24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (3013)

125. mál, landmælingar og landsuppdrættir

Flm. (Magnús Jónsson):

Það eru aðeins fáein orð, sem jeg ætla nú að segja. Jeg vil byrja með því að þakka hæstv. atvrh. (KIJ) fyrir góðar og liðlegar undirtektir við þetta mál; en jeg hjó eftir því, að hann sagði, að allur kostnaður og útbúningur við þessar landmælingar ætti að greiðast í dönskum krónum. Bið jeg hann því hjer með um svar við því, hvort það sje álit hæstv. atvrh. (KIJ), að landið þurfi að kaupa öll áhöld, sem við þarf, eða hvort ekki mundi mega vænta, að þau fengjust leigð við sæmilegu eftirgjaldi.

Annað atriði vil jeg og spyrja um, og það er viðvíkjandi kaupi herforingjanna. Jeg hygg, að þeir muni halda sínum venjulegu launum, en fái þó auk þess einhverja þóknun fyrir vinnu sína hjer.

Jeg hygg þessi þáltill. hafi enga ósanngimi í sjer fólgna við þá, sem búnir eru að kaupa stærri uppdrættina, því að þeir fá uppdrættina í minni mælikvarðanum yfir alt landið fyrir minna fje en það kostar að fá þá í stærri mælikvarðanum yfir það, sem eftir er af landinu. Upphaflega mun það hafa verið tilætlun herforingjaráðsins að gefa út uppdrættina í báðum þessum mælikvörðum, 1:50000 og 1:100000, en það byrjaði aðeins á að gefa út kort í stærri mælikvarðanum fyrst. Hygg jeg, að herforingjaráðið hafi þegar fyrir löngu verið búið að komast að því, að þetta var óheppilegur mælikvarði, en haldið þó þessari útgáfu áfram vegna þess, hversu einmitt þetta var hjartfólgið mál manni þeim, sem hjer stóð fyrir mælingunum og var búinn að vinna að þeim hjer mjög lengi, eða nærri því frá upphafi. Þótt herforingjaráðið hafi látið búa til prentunarmót að stærra broti landsuppdráttanna og sitji svo uppi með þau, hygg jeg það verði þó ekki óviðráðanleg tálmun þessu máli.

Viðvíkjandi kortunum af Húnavatnssýslu get jeg upplýst það, að þau eru nú ekki til hjer, en það er aðeins í bili og af sjerstökum ástæðum. Hafði einn maður að norðan keypt alt, er til landsins kom af þeim, þar eð hann hugði, að verða mundi svo mikil eftirspurn eftir þeim þar norður.

Jeg sje ekki, að till. um nöfnin á landsuppdráttunum geti verið neitt móðgandi við herforingjaráðið. Jeg veit til þess, að þegar það framkvæmdi mælingarnar á Snæfellsnesi, lagði það mikla áherslu á að ná þeim sem rjettustum; en þetta strandaði víst oft á því, að fólkið þar var ekki fært um að gefa sem nákvæmastar upplýsingar um þau. Veit jeg, að herforingjaráðið mundi þakklátt fyrir aðstoð í þessu efni; en aðstoð við rjettritun nafna getur það auðvitað fengið í Kaupmannahöfn, en til þess, að rjett nöfn sjeu sett á rjetta staði á uppdráttunum, þarf að senda uppköst að þeim út hingað áður en þau eru prentuð, til leiðrjettingar.