20.04.1923
Neðri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í D-deild Alþingistíðinda. (3119)

130. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Bjarni Jónsson:

Það var einna skrítnast í þessu máli, sem jeg heyrði seinast, að fjármálaráðherra hefði ekki aðgang að bankanum til að skoða þær tryggingar, sem hann hefir sjálfur og geymir sjálfur. Jeg geri nú ekki mikið úr slíkri rökfærslu, og skal því snúa mjer að hv. 2. þm. Reykv. (JB) og hv. þm. Ak. (MK). Þeir sögðu, að till. væri ekki til þess fram borin að rýra álit bankans. Það getur vel verið, að þetta eigi ekki að verða til þess, en það verður til þess, ef mark er tekið á þeim árásum, sem till. eru samfara, og það er aðalatriðið.

Jeg verð að segja það, að jeg sje ekki, að erfitt ætti að vera að komast að fjárhagsaðstöðu Íslandsbanka í þessu efni, þar sem tryggingarnar liggja hjá stjórninni sjálfri og þar sem stjórnin hefir aðgang að öllum bókum hans, skjölum og skilríkjum, og auðvitað líka fjármálaráðherrann, sem bankamálin heyra undir, þótt sumir þingmenn virðist ekki vita það.

En hvað hafa nú þessir hv. tillögumenn gert til þess að fá þær upplýsingar, sem þeir eru nú að biðja um? Hafa þeir snúið sjer til formanns bankaráðsins, hafa þeir snúið sjer til bankans sjálfs? Nei, ónei; þeir hafa hvorugt gert, þótt þetta lægi auðvitað næst. Og hvers vegna hafa þeir ekki gert það, þótt þeim hafi verið það innan handar að fá þannig allar upplýsingar, sem hægt er að fá? þeir hafa ekki gert það af því, að þeir þurftu að gera hávaða um málið, þeir þurftu að nota málið sjálfum sjer í hag og sinni pólitísku baráttu. Þeir gerðu það ekki af því, að þeir hjeldu, að það yrði sjálfum þeim í hag að segja við kjósendurna, þegar heim kemur, og klappa þeim öllum og kjassa um leið: Elsku góði, vertu rólegur, jeg spurði og spurði, jeg gerði alt, sem jeg gat, svo að það er ekki mjer að kenna, hvað úr þessu verður, ef það fer illa.

Hv. þm. Ak. (MK) talaði eitthvað um samábyrgð í þessu sambandi, en jeg þekki enga samábyrgð í þessu máli, nema þá, sem til þess er stofnuð að varðveita blaðaróg um viðskiftaheill þjóðarinnar, eða með öðrum orðum rógvarnarsamábyrgð tillögumanna og þeirra fylgifiska.

Þá verð jeg að víkja örfáum orðum að ræðu hv. 2. þm. Reykv. (JB). Hann vildi vefengja það, sem við hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) höfðum haldið fram, að skaði bankans hefði að nokkru leyti runnið í vasa landsmanna sjálfra, eða að hann hefði skilað landsmönnum aftur nokkru af þeim gróða, sem hann hafði áður fengið. Hitt er alt annað mál, og kemur þessu máli ekki við, hverju landsmenn hafa tapað erlendis að öðru leyti á þessum tíma, og þeir, sem ekki geta gert greinarmun á þessu, ættu ekki að tala með um málið. Annars skýrði hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) þetta svo vel, að jafnvel hv. 2. þm. Reykv. (JB) hefði átt að geta skilið það.

Þessi hv. sami þm. (JB) talaði einnig um það, að breytt væri lögum um seðlaútgáfuna, eða út af þeim brugðið, með samningum milli bankanna, sem oft hefir verið minst hjer á. Veit þá ekki hv. þm., að það er með lögum ákveðið, hvað Íslandsbanki má hafa úti af seðlum, og því verður ekki og hefir auðvitað ekki verið breytt, og að það raskar auðvitað ekkert seðlaútgáfunni, þótt Landsbankinn geti lánað Íslandsbanka nokkuð af þessum sömu seðlum, sem hann má sjálfur hafa úti. Og annað er það ekki, sem gerst hefir.

Þá mintist sami hv. þm. (JB) á matið á hlutabrjefum bankans, og vildi rengja það. Það, sem deilt hefir verið um í þessu sambandi, er, hvernig reikna ætti verð pundsins, þegar meta átti hlutdeild bankans í enska láninu í þessu sambandi. Matsnefndin reiknaði pundið á 27 kr., og varð þá 100 kr. brjef metið á 91 kr. En ef miðað er við 21 kr. meðalverð á pundinu, eins og bankastjórnin vildi, hefði það þau áhrif á matið í heild sinni, að brjefin hækkuðu upp í 110 kr.

Þar sem hv. þm. (JB) talaði hins vegar um gulltrygginguna, þá erum við sammála þar um það, að gullið ætti að vera hjer heima, og er nú farið að flytja það. En hins vegar eru það ósannindi, sem blað þessa hv. þm. (JB) hefir flutt, að engin önnur gulltrygging væri til en þær 700 þús. kr., sem þar hefir verið klifað á. Lögmælt trygging hefir verið til að fullu og öllu undir umsjá og eftirliti stjórnar og þings.

Þá er stöðugt verið að spyrja um eftirlaun Tofte bankastjóra. Þetta er þó í raun og veru smáatriði, sem ekki kemur Alþingi við, því hjer er ekki um Landsbankann að ræða, heldur einkabanka, þar sem menn út í frá skiftir það ekki neinu, hvaða laun eru greidd, fremur en menn skiftir það, hvaða laun forstöðumaður alþýðubrauðgerðarinnar ákveður sínum starfsmönnum. Annars þarf það ekki að vera neitt launungarmál, að Tofte bankastjóri hefir engin eftirlaun fengið.

Út í þann samanburð, sem hjer er oft verið að gera við Landmandsbankann danska, þarf jeg ekki að fara, bæði af því að hann er fjarstæða í sjálfu sjer og af því að honum hefir verið mótmælt áður. Kreppan hjer er komin af því, að landsmenn hafa skaðast á framleiðslu sinni og ekki getað selt vörur sínar, og er það tap bæði meira og víðar en það, sem Íslandsbanki hefir tapað, eins og auðvitað er. En hitt er það, að bankinn hafði lánað til ýmsra þessara fyrirtækja, og getur hver gert það, sem álítur það sanngjarnt, að brigsla honum um það, að hann hafi lánað atvinnuvegum hjer rekstrarfje. Hitt er altaf hægt, að vera hygginn eftir á, ef alt tekst ekki eins vel og menn hefðu óskað.

Vilji þeir heimila bönkunum ráðsmensku og íhlutun hjá öllum, sem við þá skifta, þá myndi það verða til þess, að bæði jeg og margir aðrir mundu ekki taka hjá þeim einn einasta eyri.

Undantekningar eru auðvitað frá þessu sem öðru. Á erfiðum tímum getur verið rjett og sjálfsagt af bönkunum að hvetja menn til að selja. En athugandi er, að það er ekki öllum gefið að sjá, hvenær skuli gera þetta eða hitt. Er þægilegt að sjá þetta alt eftir á, en ekki er hægt að krefjast, að bankastjórar sjái það, sem öllum öðrum er dulið. Verða þeir því ekki ámælisverðari en aðrir menn, þótt reynslan sýni, að þeir hafi ekki haft þessa ófreskisgáfu.

Það er eftirtektarvert hjá hv. 2. þm. Reykv. (JB), að honum finst það jafnsjálfsagt, að menn og stofnanir sjeu rógbornar eins og það, að sauðkindin bítur grasið. Hann hefir ekkert við það að athuga, þótt gengið væri um bæinn og reynt að telja mönnum trú um, að ekki væri óhætt að hafa fje sitt í Íslandsbanka. Og honum finst það heiðarlegt og samviskusamlegt að taka þessa ónýtu (að hans dómi) seðla úr Íslandsbanka og leggja þá inn í Landsbankann og krefja svo bankann um nafnverð þeirra. Eftir skoðun þessara manna var hjer um tilraun að ræða til að láta Landsbankann tapa öllu þessu fje.

Það hefði ef til vill getað talist vorkunn, þótt þingmaður verkamanna hefði viljað telja þá á þetta, en að láta alla njóta þess, sýnist fullmikil manngæska. Óþrotlega var unnið að því af þessum mönnum að gera bankann tortryggilegan og telja öðrum trú um, að hann stæði völtum fótum.

En Landsbankinn sjálfur mótmælti þessu. Hann tók óhræddur á móti þessum ónýtu Íslandsbankaseðlum, og seinna lagði hann þá svo aftur þar inn. Landsbankinn hefir því tvívegis átt sömu seðlana undir Íslandsbanka og sýnt með því, að hann hefir aldrei óttast um bankann. Og nú síðast lánar hann þessum banka stórfé, eða rjettara sagt leggur það inn í hann til ávöxtunar. Þessir óttaslegnu menn hefðu getað spurt Landsbankann um hag Íslandsbanka. Hann hefði svarað: Þegar verst stóð, tók jeg á móti seðlum frá Íslandsbanka, og nú hefi jeg lagt inn hjá honum 11/2 miljón. Þið sjáið því, hvort Landsbankinn telur bankann hætt staddan. Svona fóru hinir gætnu bankastjórar Landsbankans að, og er það einhver besta sönnunin fyrir því, að Íslandsbanki hefir aldrei verið og er ekki illa stæður.

En hv. 2. þm. Reykv. (JB) segir samt sem áður, að alt hafi reynst rjett, sem í blaðinu stóð, og að bankinn hafi þurft hjálpar. En af hverju þurfti hann hjálp? Hann þurfti þess ekki sín vegna, heldur til að hjálpa með atvinnuvegunum. Þessi hjálp var ekki hjálp við Íslandsbanka, heldur landsmenn sjálfa.

Hjer er því verið að ásaka bankann fyrir það, að hann hugsaði minna um sjálfan sig en atvinnuvegi landsins, og þó leyfir þessi hv. þm. (JB) sjer að tala um, að nýja bankastjórnin fari með ofsóknir á hendur saklausum mönnum, þótt hún vilji ná því fje, sem hæstarjettardómur er fyrir. Hjer er verið að nota sjer þinghelgina til svigurmæla og ofsókna á hæstarjett landsins og saklausa, fjarstadda menn.

En ekki er undarlegt, þótt ámátleg hljóð komi úr þessu horninu. Á þingmálafundum hjer í Reykjavík hefir verið heil fylking með þennan hv. þm. (JB) og ritstjóra blaðs þeirra í broddi fylkingar, sem brigslað hafa mjer um falska skýrslu.

Standa menn þessir saman við annað blað hjer og fyrirspurnaverksmiðjuna hjer á þingi um þetta rógvarnarsamband. Lýsi jeg þá vísvitandi rógbera um alt það, sem þeir hafa sagt um mig og mína skýrslu, — og skulu þeir vera minni menn bæði lífs og liðnir fyrir það. Var skýrsla mín hárrjett og gefin eftir bestu vitund. Hefi jeg viljað festa þessi ummæli, svo að aðrir fái sjeð aðferð þessara manna. Mun það sannast, að þótt þeir hafi marga með sjer nú, þá munu þeir verða smáir, er framtíðin leggur sinn dóm á þá.

En hvað mundu þeir nú vinna með þessari rannsóknartill. sinni?

Hún mætti vera hraðvirk, þessi 5 manna þingnefnd, ef hún ætti að ljúka öllu starfi sínu fyrir þinglausnir. Skýrsla hennar yrði líklega ekki alveg ófölsk.

En sje það einungis tilgangurinn að sjá, hvernig tryggingum enska lánsins er varið, þá þarf hvorki nefnd nje langan tíma til að kynnast því. Öll þau skjöl, sem þar að lúta, eru í höndum stjórnarinnar, og er ekki annað en að biðja stjórnina að lofa sjer að sjá það. En nær er mjer að hugsa, að þeir vilji skygnast í þessa víxla til þess að sjá nafn Pjeturs eða Páls þar, og setja svo þingnefnd til að rannsaka, hvort ekki hefði verið rjettara, að Páll hefði fengið alt, en Pjetur ekkert. Væri þessum mönnum nær að vinna að því, að Ríkisveðbankinn komist á fót, en þvarga um þetta.

Að síðustu vil jeg geta þess, að í till. þessari felst vantraust á stjórnina og einnig á þá menn, er kosnir hafa verið til að vaka yfir þessari stofnun. Jeg þakka þeim nú vantraustið á mjer, en jeg þykkist fyrir hinna hönd, er með mjer voru. Mun jeg aldrei leita trausts þeirra manna, er mig vefengja, enda liggja mjer aðrir vegir opnir.