07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í D-deild Alþingistíðinda. (3099)

143. mál, húsmæðraskóli á Staðarfelli

Magnús Jónsson:

Hv. þm. Barð. (HK) tók af mjer ómakið að athuga, hver ákveði, hvar skólinn skuli vera; skal jeg því ekki endurtaka það. En annað atriði tel jeg þó mikilsverðara, en það er, að í erfðaskránni er greinilega tekið fram, að fjeð sje gefið til þess að stofna kvennaskóla, og einmitt í gjafarbrjefinu vitnað í kvennaskólann á Ytri- Ey, og því til þess ætlast, að hann yrði sem allra líkastur þeim skóla.

Að vísu veit jeg ekki, hvernig þar hefir hagað til um 1890, en það þori jeg að fullyrða, að Ytri-Eyjarskóli hafi þá ekki verið húsmæðraskóli. Þess vegna álít jeg algerlega óheimilt að stofna húsmæðraskóla með þessu fje án breytingar á erfðaskránni.

En um það atriði vil jeg taka það fram, að jeg er og mun ávalt vera á móti því að breyta erfðaskrá, nema það sje bersýnilega ómögulegt að framfylgja ákvæðum hennar, eða þá að af því stafaði mjög mikið óhagræði að hafa hana óbreytta.

Það má telja víst, að þegar gefið er tje í einhverjum ákveðnum tilgangi, þá vilji gefandinn, að honum sje nákvæmlega fylgt, og að hann hafi gefið það til þess eins og einskis annars. Það má nú telja yfirleitt vel farið, að efnamenn ráðstafi eigum sínum til þjóðþrifafyrirtækja. En vissasta leiðin til þess að fá þá til þess að hætta því er sú, að vera sí og æ að breyta gjafabrjefum. Oft og einatt er áhugi gefandans einmitt á því sjerstaka efni, sem hann gefur til, orsök gjafarinnar, og er þá ekki von, að hann vilji kasta því fje út í óvissu og leggja það undir geðþótta einhverra og einhverra síðari tíma manna. Gefandinn er undir öllum kringumstæðum sá, sem á að ráða. Og sje hann óviss um, að hann fái það, þá gefur hann ekki.

Vona jeg, að forsrh. (SE) skýri frá því, hvort slíkrar breytingar þurfi ekki með á erfðaskránni, til þess að gjafarfjeð verði notað á þann hátt, sem farið er fram á í tillögu þessari.