14.04.1923
Neðri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í D-deild Alþingistíðinda. (3110)

130. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Á öndverðu þingi gerðum við flm. þessarar till. á þskj. 298 tilraun til þess á lokuðum fundi að fá samkomulag um það að láta trúnaðarmenn allra flokka þingsins gera í kyrþey þá athugun á hag Íslandsbanka, sem till. þessi stefnir að. Tilraunin mistókst, og fórum vjer þá fram á það við hæstv. stjórn, að hún gengist fyrir því, að slík athugun færi fram, á líkan veg og vjer höfðum ætlað, en hún hefir ekki orðið við þeirri ósk vorri. Fyrir þá skuld höfum vjer nú sjeð oss knúða til að koma fram með tillögu í þessari mynd.

Vjer lítum ekki aðeins á þessa athugun eins og rjettmæta íhlutun og eftirgrenslan frá þingsins hlið á hag bankans, heldur eins og ófrávíkjanlega skyldu vegna þjóðfjelagsins og þeirra margvíslegu hagsmuna þess, sem við bankann eru tengdir, eins og líka áhættu, sem því getur stafað frá bankanum, ef illa vill til.

Engin stofnun utanlands nje innan hefir í tvo síðustu áratugina haft eins gagnger áhrif á efnalega afkomu þjóðarinnar sem Íslandsbanki, enda er það eðlilegt.

Bankanum hafði verið fengið því nær ótakmarkað vald í þessu efni með einkarjettinum til útgáfu gjaldmiðils í landinu og mörgum öðrum mikilsverðum forrjettindum og fríðindum. Þess vegna hefir líka verið svo mjög á hann treyst og svo lengi. Óneitanlegt er það að vísu, að bankinn hefir átt talsverðan þátt í efnalegri framför þjóðarinnar alt að 4 síðustu árum, enda má segja, að þing og stjórn hafi undir hann hlaðið alt frá byrjun, og því átt fylstu heimtingu á fulltingi hans.

En krosstrje bregðast sem önnur trje, og svo hefir hjer farið. Einmitt þegar mest reið á og fjárhagsörðugleikarnir steðjuðu að í sambandi við verðhrunið á afurðum landsins eftir stríðslokin, þá brást líka stuðningurinn frá bankans hendi, þá brást sú lögmælta yfirfærsluskylda bankans og hinn svonefndi gulltrygði gjaldmiðill fjell í verði. Greiðslur til útlanda, bæði opinberar og einstakra manna, fóru í strand, og fljótandi skuldakröfur svifu að eins og skæðadrífa, án þess að greiðast.

Með þessu var hafin sú erfiða ganga, sem mætt hefir mest viðskifti vor í seinni tíð og mæðir enn. Síðan hefir dýrtíðin verið í algleymingi og lággengið lamað allan efnahag vorn. Miljónir hafa fjarað úr landinu vegna lággengis og gjaldþrotin hafa hvert af öðru lagt í rústir starfandi fyrirtæki. Jafnframt hefir verið ránverð á allri vinnu, ránverð, sem að miklu leyti stafar af óeðlilegu lággengi íslensks gjaldmiðils. Dýrtíðin hefir stöðvað nær allar framfarir í landsrækt og fleiri atvinnufyrirtækjum. Yfirleitt hefir á hinum síðustu árum í sambandi við lággengið og dýrtíðina skapast það kvíðvænlega ástand, sem hvarvetna er kvartað yfir í þingmálafundargerðum úr öllum landshlutum. Fólkið finnur, að efnalegt þrot færist nær með ári hverju. Einstaklingar og atvinnufjelög gefast upp hvert á fætur öðru, einkum til sveita. Fólksstraumurinn stefnir um stund að sjónum, en von bráðar úr landi og vestur á sljetturnar í Norður-Ameríku, enda er nú hreyfing hafin þar vestra í því skyni að greiða honum leið. Af dýrtíðinni og lággenginu stafa kaupkröfurnar hóflausu og kröfur opinberra starfsmanna um launabætur, kröfur, sem ekki verður lengi komist hjá að fullnægja og ríkið hefir þó engin efni á að fullnægja.

Það er því eigi undarlegt, þótt hugir manna hafi snúist að Íslandsbanka upp á síðkastið og honum hafi verið kent um ástandið. Það er ómögulegt að verja það, að fjármálameðferð hans á mestan þátt í þessu ástandi. Hann hefir framar öllu og öllum öðrum skapað lággengið, og hann hefir vegna stóráfalla, sökum óvarlegrar meðferðar fjárins, komið á og viðhaldið um langan tíma þeim allra þungbærustu vaxtakjörum, sem dæmi eru til hjá oss í opinberum lánsstofnunum. Hefir hann um langt skeið haldið útlánsvöxtum 1 og 11/2 hundraðshluta ofan við útlánsvexti annara lánsstofnana. Dálítið sýnishorn af þessum vaxtakjörum, sem fólkið hefir orðið að búa við, er reikningur bankans árið 1921. Þá var hreinn arður af rekstri hans á pappírnum 2206000 krónur, en aðalarður 2571653 krónur, eða með öðrum orðum: Hreinn arður bankans það ár samsvarar ca. 24 kr. nefskatti á hvern íbúa landsins; en sá skattur var þó í raun og veru lítill í samanburði við þann óbeina skatt, sem lággengið af óýrtíðinni lagði á þjóðina þá og hefir lagt á hana síðan; og þegar svo þjóðfjelagið einmitt á þessu sama ári, 1921, tekur að sjer þungbæra ábyrgð á stórn útlendu gjaldeyrisláni til bankans, ofan á fyrri rjettindaveislur, og það án þess að nokkur veruleg rjetting á hag bankans eða viðskiftakjörum almennings fengist við það, þá er eigi að furða, þótt ótti og grunur hafi vaknað hjá þjóðinni um það, að hjer væri eigi alt með feldu, og um það, að hjer kunni að vera hætta á ferðum, og eðlilega hefir sá ótti magnast við það, að margendurtekin misferli í bankastjórnsemi nágrannalandanna hafa bent í þessa átt. Það hefir heldur eigi dregið úr þessum ótta og grunsemdum, að almenningur, og jafnvel þingið, hefir ekki fengið að vita, hvernig varið væri tryggingum fyrir þessu láni, sem er að upphæð 280930 sterlingspund, eða 5618600 kr., ef miðað er við 20 kr. verð á sterlingspundi, en 7023250 kr., ef miðað er við 25 kr. verð, sem telja mætti líklega meðalgengi íslenskra peninga undanfarin 2 ár, og er þó líklega fullhátt. Sú saga hefir borist út um land, að tryggingar þessar væru í víxlum, og sumum jafnvel dálítið hæpnum, víxlum, sem alls væru að upphæð lítið sem ekkert hærri en lánið. Líkt hefir talið verið að væri farið tryggingum fyrir öðrum verðmætum ríkisins þarna, og að sjálfsögðu er öllum ókunnugt um tryggingar þær, sem Landsbankinn kann að hafa fengið fyrir þeim tiltölulega stóru upphæðum, sem hann hefir lánað Íslandsbanka, og telja verður þó ríkisins eign. Hefi jeg fyrir satt, að þær upphæðir sjeu að minsta kosti 2 miljónir króna, og er þannig alls hjer um að ræða 8–9 miljónir ísl. kr., sem Íslandsbanki hefir frá ríkinu fengið, beint og óbeint, auk seðlafúlgunnar, sem ríkið á alt undir, að eigi falli í verði, en hún mun nú á 8. miljón króna, og aðalupphæðin þess vegna 16–17 miljónir.

Hjer er því óvenjumikilla hagsmuna að gæta fyrir ríkið og almenning, svo mikilla, að ef bankanum ómætti til ábyrgðar og greiðslu, þá myndi hjer í landi hin mesta vá- og óöld fyrir dyrum, og jafnvel allsherjar gjaldþrot fyrirsjáanlegt. Og þetta er því líklegra, sem dýrtíðarástandið og lággengið er búið að mergsvíkja þjóðina, eða lama hana svo efnalega, að viðnámsþrótturinn er á förum. Þetta finna best atvinnurekendumir mörgu og smáu úti um landið til sjávar og sveita, sem á síðari árum hafa eytt varasjóðunum sínum litlu, sparisjóðsinnstæðunum, og sokkið í skuldir.

Engan þarf því að furða, þótt þeir vilji vita, hvert horfir um lagfæringu á þessu ástandi, hvort stofnun sú, sem þeir eiga svo mikið undir og átt hefir svo mikinn þátt í að skapa þetta ástand, er líkleg til að rjetta við aftur, eða hvort meiri vonbrigði eru í vændum, — vilji vita, hvort fje ríkisins hjá henni er sæmilega trygt eða í hættu, hvort fljótandi skuldir hennar utanlands eru enn þá líklegar til að þrýsta niður gengi íslensku krónunnar, ef bætandi árferði og sjálfbjargarviðleitni fólksins gæti um sinn þokað henni upp á við, — eða hvort halda á við framvegis því óheillaástandi, sem verið hefir, og fleyta áfram líkt og undanfarið óheilbrigðum atvinnufyrirtækjum tiltölulega fárra manna, sem lifa af lággenginu á kostnað alls fjöldans.

Allra hluta vegna er nauðsynlegt að eyða þeim ótta og grunsemdum, sem vaknað hafa hjá almenningi um hag bankans. Það er jafnnauðsynlegt fyrir bankann sjálfan sem þjóðina, og beinasta leiðin til þess er óhlutdræg aðsjón, sem framkvæmd er af trúnaðarmönnum þingsins. En ef hagur bankans er svo erfiður sem grunsemdirnar og orðrómurinn benda til, þá væri óviðurkvæmilegt að draga fjöður yfir það og setja þannig ljósið undir mæliker.

því kann nú að verða svarað, að með þessari aðsjónargerð sje varpað skugga á bankann og rýrt álit hans út á við. En þá er á hitt að líta, að ekki hefir gefist kostur á að fá aðsjón þessa framkvæmda, eins og jeg hefi áður getið um, á þann hátt, sem vjer flm. óskuðum, og í kyrþey.

Hins vegar er mikilvægi þessarar athugunar og þýðing hennar fyrir þjóðfjelagið fullgild ástæða, og í raun og veru ætti bankanum að vera ljúft að taka við henni, ef alt er í sæmilegu lagi og fjesýsla hans þjóðinni hættulaus. Ekkert getur æskilegra verið fyrir hann en að geta sýnt öryggi sitt.

Það er ekki til neins í þessu sambandi að benda á þá rannsókn í bankanum, sem fram fór fyrir tveimur árum, er hlutabrjef hans voru metin á 95%; kauphallarverð þeirra í Kaupmannahöfn mun á næstliðnu ári hafa komist niður í 30–40%. Trúin á áreiðanleik þeirrar skoðunar er því að mestu gufuð upp, og þótt hún hefði nákvæm verið, þá hefir ólagið á peningamálunum síðan og erfiðleikar bankans bent í öfuga átt við niðurstöðumar af þeirri athugun, enda mjög margt síðan breytt, og jafnvel nú fallin í rústir stóreflis bankafyrirtæki í nágrannalöndunum, sem fyrir 2 árum voru álitin örugg eins og lífakkeri. Ekki þýðir heldur neitt að tala um frið, sem bankinn þurfi að hafa meðan hann eigi erfiðast og sje að vinna sig upp. Slíkur friður getur leitt til hins mesta böls fyrir þjóðina, og friðurinn svo nefndi, þ. e. umburðarlyndið og íhlutunarleysið um athafnir og stjórn bankans á undanförnum árum, hefir orðið þjóðinni of dýrkeyptur til þess, að hún geti í andvaraleysi látið alt velta þarna sem vill. Auk þess er allsendis órjettmætt að tala um þessa aðsjón eins og andstöðuna við frið, þótt það hafi áður heyrst hjer. Tillagan um þessa athugun á fjárhagsaðstöðu bankans gagnvart ríkinu er aðeins vingjarnleg og kurteisleg ósk um að fá að vita líkurnar fyrir því, að viðreisn sje í vændum, eða hvort hjer muni eiga að sökkva dýpra og dýpra, — hvort vænta má frekari áfalla af óhöppum bankans og ófullnægjandi tryggingum.

Það verður að sjálfsögðu eigi tími fyrir þinglok til að framkvæma ítarlega athugun í því efni, sem till. ræðir um. En með velviljaðri aðstoð bankastjórnarinnar, sem að 2/3 er skipuð settum fulltrúum ríkisins, á að geta fengist nokkurn veginn ljóst yfirlit yfir tryggingamar, ekki aðeins fyrir enska láninu, heldur og yfirleitt öllum þeim verðmætum ríkisins, sem undir bankann falla, sem og líka horfurnar fyrir því, að hækkað verði og fest gengi krónunnar. Það út af fyrir sig er enn þá þýðingarmeira en tryggingamar fyrir enska láninu.

Verkefni aðsjónarmanna þeirra, sem athugun þessa ættu að gera, virðist því fyrst og fremst eiga að vera þetta:

1. Að athuga eftir föngum tryggingar fyrir enska láninu og ganga úr skugga um öryggi þeirra.

2. Að kynna sjer líkurnar um öryggi og gjaldgetu bankans vegna annara eigna ríkisins í vörslum hans.

3. Að fá yfirlit yfir þær útlendar skuldir bankans, sem þrýsta genginu niður, og líkurnar fyrir greiðslumöguleikum þeirra.

4. Að athuga, hvort lögmæltur málmforði og tryggingar seðlafúlgunnar eru í lagi.

5. Að fá upplýsingar um það, hvort vaxtakjör þau, sem bankinn setur og hefir sett, geta eigi orðið hagfeldari bráðlega, eða hvort sú tvísýna og hætta vofir yfir fje bankans í útlánum, að beita þurfi háum vöxtum við trygg lán, til að standast áhættu þeirra gömlu lána. Um alt þetta á bankastjórnin að geta leiðbeint þeim, sem aðsjónina gera, og ætla verður, að hún geri það fúslega og eftir bestu vitund. Það er engin ástæða til annars en ætla, að þeir stjórnsettu bankastjórar telji sjer skylt að gefa Alþingi svo sannar og óhlutdrægar upplýsingar sem þeir geta. Og ef horfurnar eru góðar og öllum hagsmunum ríkisins vel borgið, þá á það að vera og hlýtur að vera metnaðaratriði fyrir bankann að færa sönnur á það fyrir Alþingi, og eyða þar með órjettmætri tortrygni. Jeg verð að segja það fyrir sjálfan mig, og jeg held jeg geti sagt það fyrir munn vor allra, flm. þessarar tillögu, að vjer mundum telja þær frjettir einna bestar, er vjer gætum fært kjósendum við heimkomu vora, að vjer hefðum fengið ábyggilega vissu um, að stjórn og starfsemi bankans væri í góðu lagi og hagsmunum ríkisins hættulaus starfsemi hans og viðskifti.

Loks vil jeg taka það fram, að jeg frábið mjer og oss flm. allar aðdróttanir um óvild eða árásarviðleitni við bankann eða þá menn, sem að honum standa. Slíkt er með öllu órjettmætt, þótt því hafi brugðið fyrir. En að sjálfsögðu metum vjer meira hagsmuni og velfarnan þjóðarinnar en stundargróða bankans, og mun enginn leggja oss það til ámælis, sem fordómalaust lítur á málið. Vjer erum með tillögunni að reka það erindi, sem samviskan og skyldan býður oss.

Hjer er fram komin brtt. á þskj. 340. einskonar dilkur við tillöguna, óburðugur þó, eins og síðungur í öfugsnoði. Viðhefi jeg þá líkingu vegna þess, að brtt. þessi er hjer seint á ferð og miðar til þess að hverfa við till. vorri og gera sem minst úr henni, en dylja sem vendilegast hag bankans fyrir Alþingi. Að vísu er þar gert ráð fyrir, að bankinn gefi fjárhagsnefnd skýrslu um tryggingar fyrir enska láninu, og getur það verið brúklegt út af fyrir sig, ef það á þá ekki að vera leyndarmál þessarar nefndar, en ekkert meira virðist tillögumaður vilja fræða þingið um. En þó er annar þáttur þessa máls ekki síður mikilsverður, svo sem jeg hefi tekið fram, vitneskjan um það, hvernig horfi um þá hagsmuni ríkisins, sem bundnir eru við lagfæringu gengisins og öryggi hins gulltrygða gjaldmiðils, sem kallaður er; en eitt er þó gott við þessa brtt. Hún sýnir það, að mótstöðumenn vorir telja ekki lengur gerlegt að leyna fyrir þjóðinni þessum tryggingum enska lánsins, og er þar nokkur viðurkenning þess, að hjer þurfi þó eitthvað að upplýsa. Býst jeg við, að vjer flm. getum alls ekki fallist á þessa brtt., og virðist mjer hún ekki á vetur setjandi.