04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (3077)

136. mál, endurskoðun löggjafarinnar um málefni kaupstaðanna

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Eins og kunnugt er, eru allmargir kaupstaðir hjer á landi, og hefir hver sína löggjöf. Að sjálfsögðu er löggjöf þessara kaupstaða að ýmsu leyti svipuð, þó að það eigi ekki alveg við um löggjöf Reykjavíkur. Á hverju þingi koma fram mörg frv. til breytinga á þessum lögum. Er auðsætt, að þetta er mikill ósparnaður á tíma þingsins og miklu hyggilegra að hafa þessa lagasetningu alla í einu lagi, að því leyti, sem það getur samrýmst, en sjerákvæði þar, sem þess er þörf. Nú eru ein sveitarstjórnarlög fyrir alla hreppa á landinu, og á sama hátt ætlaðist nefndin til, að ein lög yrðu sett um málefni allra kaupstaða, að því leyti, sem því verður komið við. Jeg vona, að hæstv. stjórn taki þessari till. vel, því að það er auðsætt, að þetta mundi verða til mikils sparnaðar á tíma þingsins framvegis. Nú koma fram margar tillögur um breytingar á lögum einstakra kaupstaða, og þegar ein breytingin hefir verið samþykt fyrir einn kaupstaðinn, koma aðrir kaupstaðir á næsta þingi og heimta sömu breytinguna, eða þá einhverja aðra. Nefndin vill koma í veg fyrir þetta, og hefir því tekið það ráð að afgreiða ekki frv. þau um breytingar á lögum kaupstaðanna, sem til hennar hefir verið vísað, að undanskildu frv. um breytingu á einu atriði í bæjarstjórnarlögum Siglufjarðarkaupstaðar.