27.04.1923
Neðri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í D-deild Alþingistíðinda. (3019)

125. mál, landmælingar og landsuppdrættir

Flm. (Magnús Jónsson):

Það er best að jeg byrji á brtt. mínum, sem eru eingöngu orðabreytingar, sem sje að setja dönsku stjórnina í stað herforingjaráðsins, og á það við till. okkar hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) beggja. Annars er meiningarmunurinn á till. okkar í rauninni enginn. Og að sjálfsögðu ætlast jeg ekki til þess, að stjórnin ráði þessu endanlega til lykta án samþykkis þingsins. En jeg taldi rjettara, til þess að herða á stjórninni, að telja fram nokkur einstök atriði, sem ástæða væri til að athuga sjerstaklega. Það væru kanske helst tímatakmörkin, sem gætu verið mönnum þyrnir í augum, sem sje 1924 —1935, en þau eru líka sett meira til áherslu en til þess, að stranglega þurfi að fara eftir þeim, ef það er miklum erfiðleikum bundið, en ástæða til að undirstrika það, að málið verði ekki dregið um of.

Jeg vil leggja áherslu á það, að till. mín verði fremur samþ. en hin brtt., því að hún felur í sjer sama varnaglann, en tekur fleira fram. Um mælikvarðann er það að segja, að stærri mælikvarðinn, 1:50000, er miklu dýrari, en engu nákvæmari, en auðvitað er hann greinilegri og þægilegri til að marka vegi á hann o. s. frv. Minni mælikvarðinn, 1:100000, er aftur á móti miklu nothæfari alment og ódýrari, en þó engu ónákvæmari.

Annars var það hugmynd mín, að uppdrættirnir yrðu gerðir eftir báðum mælikvörðunum, þegar stundir líða fram, og það mun líka hafa verið hugmynd herforingjaráðsins. En jeg tel rjettara að gera fyrst þann minni. Vona jeg því, að þessi liður till. fái að standa.