07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (3102)

143. mál, húsmæðraskóli á Staðarfelli

Hákon Kristófersson:

Hæstv. atvrh. (KIJ) lofaði í ræðu sinni að gera þær ráðstafanir til skólabyggingarinnar, sem í till. felast, og álít jeg, að í því felist vilji hæstv. stjórnar til þess, að skólinn verði stofnaður á Staðarfelli; en jeg mótmæli því, að skólinn verði reistur á Staðarfelli, og krefst þess, að hæstv. stjórn geri engar ráðstafanir á þeim grundvelli. (LH: Máske ætti ekki að reisa skólann). Má vera, að það sje það besta. Jeg álít affarasælast, að skólinn verði ekki stofnaður fyr en sjóðurinn er orðinn svo mikill, að með honum mætti reka hann, því að þá þyrfti ekki altaf að vera að sækja um styrk til þingsins.

Hv. þm. Dala. (BJ) sagði, að Staðarfell hafi verið gefið með því skilyrði, að skólinn yrði reistur þar; en um það skilyrði efast jeg stórlega, því að fyrv. forsrh. (JM) sagði mjer nú nýskeð, að hann hefði engu um það lofað, er hann þáði gjöfina.

Hv. þm. Dala. (BJ) sagði enn fremur, að auðurinn væri kominn frá Staðarfelli. Um það ætla jeg ekki að deila, en álit mitt er þó, að auður Brynjólfs Benedictsens sje kominn annarsstaðar frá.

Um verðlagið vil jeg slá því föstu, að hv. þm. Dala. (BJ) geti ekki fullyrt, að selskinn verði í 20 kr., nema hann hafi fengið vísbendingu frá æðri heimi. (BJ: Misskilningur; jeg sagði, að að sunnanverðu fjarðarins seldist betur en að norðanverðu). Þau eru að minsta kosti ekki komin í það verð enn, og áður en jeg legg trúnað á það verð þyrfti jeg að sjá framlagða reikninga.