20.04.1923
Efri deild: 44. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (3045)

144. mál, póstflutningur í Skaftafellssýslum

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg get verið stuttorður um þessa tillögu, því að hún skýrir sig sjálf.

Skaftafellssýsla er afarilla sett með allar samgöngur, vegna hafnleysis. Till. stefnir að því að stórbæta og auka póstgöngur Skaftfellinga, þrátt fyrir hafnleysið. Skaftfellingar hafa sjálfir gert tilraunir til að koma vörum á milli lands og skips, þótt ófært væri að komast á milli á bátum. Var það núverandi þm. V.-Sk. (LH), sem hefir tekist að skipa út kjöti frá Vík, þótt ekki væri hægt að koma bátum við.

Það myndi því óneitanlega bæta mikið úr samgönguleysi Skaftfellinga, ef hægt yrði að koma pósti á land úr strandferðaskipunum, þegar þau færu þar fram hjá, hvernig sem veður er.

Fyrirkomulagið við þennan póstflutning hafa menn hugsað sjer þannig, að hæfilega langt frá landi lægi „dufl“ við festar. Tvöfaldur strengur liggur frá landi út að „dufli“ þessu. Þegar skip kemur að flothylkinu, er því lyft upp á þiljur, strengurinn leystur frá því, pósthylkið fest við strenginn, og síðan látið dragast til lands. Um leið kemur póstur úr landi, með sama hætti, eftir hinum þræðinum. Að lokum tengja skipsmenn strengina aftur við „duflið“.

þær tilraunir, sem gerðar hafa verið í þessa átt, eru vitanlega ekki full trygging fyrir því, að þetta geti lánast. En tillagan fer fram á það, að gerðar sjeu frekari tilraunir með þetta. Gæti það svo orðið til þess að bæta úr hinum vondu póstsamgöngum, sem þessar sýslur eiga við að búa, hefir tillagan náð tilgangi sínum.