04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (3085)

136. mál, endurskoðun löggjafarinnar um málefni kaupstaðanna

Jakob Möller:

Hv. frsm. (MG) vjek að því áðan í ræðu sinni, að löggjafarvaldið yrði að taka þessi mál kaupstaðanna í sínar hendur og ákveða gjaldstofnana. Sagði hann, að mjög líkt stæði þar á um flesta kaupstaði landsins. Jeg vil þó benda á það, að þótt lóðargjald kunni að vera hentugur gjaldstofn í Reykjavík, þá er ekki víst, að hægt sje að koma því við í kaupstöðum, eins og t. d. Vestmannaeyjum, þar sem lóðirnar eru landssjóðseign. Mundi það á slíkum stöðum koma alt öðruvísi niður. Jeg held því fast við þá skoðun mína, að rjett sje, að löggjafarvaldið kveði ekki upp á eigið eindæmi svo ríkt á um þessi mál, heldur geri þeim aðeins rúmlega umgerð eftir till. bæjar- og sveitarstjórnanna, sem svo kveði nánara á um þau einstöku atriði. Tel jeg t. d. rjettast, að þingið ákveði, að leggja megi á lóðargjald alt að þeirri og þeirri hundraðstölu. Ákveður svo bæjarstjórnin, eftir því sem þörfin krefur og við á á hverjum stað, að hve miklu leyti heimildin skuli notuð. Er það eðlilegast, að bæjarbúar sjeu sjálfráðir um þetta, hvort lóðargjald skuli vera og hve hátt. Jeg skal þó ekki vera á móti því, að lágmarksákvæðið sje ákveðið 1%, eins og gert hefir verið ráð fyrir, í stað þess að setja það í sjálfsvald bæjarstjórnarinnar.