11.05.1923
Efri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (3035)

159. mál, öryggi sjómanna

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg álít rjettara, að till. þessi væri borin upp í tvennu lagi. Efnið er eiginlega tvennskonar, og vera má, að sumir sjeu með öðrum parti till., þótt þeir sjeu ekki með hinum.

Fyrri hlutinn miðar að því, að skipin geti fengið skeyti frá veðurathugunarstofunni um væntanlegt veðurfar.

í sambandi við þörfina á þessu má geta þess, að fyrir nokkrum árum rannsakaði núverandi landlæknir, Guðmundur Björnson, þetta mál, og komst þá að þeirri sorglegu niðurstöðu, að eins mikill hundraðshluti af þjóðinni færist í sjó af slysförum eins og fjelli af mönnum í stærstu styrjöldum. T. d., að Þjóðverjar hefðu ekki mist meira í ófriðnum við Frakka 1871, að tiltölu, heldur en hjer færist í sjó árlega.

Orsökin til þess, hve hætt smáskipum er hjer við land, er óstöðugt veðráttufar. Hjer mætast heitir og kaldir straumar í sjónum og landið er fjöllótt. Þetta hefir þau áhrif á veðráttufarið, að á skömmum tíma er sjór orðinn ófær, skip farast og menn drukna.

þetta hefir nú að nokkru leyti færst til betri vegar, þar sem skipin hafa stækkað. En enn þá er þó mikið stunduð veiði af smáum bátum, t. d. vjelbátunum, svo full þörf er aðgerða. Það er nú máske erfitt um vik í þessu efni, en þar sem Norðmenn hafa hafist handa í þessu efni, ætti að mega læra af þeim. Þar sem hjer eru að nokkru kunnar aðgerðir þeirra í þessu efni, þá skal jeg lýsa því stuttlega.

Í Bergen er veðurathugunarstofa í mjög góðu lagi. Forstöðumaður hennar er talinn vera færasti maðurinn í heimi í þeirri grein. Þessi veðurathugunarstofa stendur í sambandi við veðurathugunarstofnanir á Grænlandi og Jan Mayen, og þeir vilja einnig fá glögg skeyti frá Íslandi. Þessi vísindagrein er komin á svo hátt stig hjá Norðmönnum, að þeir sjá venjulega óveður fyrir með 6–12 klst. fyrirvara. Við þessa spástöð er tengd loftskeytastöð, sem sendir þráðlaus talskeyti á hverjum klukkutíma um Noreg allan, og hafa fiskiskipin og bátarnir móttökutæki. Slík áhöld eru mjög ódýr, kosta aðeins 1–2 hundruð krónur, en taka aðeins móti skeytum.

Gagnið er þá þetta: Veðurfræðistofan segir fyrir um veður, sendir spádóminn til bátanna, og þeir geta svo hagað sjer eftir því, annaðhvort setið í landi eða horfið af sjó, ef illviðri er í aðsigi.

Það ætti því ekki að vera mjög erfitt fyrir stjórnina, með hjálp símastjóra og veðurfræðingsins hjer, að fá skýrslu um þessa starfsemi í Noregi, hvað það kostar og hvernig haganlegast myndi að koma því fyrir hjer.

Það má einnig á það minnast, þótt það liggi ekki fyrir að þetta mætti nota jafnframt til að varpa ræðum og söng út um alt land, með því að nota þessa ódýru aðferð, sem á ensku heitir „broad casting“ en á íslensku hefir verið kallað „víðboð“. Þetta gæti haft mikla þýðingu vegna þess, hvað okkar þjóð er dreifð. Það mætti jafnvel koma ræðum okkar þingmanna til afskektustu landshluta, svo hv. kjósendur gætu dæmt um þær þegar í stað af eigin reynd. Slík stöð myndi geta haft mikla menningarþýðingu fyrir þjóðina alla.

Viðvíkjandi síðari lið till. get jeg verið fáorður. Það er sjerstakt atriði, hvernig því væri komið fyrir. Útvegurinn er hættulegur, honum fylgja miklar druknanir, og sýndist því ekki fjarri, að sá atvinnuvegur bæri afleiðingarnar, með því að styrkja ekkjur og börn.

Hvað styrkupphæð viðvíkur, þá mætti hún ekki vera minni en svo, að ekkjumar og börn þeirra gætu lifað sómasamlegu lífi.