kallar það hið fyrra fjórðungsblöð, en hið síðara atlasblöð. Var mælingunum víst hagað eftir atlasblaðastærð (1:100000), en uppdrættirnir voru svo dregnir á fjórðungsblaðastærð (1:50000). En við þetta er lítið unnið. Hin raunverulega nákvæmni verður engu meiri. Kostirnir, sem stærri kortin hafa, eru aðallega þrír, og allir litlir. Þau eru glæsilegri, plássið er meira, ef menn t. d. vilja safna miklu af örnefnum á það, og svo er það, að þeir upp drættir, er gerðir hafa verið, hafa þessa stærð, og mönnum er jafnan kærara að halda áfram á hafinni braut.

Smærri kortin hafa aftur á móti mikla kosti. Þau eru ódýrari og verða 2–3 árum fljótari vegna þess, hve vinnan er minni við þau. Auk þess eru þau miklu nothæfari til þess, sem þau eru alment notuð til, t. d. ferðalaga. En mesti kosturinn er það, hve miklu ódýrari þau eru.

Þau stærri, sem mundu verða um 300, kosta 2 kr., og yrðu það 600 kr. Mundu ekki nema sárfáir geta veitt sjer þann „luxus“. Þau minni yrðu 92 og kostuðu 184 kr., og mundi mörgum verða mögulegt að eignast þau.

Jeg vil skjóta því inn í, til þess að fyrirbyggja misskilning, að sumir kynnu að líta svo á, að hjer væri um mótsögn að ræða. Ef fjórðungsblöðin eru 300, þá gætu menn af því ráðið, að atlasblöðin yrðu ferfalt færri, eða 75. En svo er ekki, vegna þess, að atlasblöðin hafa stundum allmikið, t. d. helming, á sjó, og er þá hægt að sleppa fjórðungsblöðum af þeim svæðum, þar af leiðandi verða þau hlutfallslega dálítið færri.

Jeg hefi sjeð uppdráttinn af Húnavatnssýslu í smærri mælikvarðanum (1:100000); er hann fullnægjandi í alla staði. Það er svo langur vegur frá, að það sje þröngt um nöfnin, að jeg býst við, að það kæmust fyrir alt að því þrefalt fleiri nöfn.

Viðvíkjandi 4. lið till. er það að segja, að eins og menn skilja, er nauðsynlegt að fá uppdrætti af öllu landinu í sama hlutfalli. En það er kostnaðarminna að gera atlasuppdrætti af því öllu heldur en að hafa sömu stærð og var á því, sem eftir er að mæla. Og því ætti að vera lokið á svipuðum tíma, svo að menn gætu þá fengið uppdrætti af öllu landinu í sama mælikvarða.

Þá er það 5. liður. Það hefir verið erfitt að ná í uppdrættina. Morten Hansen skólastjóri hafði þá í umboðssölu, en þegar hann vildi láta af því, lenti í þó nokkru stímabraki um þetta. En það má ekki koma fyrir, að uppdrættirnir fáist ekki hjer.

Þá er verðið. Eins og menn vita, verða bóksalar að fá nokkuð fyrir að selja vörn sína, en venja er að setja verðið í byrjun svo hátt, að þeir þurfi ekki að færa það upp úr því. Síðan gerir gengismunurinn það að verkum, að bóksalar hjer á landi þurfa nú að færa verðið fram. Væri gott, ef hægt væri að koma þessu betur fyrir.

Jeg get þá vikið að þessum 2 brtt., sem jeg á. Sú fyrri er á þskj. 312 og er eingöngu formlegs eðlis; hún breytir ekki efni. Get jeg því leitt hana hjá mjer. Hin brtt. mín er á þskj. 413 og er komin fram af því, að mjer hefir verið bent á, að við þyrftum nauðsynlega að fá hingað heim athuganir þær, sem bygt hefir verið á til þessa, drögin að þeim uppdráttum, sem gerðir hafa verið hingað til. Þetta er sjálfsagt, eftir að landið hefir tekið mælingarnar í sínar hendur, en þá þarf að semja um það að fá það frá fyrri tímunum, því að vitaskuld eigum við enga heimting á því. Þess vegna kom jeg fram með þessa viðaukatillögu.

Það kann nú að þykja óþarfi að koma með þessa þáltill., af því að upphæð er í núgildandi fjárlögum, svo að ætla mætti, að það væri ráðið, að mælingarnar færu nú að hefjast af nýju. En svo er ekki. Það hefir víst altaf staðið í fjárlögum nokkur veiting í þessu skyni, en ekki verið notuð, svo að ekkert er hægt að ráða af því einu. Var jeg að hugsa um að koma með fyrirspurn, en slíkt verður oft svo gagnslítið, að jeg kaus mjer heldur þál.formið.

Loks er það vatill. frá hv. þm. Dala. (BJ) á þskj. 308, en um hana get jeg sagt það, að jeg felst á hana. Það veitti ekki af því að stuðla að því eftir megni, að öll örnefni væru sem rjettust. En það hafa ýmsir rekið sig á ýmislegt ábótavant í því efni. Ekki svo mjög fyrir það, að nöfnin væru skakt rituð, heldur að þau væru á skökkum stöðum eða afbökuð og vantaði stundum alveg mörg nöfn.