04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í D-deild Alþingistíðinda. (3079)

136. mál, endurskoðun löggjafarinnar um málefni kaupstaðanna

Jón Baldvinsson:

Jeg býst við, að þessi tillaga hafi verið samin áður en sjeð var fyrir um örlög stjórnarskrárbreytingarinnar, er gerði ráð fyrir þingi annaðhvert ár. En ef þing er á hverju ári, finst mjer það ekki hafa annað að gera en að sinna málaleitunum frá landsmönnum um löggjafarmálefni. (MG: Það var ekki ætlast til, að næsta þing fjelli niður). Jeg var að tala um framtíðina. (MG: Það kemur þá ekkert við þessa tillögu).

Í tilefni af þessari tillögu verð jeg að taka fram, að það er algerlega rangt af hv. allshn. að setjast á öll frv. um breytingar á kaupstaðalögunum. Það munu aðallega vera 2 frv. um breytingar á lögum Reykjavíkurkaupstaðar, sem hafa verið nefndinni þyrnar í augum og till. þessi á að koma fyrir, þó að hitt sje haft að yfirvarpi, að samræma þurfi löggjöf kaupstaðanna. Þó er það tekið fram, að Reykjavík skuli undanskilin að mestu leyti, enda hefir hæstv. atvrh. (KIJ) einnig látið svo um mælt.

Í fyrra var lítilfjörleg breyting á bæjarlögum Reykjavíkur til umræðu hjer á þingi, og var þá sagt, að bæjarstjórnin ætlaði að endurskoða alla löggjöf sína og leggja tillögur sínar fyrir næsta þing á eftir, og ætti því að bíða þess. En nú sest nefndin á mál þau, er bæjarstjórn Reykjavíkur vill fá framgengt, og ætlar að fresta því um eitt ár enn, án þess að hafa frambærilega ástæðu til þess.

Hv. frsm. (MG) viðurkendi, að þessi tillaga ætti ekki við um málefni Reykjavíkurbæjar, nema að litlu leyti; lagði hann aðaláherslu á, að í fyrsta lagi ætti að samræma lögin fyrir hina kaupstaðina, og í öðru lagi setja sjerákvæði þar, sem þess þyrfti. Þetta getur rjett verið, en þar fyrir sje jeg enga þörf á að vísa þessu máli til stjórnarinnar. Jeg hygg, að þær nefndir, sem hafa þessi mál til meðferðar í þinginu, geti haft eftirlit með því, að lögin sjeu ekki í ósamræmi hver við önnur. Annars tel jeg þægilegra, að hver kaupstaður hafi sín lög, í stað þess að þurfa að leita í mörgum lögum.

Ef þessi tillaga verður samþykt, verður framkvæmd þessa máls á þá leið, sem hæstv. atvrh. (KIJ) gat um, að stjórnin leitar álits bæjarstjórnanna, og mun hún að mestu leyti fara eftir tillögum þeirra. Sje jeg þá ekki, hvað unnið ætti að vera með þessu, nema það eitt að draga málið á langinn og tefja fyrir nauðsynlegum umbótum á löggjöf kaupstaðanna.

Hv. frsm. (MG) mintist á hinar sífeldu breytingar á lögum kaupstaðanna. En þar sem kaupstaðirnir breytast og stækka og nýir kaupstaðir vaxa upp, er mjög eðlilegt, að þeir þurfi oft að leita til þingsins um breytingar á löggjöf sinni. Jeg skil svo verkefni Alþingis, að það sje að sinna rjettmætum kröfum landsmanna. Jeg gæti einnig ímyndað mjer, að þó að einn lagabálkur verði saminn um þessi málefni, muni þær breytingar geta orðið á högum kaupstaðanna, að nauðsynlegt verði að breyta lögunum við og við framvegis eins og hingað til.

Það sást líka, hve veigalítil þessi ástæða um samræmingu á löggjöf um málefni kaupstaðanna utan Reykjavíkur er, þar sem nefndin afgreiddi frá sjer frv. um breytingu á bæjarstjórnarlögum Siglufjarðar. Nefndin tók þar aðalatriðið, en slepti öllum umbúðum, til þess að breytingin virtist sem minst, og var það að vonum, að hv. frsm. þess máls (GunnS) flaskaði á þessu, því að hann varaði sig ekki á því, hvað undir þessu bjó.

Þegar leita á álits bæjarstjórnanna um þessi mál, sje jeg enga ástæðu til að auka á erfiði stjórnarinnar á milli þinga. Hún mundi hvort sem er leggja þær tillögur þeirra fyrir þingið, og jeg mundi telja það alrangt, ef stjórnin ljeti þær ekki koma til kasta þingsins.

En þó að þessi tillaga verði samþykt, álít jeg, að hv. allshn. geti ekki að heldur skotið sjer undan því að skila af sjer þeim 2 frv., sem hún hefir til meðferðar um bæjarmálefni Reykjavíkur, en það er frv. um bæjargjöld og frv. um breytingu á kosningalögunum fyrir Reykjavík.

Jeg tel rangt af nefndinni að liggja svo lengi á bæjargjaldafrv., sem varðar svo miklu fyrir kaupstaðinn. Í þessu sambandi má benda á, að bæjargjaldalögunum hefir ekki verið breytt síðan 1887, að jeg hygg, svo að þau eru að vonum orðin mjög úrelt.

Jeg mun því verða á móti þessari tillögu, en þó að hún verði samþykt, tel jeg, að hv. allsherjarnefnd geti ekki annað en skilað frá sjer þessum 2 frv., sem jeg nefndi, samkvæmt yfirlýsingu hv. frsm. (MG) og hæstv. atvrh. (KIJ) um, að þessi endurskoðun eigi ekki að snerta Reykjavík, nema þá að litlu leyti.