05.05.1923
Efri deild: 56. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í D-deild Alþingistíðinda. (3060)

126. mál, bygging landsspítala

Flm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Það eru nú liðin nærfelt 78 ár síðan Jón Sigurðsson forseti vakti fyrstur máls á þeirri þjóðarnauðsyn að reisa landsspítala í Reykjavík. Málinu hefir verið hreyft nokkrum sinnum síðan, en eins og raun ber vitni, þá er þetta nauðsynjamál þjóðarinnar ekki komið í framkvæmd enn, og hefir lengst af verið ótrúlega hljótt um það.

Það yrði of langt mál að rekja sögu landsspítalamálsins hjer, enda hefi jeg ekki ætlað mjer það; jeg ætla aðeins að benda stuttlega á þau ártöl, þegar mál þetta hefir verið rætt að einhverju leyti á Alþingi síðan 1845, er Jón Sigurðsson forseti hreyfði því þar fyrstur manna. Hann bar þar þá upp þá tillögu — sem þá var kallað uppástunga — að bætt yrði læknaskipunin hjer á landi og sett á laggirnar sjúkrahús. En mál þetta varð ekki útkljáð. Næst gerir Jón Sigurðsson aðra tilraun í sömu átt á þinginu 1847. í ræðu, sem hann hjelt þar, fórust honum þannig orð:

„Jeg dirfist að ítreka hina fyrri uppástungu mina, sem var sú, að Alþingi beri upp þá bæn við konung vorn, að læknaskipun hjer á landi verði bætt svo fljótt sem unt er og læknum fjölgað á þann hátt: I. að spítali verði settur á stofn í Reykjavík með tveim læknum, að ótöldum landlækni, og verði þar ætlað herbergi sjer í lagi handa holdsveikum, sem menn ætla læknandi; II. að læknum verði fjölgað smám saman, þangað til læknir yrði að minsta kosti í hverri sveit; III. að kensla á meðferð einföldustu sjúkdóma (sjúkdómstilfella) og leyfi til að fara með þá veittist svo mörgum, að slíkir aðstoðarlæknar yrðu í hverri sveit“.

Á sama þingi voru lagðar fram bænarskrár um læknaskipun og spítalabyggingu frá nokkrum sýslum. Svo varð hljótt um málið um langt skeið, þótt ýmsar umbætur kæmust á læknaskipun í landinu.

Læknafundurinn 1896 lagði mikla áherslu á, að spítali, þ. e. landsspítali, yrði reistur, og gerir ráð fyrir, að byggingin komist upp aldamótaárið. Á Alþingi 1897 kemur fram till. til þál. um landsspítalamálið. Flutningsmenn hennar voru Jónas Jónassen landlæknir, Hallgrímur Sveinsson biskup og Jón Jónsson frá Sleðbrjót, 2. þm. N.-M. Till. var svo hljóðandi:

„Efri deild skorar á stjórnina: I. að leggja fyrir Alþingi áætlun um kostnað við byggingu landsspítala í Reykjavík; II. að leitast fyrir hjá Reykjavíkurbæ, hvort og að hve miklu leyti bæjarsjóður vill styrkja byggingu spítala þessa og bera árlegan kostnað hans“.

Tillögumönnum fanst ástandið í Reykjavík óhæft, að enginn spítali skyldi vera í höfuðstaðnum, nema spítali, er væri eign „prívat“fjelags, og húsið þó hvorki viðunanlega stórt nje viðunanlegt að öðru leyti. Hjer þurfi ekki aðeins spítala, þar sem hægt sje að veita sjúklingum, bæði úr bænum og aðkomandi, aðhjúkrun, heldur einnig stofnun, sem gæti verið hæfileg til æfingar og lærdóms fyrir nemendur á læknaskólanum.

Þá kemur einnig á sama þingi fram till. til þál. frá Þórði J. Thoroddsen lækni. Skorar hann á stjórnina að leggja fyrir Alþingi 1899 áætlun um kostnað við bygging landsspítala í Reykjavík, er rúmi 45 sjúklinga, svo og uppdrætti af honum, og um leið að leitast fyrir hjá Reykjavíkurbæ, hvort bæjarsjóður vilji styrkja bygging spítala þessa og árlegan kostnað við hann.

Þingmenn lögðu nú misjafnlega mikið upp úr þessu máli, eins og vænta mátti. Einn þeirra, sjera Jens Pálsson, telur málið þjóðarnauðsyn og segir meðal annars:

„Að búa í þjóðfjelagi því, þar sem viðunanlegur opinber spítali er ekki til, er sama og að vera í stöðugri lífshættu“.

Á Alþingi 1899 kemur fram frv. til laga um stofnun landsspítala í Reykjavík, og var flutningsmaður þess Jónas Jónassen landlæknir.

Stjórnin hafði, samkvæmt áskorun Alþingis 1897, látið gera áætlun um kostnað við byggingu spítala, er rúmaði 45 sjúklinga, og var hann áætlaður um 200 þús. kr.

Jónassen landlæknir telur það aðalatriðið í þessu máli, að með öðru móti en landsspítalabyggingu verði læknanámi ekki haldið áfram í landinu. þetta frv. var að vísu samþykt í þinginu, en varð þó ekki að lögum.

Í síðasta skifti lá landsspítalamálið fyrir Alþingi árið 1901, og var þá lagt fyrir það af stjórninni. Landið bauðst nú til að leggja fram 90 þús. kr. til byggingarinnar, gegn 18 þús. kr. frá Reykjavíkurbæ, og 10 þús. kr. að auki til útbúnaðar. Amtmaður og landlæknir skyldu hafa yfirstjórn spítalans á hendi. En um sama leyti og þetta frv. kom fram á þinginu, buðust St. Josephssystur í Landakoti til þess að byggja hjer spítala með aðgangi fyrir læknanema. Samningar virðast svo hafa tekist með landsstjórn og St. Josephssystrum. Spítali þeirra var bygður og landsspítalamálið þar með úr sögunni um langt skeið.

Það er svo ekki fyr en 1915, að landsspítalamálinu er hreyft aftur, ekki á Alþingi, heldur af íslenskum konum, í tilefni af rjettarbótum þeim, er þær öðluðust með stjórnarskrárbreytingunni 19. júní 1915, þar sem þeim eru veitt full stjórnmálarjettindi. þegar fregnin barst hingað til bæjarins, áttu tvö kvenfjelög hjer frumkvæði að því að stefna saman stjórnum eða formönnum allra kvenfjelaga bæjarins til þess að ræða um, hvað gera ætti til þess að minnast þessa mikla viðburðar í sögu landsins á heppilegan og minnistæðan hátt. Og 25. júní voru mættir á fundi, sem haldinn var í Kvennaskólanum, 12 fulltrúar frá 12 kvenfjelögum bæjarins til þess að ræða málið. Var þá ákveðið að stofna sjóð, er verja skyldi til þess að hrinda stofnun landsspítala hjer í Reykjavík sem fyrst í framkvæmd. Konur hugsuðu sjer að starfa að þessu á tvennan hátt: í fyrsta lagi með sjóðstofnun, og í öðru lagi með því að beita áhrifum sínum um land alt til þess að vinna fyrir þetta nauðsynjamál og fá Alþingi og stjórn til þess að taka málið til undirbúnings og framkvæmda.

Þessum samtökum bundust íslenskar konur hjer í bæ um málið, og var þá jafnframt horfið að því ráði að fá konur víðsvegar um landið til þess að taka einnig þetta mál að sjer. Málaleitun þessi bar mjög góðan árangur; konur skildu víðast hvar þörfina á því að vekja þetta mál af svefni þeim, sem það hafði mókt í undanfarin ár, frá því það var svæft á Alþingi 1901. Og afskiftum íslenskra kvenna má vissulega að nokkru leyti þakka það, að landsspítalamálið á nú nærri því óskift fylgi allra, jafnt karla sem kvenna, um land alt.

Það er satt, að við konur höfum unnið að þessu máli að mestu leyti í kyrþey, en árlega hafa konur þó unnið einn dag ársins opinberlega fyrir landsspítalamálið, bæði hjer í Reykjavík og víðsvegar um landið, og á þann hátt haldið málinu vakandi, auk þess, að talsvert fje hefir safnast á þessum árum. Sjóðurinn var um síðustu áramót um 208 þús. kr. og minningargjafir til Landsspítalasjóðsins rúmar 60 þús. kr. þetta eru að vísu ekki háar upphæðir nú, þegar hin meiri háttar fyrirtæki eru talin í miljónum. En jeg skal í þessu sambandi taka það fram, að konur ætluðu sjer aldrei þá dul að reisa landsspítala. Þeim var frá upphafi ljóst, að það hlyti ríkissjóður að gera, og það viðurkennir bæði þing og stjórn.

Jeg minnist þess með viðurkenningu, að hæstv. núverandi forsrh. (SE) skipaði nefnd í landsspítalamálið 1916, þegar hann var fjármálaráðherra. Sú nefnd átti að sjá út heppilega lóð undir væntanlegan landsspítala, koma fram með till. um stærð hans o. s. frv.

Nefnd þessi lauk starfi sínu á stuttum tíma, og varð árangurinn af því sá, að landsstjórnin samdi við Reykjavíkurbæ um kaup eða skifti á lóð þeirri í Skólavörðuholtinu, sem síðan er ákveðið, að spítalinn verði reistur á, og telja menn staðinn heppilega valinn.

Árið 1917 voru gerðar nokkrar dýrtíðarráðstafanir af hálfu landsstjórnarinnar, til þess að bæta að einhverju leyti úr atvinnuleysi verkamanna hjer í bænum. Var þá tekið upp og höggið allmikið grjót, sem ætlað var í landsspítalann, og mæltist þessi ráðstöfun stjórnarinnar mjög vel fyrir.

Eins og mörgum er kunnugt, skipaði stjórnarráðið 9. mars 1921 nefnd, til þess að gera nauðsynlegan undirbúning undir byggingu landsspítalans. Þessi nefnd var að lokum skipuð 4 læknum og 1 konu.

Hv. deild hefir nú gefist kostur á að kynna sjer skýrslu þessarar nefndar, sem formaður hennar sendi stjórnarráðinu ásamt uppdráttum og kostnaðaráætlun um byggingu þess hluta spítalans, sem gert var ráð fyrir að byggja ætti fyrst, sem sje aðalálmunnar og vesturálmunnar.

Gert er ráð fyrir, að þessi hluti spítalans rúmi sem næst 120 sjúklinga, og kostnaður við byggingu hans, auk þvottahúss, vjelahúss, líkhúss og rannsóknarstofu, verði ca. 2600000 kr. með núgildandi verðlagi. En að reisa öll húsin, sem fyrnefndar teikningar sýna, er áætlað að kosti um 3400000 kr.

Jeg hefi nú farið yfir nokkra sögulega aðaldrætti landsspítalamálsins, sem því miður hefir meir lent í skrafi en framkvæmdum. En við svo búið má ekki lengur standa.

Þörfin kallar hærra með hverju ári, þörfin á bættum kjörum sjúklinga og þörfin á betri námskjörum læknaefna okkar.

Árlega fjölgar fólkinu, ekki aðeins í höfuðstaðnum, heldur og í landinu yfirleitt, og um leið fjölgar sjúklingum.

Mikið af þeim sjúklingum, sem nokkur ráð hafa og haldnir eru erfiðum sjúkdómum, koma hingað til bæjarins, þar sem sjerfræðinga er helst völ, einkum þeir, sem undir skurðlækningar þurfa að leggjast.

Auk þess eru húsakynni hjer í bænum víða svo ljeleg, að ekki eru tiltök að hafa sjúklinga heima. Og auðvitað er mörgum sjúkdómum svo háttað, að ekki er gerlegt að hafa sjúklinginn í heimahúsum, sumpart sjálfs hans vegna og sumpart vegna heilbrigðra heimilismanna. Hins vegar eru þau hús, sem sjúkrahússnafnið bera, alt of fá og smá til þess að fullnægja þörfinni.

Þó að læknar og umráðamenn sjúkrahúsanna leggi sig í líma til að útvega langt leiddum sjúklingum sjúkrahússvist, þá hepnast það engan veginn altaf, og síst í tíma.

Og á hinn bóginn leiðir þetta ástand til þess, að margur verður að fara úr sjúkrahúsi í ótíma, löngu fyr en hæfilegt er, af því að þörf annars sjúklings, enn þá aumari, kallar að.

Og þegar litið er til húsnæðisþrengslanna í bænum, þá má nærri geta, að mörgum sjúklingi, ekki síst aðkomumönnum, líður oft óþarflega illa, bæði áður en hann fær sjúkrahúsvist og eins eftir á, sjerstaklega þeim ótöldu mönnum, sem hafa orðið fyrir því óláni að komast of seint í sjúkrahús og fara þaðan of snemma.

Að því er þörfina á landsspítala fyrir læknadeild háskólans snertir, þá tel jeg mjer nægja — með leyfi hæstv. forseta — að lesa upp eftirfarandi ummæli Læknafjelags Reykjavíkur, úr brjefi, dags. 10. f. m.:

„Læknafjelag Reykjavíkur telur svo brýna nauðsyn bera til þess, að landsspítali sje bygður, að undan þessu verður ekki flúið. Húsnæði vantar hjer fyrir sjúklinga, kensla læknanema verður erfiðari með ári hverju, kensla ljósmæðra- og hjúkrunarnema getur ekki orðið viðunandi fyr en fram úr þessu verður ráðið“.

Um þá þörf þarf ekki að efast; læknunum sjálfum er hún kunnust, enda hlýtur læknisfræðin, sem jafnframt er list (sbr. læknislist) að þurfa á stóru og í alla staði vel búnu sjúkrahúsi að halda. Það verður ekki að list, sem ekki er leikið, og það hlýtur vitanlega að vera margfalt erfiðara að læra læknisfræði án þess að sjá hvorttveggja: sjúkdóma og fullkomnustu lækningatilraunir.

þörfin á stórum og verulega vel búnum landsspítala er þannig staðreynd, enda hafa Alþingi nú borist margar áskoranir, bæði frá fjelögum, sem ant er um mál þetta, og eins í þingmálafundagerðum. Þannig hafa 7 kvenfjelög í Reykjavík skorað á yfirstandandi Alþingi að láta byggja landsspítala svo fljótt sem auðið er.

Þá er komið að hinu atriðinu, hvort vjer sjeum færir um að byggja spítalann í náinni framtíð og búa hann svo vel út sem skyldi.

Það er búist við, að spítalinn kosti fullgerður um 3400000 kr. þetta er að vísu allmikil upphæð, en þó vel kleift að leggja hana fram „til fjörsins“, enda ekki til ætlast, að taka fje þetta af venjulegum ársgjöldum ríkissjóðs, heldur yrði að taka lán, og mun stjórnin hafa byggingarlánsheimildir frá 1922, og er bygging landsspítala þar framarlega.

En þá er og vert að athuga það, að ekki mun þurfa að byggja spítalann allan í einu. Gert er ráð fyrir því, að komast megi af með framhliðina (og e. t. v. ekki alla) og vesturálmuna í bili, auk eldhúss, þvottahúss, líkhúss og rannsóknarstofu. Kostnaðurinn við þetta er áætlaður 2600000 kr. með núgildandi verðlagi, og er þessi upphæð ekki hærri en svo, að ráða mætti jafnvel við hana í fjárlögum.

Komið hafa fram raddir um það að verja nokkru af ágóða ríkisins af áfengissölu til byggingar spítalans. Sýnist mjer það gott ráð, ef ríkissjóður hefir þá verslun svo lengi, að hann megi missa eitthvað af tekjunum, að þá yrðu teknar árlega ca. 200000 kr. og lagðar til hliðar til byggingar landsspítala. Með því móti eignuðumst við hann skuldlausan á 17 árum.

Annars telst mjer svo til, að nýju gjaldaliðirnir í fjárlagafrv. því, sem nú er á ferðinni gegnum þingið, muni nú nema alt að 3/4 milj. og þar af um 300 þús. kr. til nýrra símalagninga. Hvort mun nær að leggja síma inn í hvert kot, að heita má, eða gefa sjúklingum kost á að fá heilsu sína aftur?

Hvort skyldi vera skynsamlegra, að leggja fram styrk og lán til vafasamra fyrirtækja, jafnvel til áhættufyrirtækja einstakra manna, eða hitt, að leggja fram nokkurt fje til heilsubóta öldnum og óbornum?

Til hvers er að hafa lækna og læknakenslu, sem kostar alt að 350 þús. kr. á ári, ef við treystum okkur ekki til að fá henni óhjákvæmileg tæki, sjerstaklega spítala, til þess að vinna verk sinnar köllunar ?

Til hvers eru yfirleitt öll þessi þing, Alþing, stjórnarþing o. s. frv., ef við treystum okkur ekki til að varðveita „þing allra þinga“, heilsu sjálfra vor og eftirkomendanna ?