05.05.1923
Efri deild: 56. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (3063)

126. mál, bygging landsspítala

Flm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Jeg get þakkað hv. 5. landsk. þm. (JJ) undirtektir hans og er samþykk ýmsum atriðum í ræðu hans. Honum þykir áætlunin svo há, að hann álítur, að landið fái ekki risið undir svo dýrri stofnun.

Jeg skal ekki deila um það, að í mikið verður ráðist, þegar landsspítalinn verður reistur. Jeg læt læknana tala af þekkingu og reynslu, og þeir telja, að minni bygging geti ekki nægt, nema þá í bili.

Þá er jeg sammála hv. 5. landsk. þm. (JJ) um, að staðurinn sje ekki sem heppilegast valinn. Heppilegra væri að hafa húsið þar, sem fá mætti hita svo að segja ókeypis. Þetta kom til umtals í vetur hjá nefnd, sem hafði málið til meðferðar af hálfu kvenna, og komst nefnd sú að svipaðri niðurstöðu.

Þótt kol hafi mikið lækkað í verði, þá verður það þó altaf mjög hár útgjaldaliður í rekstri spítalans, og þótt segja megi, að þau hafi verið dýrari áður, þá afsannar það ekki, að gott væri að geta sparað þann lið.

Annars voru margar athuganir í ræðu hv. 5. landsk. þm. (JJ), sem vert væri að taka til athugunar.

Jeg vil nú bæta við því, sem jeg gleymdi áðan, að í vetur bauðst stjórn Landsspítalasjóðsins til að leggja fram 20000 kr., ef nefndin, sem hafði þetta mál með höndum, sæi ástæðu til að leita út fyrir landsteinana um uppdrætti fyrir spítalahúsið. Vera má, að tilboð þetta hafi komið helst til seint fram, en þó held jeg ekki, að svo hafi verið. En nokkuð er það, að því var ekki tekið og þessu tilboði sjóðsnefndarinnar ekki einu sinni svarað. Okkur konum fanst, að gott gæti verið fyrir hæstv. stjórn og nefnd þá, sem hafði undirbúning málsins til meðferðar, að fá fleiri uppdrætti til samanburðar og athugunar. En sínum augum lítur hver á silfrið.

Það, að hv. 5. landsk. þm. (JJ) getur ekki verið með till. eins og hún er orðuð, skiftir ekki svo miklu máli. Aðalatriðið er, að spítalinn verði bygður eins fljótt og eins haganlega og verða má.

Að gert er ráð fyrir 12 manna stofur, er auðvitað vegna sparnaðar, en honum veldur fátækt okkar. En það verða líka 2–4 manna herbergi í spítalanum, og verða þau auðvitað dýrari.

Hæstv. forsrh. (SE) vil jeg þakka fyrir góð ummæli hans í þessu máli, og vona, að þó að hann telji sig ekki geta gefið föst loforð, þá verði hann málinu hlyntur og greiði fyrir því á allan hátt.

Mjer fanst samanburður hæstv. forsrh. (SE) á nauðsyn landsspítala og strandvarnarskips ekkert koma máli þessu við.