20.04.1923
Neðri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í D-deild Alþingistíðinda. (3116)

130. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Jón Baldvinsson:

Mjer finst það sjálfsagt að gera grein fyrir, af hverju jeg greiði þessari tillögu atkvæði mitt, og skal jeg nú lýsa afstöðu minni til þess máls.

Jeg er sammála hæstv. forsrh. (SE) um það, að það hljóti að vera alvarlegar ástæður, sem liggja til þess, að slík tillaga er borin fram hjer í hv. þingi. En jeg held því fram, að þær alvarlegu ástæður sjeu fyrir hendi. Og jeg á bágt með að skilja þá menn, sem neita því að ástæða sje til að vilja fá vitneskju um hag Íslandsbanka og um tryggingar fyrir enska láninu, sem tillagan fjallar um. Jeg á bágt með að skilja það, hvað sje á móti því, að þingið kynni sjer fiármálaástand bankans. Það er þó vitanlegt, að bankinn hefir verið í kröggum nú fyrir skömmu, enda varð þá að hlaupa undir bagga með honum. Vitanlegt er líka, að verðfall hefir orðið á eignum manna á síðari tímum, og er því hætt við, að tryggingar hans fyrir lánum hafi rýrnað nokkuð síðan bankamatið fór fram.

Jeg vil nú lítillega minnast á nokkur atriði, sem fram hafa komið í þessu máli.

Jeg kem þá fyrst að hv. 3. þm. Reykv. (JÞ), sem flutti mjög ákafa varnarræðu fyrir Íslandsbanka, en árás á þá, sem ekki eru þeirri náðargáfu gæddir, að geta trúað í blindni því, sem þeim er sagt um þá stofnun. Hann kvaðst skoða þessa tillögu sem framhaldstilraun til að hnekkja áliti bankans. Kallaði hann það einskonar rógburðarherferð, og fleira geipaði hann. Hjer er þó ekki um annað að ræða en þetta eðlilega, að það hefir verið fundið að því, sem aflaga hefir farið, og það á að finna að því. Með því móti er vænlegast, að ráðin verði bót á ástandinu.

Hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) sagði sögu bankans síðustu ár frá sínu sjónarmiði, og mjer finst þá einnig ástæða til þess að rifja hana líka upp.

Mjer er það minnisstætt á þinginu 1921, er fyrverandi fjármálaráðherra (MG) lýsti því, að um haustið 1920, er hann var staddur í Kaupmannahöfn, hefði hann boðið Íslandsbanka stuðning til að útvega lán erlendis. En bankastjóri frá Íslandsbanka, sem mun hafa verið Tofte, neitaði því, kvað bankann engan stuðning þurfa. En það var ekki liðið langt á þingið 1921, er það kom upp úr kafinu, að Íslandsbanki kæmist ekki af án þess, að hann fengi stuðning. Mun það sjást í þingtíðindum þá, og ætla jeg, að það væri þm. Dala. (BJ), og líklega fleiri, sem þessu lýstu yfir. Var á því þingi samþykt heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka lán. Tók hún svo þetta enska lán, sem að mestu leyti rann til Íslandsbanka. Þannig liðu ekki nema nokkrir mánuðir frá því bankastjórnin þóttist engan stuðning þurfa og til þess, er því var yfir lýst, að hann kæmist ekki af án þess. Svipað átti sjer stað nú í vetur. Bankastjóri Íslandsbanka ljet þá í ljós á opinberum fundi, að Íslandsbanki þyrfti ekki á stuðningi ríkisins að halda, en það hefir líklega átt að þýða, að bankinn þyrfti ekki frekari stuðning en orðið var. En hvað skeður skömmu seinna?

Þá skeður það, að Landsbankinn verður að lána, þessum banka hátt á aðra miljón króna, til þess að hann geti starfað. þegar annað eins og þetta kemur fyrir svona hvað eftir annað, þá er von, að flestum fari að skiljast, að ekki sje alt með feldu um hag bankans.

Hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) talaði um, að á uppgangstímunum hefðu bankarnir gerst djarfari til lána, og þá einkum Íslandsbanki. Já, það er víst enginn, sem neitar því, að Íslandsbanki hafi þá verið fulldjarfur í lánveitingum, og þarf ekki að nefna nema stærri lánin til fiskhringsmannanna, og það hefðu víst margir óskað, að varlegar hefði verið farið. En gagnvart almenningi, sem lána þurfti að leita, býst jeg við, að bankinn hafi sýnt „gætni“ þá eins og fyr og síðar. Jeg er sammála hv. þm. (JÞ) um það, að bankamir eigi þakkir skildar fyrir það, að hafa gætt varúðar um að kollvarpa einstaklingum, sem komist hafa í kröggur, ef það hefir þá verið gert hlutdrægnislaust.

Þá get jeg ekki stilt mig um að minnast á þá höfuðfirru, sem hv. þm. (JÞ) hjelt fram, og haldið hefir verið fram af öðrum áður, einkum hv. þm. Dala. (BJ), að ekki sje ástæða til að fárast út af hinu mikla tapi bankans, þar sem hið tapaða fje hafi runnið til landsmanna sjálfra, og að kaup verkamanna, sjerstaklega 1919, hafi verið hærra en samsvaraði því verði, er síðar fjekst fyrir afurðirnar.

Því er nú fyrst til að svara, að það er ekki sök verkamannanna, þó að útgerðarmennirnir hafi braskað og brallað með afurðirnar og tapað á því braski. Kaup verkamanna hefir aldrei verið hærra en það, og þá ekki heldur 1919, að þeir hafa, þegar best hefir látið, getað dregið fram lífið án þess að vera upp á aðra komnir.

Svo mætti ef til vill á það minna, að þó að atvinna væri talsverð 1919, þá koma þar á eftir mörg atvinnuleysisár, og að tap útgerðarmanna þá varð mest af því, að þeir „spekúleruðu“ með afurðirnar. Og þó að verkamenn fengju sæmileg laun þá, af því vinnan var mikil, þá mundu þeir þó miklu fremur hafa kosið, að atvinna væri altaf sem jöfnust.

Og þetta, sem haldið er fram, að tap Íslandsbanka hafi lent í vösum landsmanna sjálfra, og aðallega hjá verkalýðnum, er höfuðfirra í röksemdafærslu þeirra.

Jeg skil ekki annað en að allir hv. þm. viti, og ekki síst hv. 3. þm. Reykv. (JÞ), að mikið af tapi Íslandsbanka hefir líka orðið erlendis, sem best sjest á því, að fjárkreppan lýsir sjer einkum í skorti á erlendum gjaldeyri.

Ekki hefir það runnið til íslenskra verkamanna alt tapið á verðfalli íslensku togaranna. Árin 1920–1922 hafa verið keyptir frá útlöndum yfir 20 togarar, og verðfall á þeim hefir varla numið minna en 6–7 miljónum króna. Þetta fje hefir alt farið út úr landinu. Þá má nefna vöruflutningaskip þau, sem fiskhringsmennirnir voru að láta byggja í Englandi í mestu dýrtíðinni, og þeir urðu að greiða hátt á 2. miljón króna til þess að losna við og fá uppgjöf á samningum. Ekki hefir þetta fje runnið til landsmanna. Og ekki heldur verðlækkunin á öllum þeim dýru mótorbátum, sem keyptir voru í dýrtíðinni. Það fje hefir alt runnið til útlanda. Tap íslenskra útgerðarmanna á síldarbraski í Svíþjóð og á fiski á Spáni hefir ekki heldur runnið til landsmanna.

Ótalið er enn alt það fje, sem íslenskir stríðsgróðamenn hafa eytt erlendis á stríðsárunum, og það eru líklega ekki svo fáar miljónir. Ekki hefir það lent hjá íslenskum verkamönnum.

Þegar hv. þm. (JÞ) var að tala um hátt kaup verkamanna, þá mintist hann ekkert á laun bankastjórnar Íslandsbanka og bankaráðsins á stríðsárunum. Það er þó talið fullvíst, að kaup eins bankastjórans hafi numið um 80 þúsundum króna eitt árið. En mjer finst ástæða til að spyrja, hvort kaup þessara manna hafi ekki verið fullhátt, borið saman við þá niðurstöðu um hag bankans, sem komið hefir í ljós eftir þessi ár! Og þétta háa kaup bankastjórans er álíka eins og 30–40 verkamannafjölskyldur verða að láta sjer lynda í samanlögð árslaun.

Hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) hafði það eftir „nákunnugum“ manni, að tap Landsbankans á þessum árum væri 3–31/2 miljón króna, og væri þannig tiltölulega meira en tap Íslandsbanka. Jeg ætla mjer alls ekki að rengja þetta, því þar sem hv. þm. tekur svo til orða, að hann hafi þetta eftir „nákunnugum“ manni, þá verð jeg að líta svo á, sem hann hafi þetta eftir einhverjum bankastjóra Landsbankans eða einhverjum starfsmanni þess banka, handgengnum bankastjórninni. En út af þessu vildi jeg segja það, að kunnugur maður hefir getið þess til — jeg nota orðið „kunnugur“, en ekki „nákunnugur“, svo hv. þingmaður ætli ekki, að það sje neinn úr stjórn Íslandsbanka —, að ekki muni fást greiddur nema liðugur helmingur þeirra víxla, sem Íslandsbanki telur á reikningi sínum.

Þá kom fram í ræðu hv. þm. (JÞ) merkilegt atriði, sem jeg sannast að segja bjóst ekki við. En það atriði sýnir, að ýmislegt er gert bak við þingið, sem þar ætti þó fyrst og fremst að koma fram.

Hv. þm. (JÞ) var að lýsa því, að samvinnan hefði verið slæm á milli bankanna á krepputímunum, hvaðan sem hann hefir það. En nú, síðan skift hefði verið að mestu leyti um bankastjórnir í báðum bönkunum, þá væri samvinnan orðin betri. Tók hann til dæmis um það góða samkomulag, að Landsbankinn hefði nýlega lánað Íslandsbanka 11/2 miljón króna. Hefði um þetta verið gerður samningur með atbeina ríkisstjórnarinnar, og enn fremur, að í þeim samningi væri ákveðið, að ef Íslandsbanki gæti ekki staðið í skilum með greiðslu, þegar Landsbankinn þyrfti á þeim að halda, þá skyldi ríkisstjórnin hlutast til um, að gefnir yrðu út nýir seðlar.

Nú getur hæglega staðið svo á, að þó að Íslandsbanki geti ekki borgað, þá sje ekki þar fyrir þörf á að gefa út nýja seðla. Á þingskjali, sem nú er nýkomið fram í hv. Ed., er talið, að Landsbankinn hafi um 4 miljónir króna í sjóði með því, sem hann hefir lagt inn í Íslands banka. Og Landsbankinn getur haft talsverða peninga í sjóði, þótt hann vilji fá skuld sína greidda hjá Íslandsbanka. En þar fyrir sje jeg ekki ástæðu til aukinnar seðlaútgáfu. Mjer skilst því, að með þessum samningum sje farið gegn gildandi lögum um þetta efni, þar sem ákveðið er, að ekki skuli gefa út seðla, nema gjaldmiðilsþörfin sje almenn og brýn. En ef útgáfa seðla á að fara eftir gjaldþoli Íslandsbanka, þá sje jeg ekki betur en að þetta sje áframhald af því ástandi, sem var áður en Íslandsbanka var gert að skyldu að fara að draga inn seðlana. Þá var það venjan, að Íslandsbanki fór til stjórnarinnar, þegar honum sýndist, og heimtaði meiri seðla, og það stóð ekki heldur á því hjá landsstjórninni; þetta virðist aðeins grímuklædd tilraun í sömu átt, og tel jeg óforsvaranlegt, að farið sje með það bak við þingið.

Þá kom hv. þm. (JÞ) aftur að þessari „rógburðarherferð“ — sem hann kallaði — gegn bankanum. Og af þessum völdum hefðu verið teknar 4 milj. kr. af innlánsfje út úr bankanum. En nú er það öllum vitanlegt, að fyrsta orsökin til þess, að farið var að taka fje út úr Íslandsbanka, var sú, að bankinn hætti að innleysa seðla sína erlendis árið 1920. Og á hálfum mánuði voru þá teknar út úr bankanum um 2 milj. kr. áður en fyrsta greinin kom út um bankann. Það er því bankinn sjálfur, sem fyrstur gaf merki um það, að ekki væri óhætt að treysta honum.

Þá hlakkaði hv. þm. (JÞ) yfir því, að ritstjóri annars blaðsins, sem um bankann hefði ritað, hefði verið dreginn fyrir lög og dóm og dæmdur í 100 þús. kr. skaðabætur. (JÞ: 100 þús. kr. var mismæli, sem hjer með leiðrjettist). Já, hv. þm. (JÞ) margfaldaði með 5! Skaðabæturnar voru 20 þús., og vel má geta þess, að sá dómur var kveðinn upp af meiri hluta hæstarjettar, af þremur dómendum af fimm, svo jeg veit ekki, hvort hv. þm. þarf að hlakka svo mjög yfir þessum dómi. Og svo hugsa jeg nú, að Íslandsbanki fitni ekki mikið af þessum skaðabótum og þurfi sennilega að fá bæði lán og aukna seðlaútgáfu þrátt fyrir skaðabótadóminn.

En hefir þetta þá ekki alt reynst satt, sem um bankann var sagt? Hefir það ekki alt komið fram? Allir bankastjórarnir, sem þá fóru með fjárhagsstjórn Íslandsbanka, eru farnir frá völdum. Og hefir bankinn ekki þurft að fá hjálp á hjálp ofan?

Jeg heyri nú sagt, að núverandi bankastjórn Íslandsbanka sje að leitast við að fá framkvæmt fjárnám fyrir skaðabótafjenu, og get jeg ekki annað sagt en að mjer finst það óviðeigandi ofsókn hjá hinum nýju, stjórnkjörnu bankastjórum, og sýnist hún helst vera gerð í nafni hinna erlendu hluthafa og fráförnu bankastjóra. Þetta er því undarlegra, þegar tillit er tekið til þess, að reynslan hefir sýnt og sannað, að farið var með fullkomlega rjettmætar og rökstuddar aðfinslur um misfellur í bankanum.

Þá bar hv. þm. (JÞ) bankamatsnefndina sælu fyrir sig — eins og hæstv. forsrh. (SE). — En hv. þm. (JÞ) gengur þó að ýmsu leyti lengra en nefndin, og fylgir þar skoðun stjórnar Íslandsbanka, bæði viðvíkjandi gengi á enska láninu, og eins matinu á gullforða bankans, sem hann á að hafa sem tryggingu fyrir seðlum sínum. Og þar sem hv. þm. (JÞ) þannig rengir matsnefndina á þessa hliðina, þá getur hann alls ekki furðað sig á því, þótt mat hennar sje rengt á hina hliðina, sjerstaklega þar sem nú er liðið meira en ár síðan nefndin starfaði, og á þeim tíma hefir orðið mikið verðfall á eignum manna og veð bankans því rýrnað, eins og áður er sagt, og á þessu ári hefir verið mjög mikið atvinnuleysi, sem líka hlýtur að stuðla að því, að bankanum greiðast ver skuldir.

En vel á minst. Úr því að talað er um gulltryggingu bankans, þá vildi jeg beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh. (SE), hvar gullið sje nú niður komið. Oft hefir verið um það talað á þingi og ályktanir um það gerðar, að gullið skyldi flytja hingað og geymt hjer. Og svör stjórnarinnar hafa ávalt verið á þá leið, að það gæti komið hve nær sem væri, og hið sama sagði hæstv. forsætisráðherra (SE) síðast í vetur. En gullið hefir samt ekki komið, svo það er full ástæða til þess að spyrja: Er nokkur gulltrygging til?

Þegar þingið þannig er dregið á þessu og öðru, sem það vill vita um bankann, þá sje jeg að minsta kosti fulla ástæðu til þess að greiða atkvæði með tillögu þessari um athugun á hag bankans.

Og þegar bankaráðið, sem þingið kýs af sinni hendi til eftirlits með bankanum, stendur á móti allri rannsókn og formaður þess neitar að gefa upplýsingar gegn beinum fyrirspurnum, sem bornar eru fram á Alþingi, svo sem t. d. um eftirlaun Tofte og um afstöðu bankaráðsmannanna í einstökum atriðum, þá finst mjer fullkomin ástæða til rannsóknar. (Forsrh. SE: Þetta er ekki rjett; jeg sagði, að ekki mætti skýra frá því, sem gerðist á bankaráðsfundum, nema að fyrirfram fengnu leyfi bankaráðsins; verði bankaráðsfundur bráðlega, þá skal jeg biðja um leyfi til þess). Já, hæstv. forsrh. (SE) svaraði því þá, að það hefði verið samþykt af bankaráðinu að skýra ekki frá því, sem gerðist. Jeg fekk ekki að vita þá, hvort hæstv. forsrh. (SE) mundi vilja upplýsa þetta síðar. Og síðan er liðinn svo langur tími, að hæstv. ráðherra hefði getað verið búinn að útvega sjer þetta leyfi, einkanlega þar sem hann sjálfur hefir meiri hluta atkvæða í bankaráðinu, og getur því ráðið, hvaða skýrslu hann gefur. (Forsrh. SE: Ekki í augnablikinu). En hæstv. forsætisráðherra getur fengið það með símskeyti, hve nær sem er.

Annars hefir áður komið fram allkynlegt fyrirbrigði í bankaráði Íslandsbanka í sambandi við umboðsmensku forsætisráðherra fyrir hluthafana. (Forsrh. SE: Hve nær var það?). Það eru fleiri forsætisráðherrar en sá núverandi, sem hafa farið með umboð fyrir hluthafana. Og þetta kynlega fyrirbrigði gerðist í tíð fyrverandi forsætisráðherra. Í bankaráðinu var verið að samþykkja áskorun á stjórnina um að veita bankanum einhver hlunnindi, og þá greiðir ráðherrann atkvæði með áskoruninni sem umboðsmaður hluthafanna, en situr hjá atkvæðagreiðslunni sem formaður bankaráðsins, af því hann gat ekki greitt atkvæði með áskorun á sjálfan sig!! Þetta kom fram í þingskjali á Alþingi 1921.

Að síðustu vildi jeg bera saman Landmandsbankann danska og Íslandsbanka, af því að mjer sýnist sömu einkennin koma að nokkru fram hjá báðum. Fyrst er nú þessi mikla leynd um hag bankanna. Alt dregið á langinn og lítið upplýst um raunverulegan hag þeirra og viðskiftamöguleika. Báðir bera sig vel, og til að byrja með þykjast þeir engan stuðning þurfa. Svo fer fram skoðun á bönkunum; þá kemur í ljós, að Landmandsbankinn þarf að fá stuðning, og fær hann hjá þjóðbankanum danska. Eftir að matsnefndin hafði athugað Íslandsbanka, kemur í ljós, að hann þarf stuðning. Þá fær hann enska lánið hjá landinu. Landmandsbankanum dugir ekki sá stuðningur, sem hann fekk. Hann þarf meiri stuðning. Og Íslandsbanka nægir ekki heldur sá stuðningur, sem hann fær með enska láninu.

En hvert er svo framhald þessa máls? Það verður nokkuð annað hjá sambandsþjóð vorri að því er snertir stjórnendur bankanna. Þar eru hinir fráförnu bankastjórar ekki leystir út með stórgjöfum og eftirlaunum, eins og hjer var gert við bankastjórn Íslandsbanka; þar eru þvert á móti eignir bankastjóranna og ágóðahluti bankaráðsmannanna látnar ganga upp í tap Landmandsbankans Hjer er mikill aðferðarmunur.

Nú kann að verða sagt, og hefir verið sagt, að tap danska Landmandsbankans sje alt öðruvísi til komið en tap Íslandsbanka; Landmandsbankinn hafi tapað á „spekúlationum“, en Íslandsbanki á atvinnuvegum vorum. En nú er „transit“-verslun stór atvinnuvegur hjá Dönum, og mikið af tapi Landmandsbankans er einmitt á slíkri verslun. Og þó að sagt sje, að tap Íslandsbanka hafi orðið á atvinnuvegum landsmanna, þá verður tap á fisksölubraski einstakra manna og á vafasömum skipakaupum ekki frekar talið tap á atvinnuvegi okkar en tap Dana á versluninni. Og samanburðurinn er því fyllilega rjettmætur.

Og út af öllu því, sem fram hefir komið um Íslandsbanka, þá er mjer óskiljanlegt, hvernig nokkur þingmaður getur haft á móti því, að þingið kynni sjer ástæður bankans og sjerstaklega tryggingar þær, sem þjóðin á að hafa fyrir því fje, sem landið hefir lagt í bankann.

Og jeg skil ekki hæstv. forsrh. (SE), sem altaf er að tala um frið fyrir bankann. Ef alt er með feldu í bankanum, þá er vel farið, en ef það er ekki, þá verða þingmenn að fá að vita það. Heldur hæstv. forsrh. (SE), að bankinn fái frekar frið með þeirri aðferð að bægja þingmönnum frá því að athuga hag bankans? Nei; því fer mjög fjarri.