05.05.1923
Efri deild: 56. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í D-deild Alþingistíðinda. (3061)

126. mál, bygging landsspítala

Forsætisráðherra (SE):

það mun öllum ljóst, að kvenþjóðin hefir látið mál þetta mjög til sín taka, og ekki síst hv. flm. (IHB), og þegar landsspítalinn loks verður reistur, mun hann verða skoðaður sem minnisvarði um dugnað íslenskra kvenna.

Hv. flm. (IHB) hefir sagt sögu málsins, og jeg hefi þar litlu við að bæta. Jeg vil aðeins minnast á nefndina, sem skipuð var 1921, til að undirbúa byggingu landsspítala. Þessi nefnd hefir unnið mikið verk og þarft, án alls endurgjalds. Munu störf þessarar nefndar og áætlanir flýta mjög fyrir framgangi málsins. Tel jeg því skyldu mína að nota þetta tækifæri til að þakka henni hjer á Alþingi hið ágæta starf, sem unnið er.

Eins og hv. flm. (IHB) tók fram, liggur skýrsla þessarar nefndar fyrir Alþingi, og geri jeg því ráð fyrir, að allir hv. þm. hafi kynt sjer hana. Áætlað er, að spítalinn kosti fullgerður 3400000 kr. Þó má til að byrja með byggja fyrir ca. 2600000 kr., eins og hv. flm. (IHB) tók fram; og enn aðrir segja, að þó að ekki verði bygt fyrst um sinn nema fyrir ca. 11/2 milj. kr., þá megi sú bygging að góðu gagni koma.

Þá er eitt atriði í áætluninni, sem er eftirtektarvert. Það er ekki gert ráð fyrir meiri rekstrarhalla en 100000 kr. árlega, en þá eru að vísu ekki taldar rentur og afborganir byggingarkostnaðar.

Jeg er fyllilega sammála hv. flm. (IHB), að nauðsynin á góðum landsspítala er brýn, mjög brýn. Það kemur oft fyrir, að menn, sem þarf t. d. að skera, verða að bíða úti í bæ vegna rúmleysis á spítala þeim, sem hjer er fyrir. Auk þess er læknastjett landsins ómetanlegur hagur að fá fullkominn spítala hjer á landi. Hjer er aðeins einn örðugleiki, sami örðugleikinn, sem við rekum okkur svo oft á: þröngur fjárhagur. Hans vegna er ómögulegt að gefa ákveðið loforð um, hve nær landsspítalinn verði bygður.

Hæstv. núverandi forseti (HSt) hefir spurst fyrir um það hjá stjórninni, hvort ekki yrði látið ganga fyrir öðrum verklegum framkvæmdum að lúka við spítalann á Kleppi, og hefir stjórnin sagt honum, að svo mundi verða. Er nú þrátt fyrir alla fjárhagsörðugleika byrjað á því verki, og er því óhugsandi, að byrjað verði á landsspítala fyr en Kleppshælinu er lokið.

Hvenær verður þá byrjað á landsspítala? Því get jeg ekki svarað, en jeg óska og hefi altaf óskað, að það verði sem fyrst.

Í þáltill. stendur, að hann eigi að sitja fyrir öllum meiri háttar framkvæmdum. Því er hættulegt að lofa. Nú sem stendur er eitt stórmál á döfinni, sem alþjóð fylgir með áhuga, en það er að kaupa strandvarnarskip. Get jeg vel ímyndað mjer, að þingið vilji, að sú ráðstöfun sje fyrst gerð.

Jeg get því aðeins gefið það loforð, að gera alt, sem í mínu valdi stendur, til að flýta fyrir byggingu landsspítalans. Vona jeg, að hv. flm. (IHB) taki því ekki þunglega, að jeg get ekki gefið ákveðnari loforð, því þessi hv. þm. (IHB) veit, að jeg vil málinu alt hið besta.