27.04.1923
Neðri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í D-deild Alþingistíðinda. (3018)

125. mál, landmælingar og landsuppdrættir

Jón Þorláksson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. á þskj. 446, sem jeg álít, að segi með færri orðum það, sem hlýtur að vera meining aðaltill. á þskj. 445. Við því má búast, að kostnaðurinn við framhald þessara landmælinga verði upp undir 1 miljón kr. Nú segir till. ekkert um það beinlínis, hvort ætlast sje til þess, að stjórnin fullgeri sjálf þessa samninga eða ekki. En mjer virðist sjálfsagt, að þar sem um svona mikla upphæð er að ræða, ráði stjórnin málinu ekki til lykta án samþykkis þingsins. Annars þurfa ýms atriði þessu viðvíkjandi mjög náinnar athugunar, einkum að því leyti, hvað mikið skuli vinna að mælingum í óbygðum landsins og hvernig skuli haga framkvæmdunum yfirleitt. Þetta álít jeg að ekki sje unt að segja um ákveðið að órannsökuðu máli, og þess vegna sje mín tillaga heppilegri en hin sundurliðaða till. á þskj. 445.

Út af því, sem sagt var við fyrri umr. málsins um mælikvarðastærðina, vil jeg benda á það, að kort í mælikvarðanum 1:100000 hafa að vísu þann kost að vera þægilegri í meðförum, en hins vegar eru þau í mælikvarðanum 1:50000 miklu nothæfari við undirbúning allra verklegra framkvæmda. En aðalatriðið er auðvitað, að til sjeu kort í öðrumhvorum mælikvarðanum. En jeg drep á þetta hjer til athugunar, þegar farið verður að semja um málið og til þess að minna á það, að hjer er margs að gæta.