20.04.1923
Neðri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í D-deild Alþingistíðinda. (3121)

130. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Jón Þorláksson:

Það gladdi mig að heyra ótvíræðar yfirlýsingar hv. þm. Ak. (MK) og hv. þm. V.-Sk. (LH) þess efnis, að þeir óskuðu einlæglega að auka traust Íslandsbanka, og að till. sje eigi fram komin frá þeirra hálfu til þess að veikja traust hans. Vona jeg, að sem flestir hv. flm. telji þau orð mælt fyrir sinn munn, og jeg ætla að bæta því við, að jeg vona, að þeir sýni það í verkinu, að hugur fylgi máli, með því að beita áhrifum sínum til þess að stöðva þá rógburðarherferð, sem farin hefir verið gegn bankanum í blöðum, sem standa þeim nærri. Munu þeir vafalaust geta áorkað nokkru hjer um. (SvÓ: Það fer eftir skýrslunum). Jeg heyri það á orðum hv. þm., að þessi góði vilji sje eigi skilyrðislaus hjá honum.

Að öðru leyti hefir hv. þm. Dala. (BJ) svarað ýmsu, sem fram hefir komið í umr. um þetta mál, þar á meðal hv. samþm. mínum, 2. þm. Reykv. (JB), sem fekk svo væna ádrepu, að eigi er við það bætandi. Þó vil jeg leiðrjetta einstaka atriði í ræðu hans. Hann hermdi það rjettilega, að stjórn Íslandsbanka lýsti því yfir í febrúar, að hagur bankans væri þá svo, að hann þyrfti eigi á styrk frá ríkinu að halda, en að nú í aprílmánuði hafi bankinn eigi verið betur staddur en svo, að hann hafi fengið 11/2 miljón kr. lán frá Landsbankanum. En það er eigi rjett, ef sagt er, að Íslandsbanki hafi fengið lán hjá Landsbankanum. Ef maður, sem á einhverja peninga aflögum, leggur þá inn á hlaupareikning í Íslandsbanka, þá er eigi venja að segja, að Íslandsbanki hafi tekið lán hjá þessum manni. Eins stendur á um Landsbankann. Stjórn hans leggur inn á hlaupareikning sinn í Íslandsbanka fje, sem Landsbankinn hefir aflögum, eins og hver annar viðskiftamaður bankans. Er það eigi af því, að Íslandsbanki hafi sjerstaklega þurft á þessu fje að halda, en það voru aðrir, sem þurftu á fjenu að halda, útgerðarmenn, sem voru að búa sig undir vertíðina, en Íslandsbanki hafði ekki fje í sjóði til að veita þeim það lán, sem þeir þurftu. Stjórn Landsbankans hefir þótt hentugra að nota Íslandsbanka þannig sem millilið. Skil jeg ráðstöfunina svo, að stjórn Landsbankans hafi þótt þessi leið tryggust, því að auk þess sem skuldunautar Íslandsbanka voru ábyrgir fyrir láninu, þá naut bankinn einnig tryggingar Íslandsbanka sjálfs. Jeg hefi eigi samninginn milli bankanna, — hæstv. stjórn mun geta gefið skýrslu um hann —, en jeg hygg, að málið sje þannig vaxið, að Íslandsbanki hafi neitað að taka við fje frá Landsbankanum, nema að svo væri um búið, að hann þyrfti eigi að svara því út aftur skyndilega, ef honum væri það erfitt. Í þessu sambandi mintist hv. 2. þm. Reykv. (JB) á það, að það væru brotin lögin um seðlaútgáfurjettinn með þessu. Talaði hv. þm. af litlum skilningi um málið. Eftir því, sem mjer er frá skýrt, þá mun hafa verið gert ráð fyrir því, að seðlar væru gefnir út, ef Landsbankinn þyrfti að taka út meira fje en Íslandsbanki teldi sjer fært að greiða úr sjóði. Hv. þm. (JB) gerir úr þessu það, að Íslandsbanka sje í sjálfsvald sett, hvort seðlar sjeu gefnir út, þó að nógir peningar sjeu t. d. hjá Landsbankanum. Er þetta sagt í algerðu hugsunarleysi. Er tæplega hægt að hugsa sjer, að Landsbankinn fari að ganga eftir fje sínu í Íslandsbanka, meðan nógir peningar eru heima fyrir, en seðlaútgáfan kemur eigi til framkvæmda þegar bankarnir eiga nóg fje til samans til þess að annast þær greiðslur, sem þeir þurfa.

Hv. samþm. minn (JB) sagði, að jeg hefði sagt, áð uppgangstímarnir hefðu orsakað, að Íslandsbanki hefði lánað djarflegar. Um það sagði jeg raunar ekki orð, en hitt tók jeg fram, að aukin geta þessi ár hefði leitt til þess, að landsmenn tóku verslunina, og þá sjerstaklega útflutningsverslunina, meira og meira í sínar hendur, og lánaði Íslandsbanki að sjálfsögðu fje í því skyni.

Sami hv. þm. (JB) sagði, að jeg hefði ásakað verkafólk fyrir að hafa fengið hærra kaup árið 1920 en atvinnuvegirnir gátu í raun rjettri borið, eftir sölu afurðanna. Jeg skýrði aðeins frá þessari staðreynd, en ásakaði engan. Það er yfirleitt fjarri skapferli mínu að fara með ásakanir eftir á fyrir atburði, sem hvorki jeg nje aðrir gátu sjeð fyrir. Sagði hann, að eigi væri rjett að skella skuldinni á verkalýðinn. Það hefi jeg og ekki heldur gert. Jeg sagði, að tapið hafi stafað af verðfalli. Eigi nokkur verkalýður sjerstaklega sök á því, þá er það helst spánskt verkafólk, sem ekki vildi kaupa fiskinn okkar hærra verði en raun varð á.

Hv. þm. Ak. (MK) hafði ekki rjett eftir mjer, að jeg hefði talið mikið af tapinu stafa af skipakaupum. Ummæli mín um þetta efni voru tekin eftir skýrslu, sem fylgdi reikningum Landsbankans 1921. Skipabyggingar landsmanna höfðu að vísu áhrif á og juku skort á erlendum gjaldeyri, en hins vegar mun enginn verulegur hluti af tapi bankanna stafa af þeim, og er því ekki rjett sú tilgáta hv. 2. þm. Reykv. (JB), að mikill hluti tapsins hafi vegna þessara skipakaupa lent í vösum útlendinga. Jeg fortek ekki, að eitthvað af tapinu stafi af þessu, enda er það ekki óeðlilegt, en hitt mun og satt, að flestir þeir, sem skip keyptu — og einmitt þeir, sem mestu fje hættu til skipakaupanna, — hafa staðist áföllin sjálfir. Tapið stafaði aðallega af verðfalli útflutningsvöru, þó að einhverjar undantekningar finnist

Þessum sama hv. þm. (JB) til upplýsingar skal jeg geta þess, að áætlun mín um tap Landsbankans á undanförnum árum er ekki eftir upplýsingum stjórnar bankans. Býst jeg ekki við, að jeg hefði fengið upplýsingar þar að lútandi, þó að jeg hefði farið þess á leit.

Þá vildi sami hv. þm. (JB) bera í bætifláka fyrir blaðaskrif um bankann, og telja orsökina til þess, að menn tóku út inneign sína, vera þá, að hætt var að innleysa seðla hans erlendis. Þetta er hæpin skýring, og komið hefir fyrir, að Landsbankinn ljet hætta að innleysa seðla sína erlendis, og hafði það ekki hjer umrædd áhrif, enda liggur í hlutarins eðli, að þegar seðlar hætta að vera í umferð erlendis, ætti það að vera til þess, að meira yrði hjer í umferð af þeim, og ekki sjáanlegt, að bankainnstæður manna geti minkað af þeirri ástæðu. Og þegar Landsbankinn notaði þetta ráð, var það beinlínis tilætlun hans að halda seðlunum í umferð innanlands. Þyrfti því að leita sennilegri orsakar að því, að inneignir minkuðu, ef ekki á að telja, að blaðaskrifin hafi ráð ið þar um.

Sami hv. þm. (JB) sagði, að jeg hefði hlakkað yfir dómi Ólafs Friðrikssonar í Íslandsbankamálinu. Þetta er heldur engan veginn rjett. Er það síst siður minn að hlakka yfir óförum annara, en jeg varð að nefna þetta mál til þess að gera ljóst, að það var leyfilegt að tala um rógburð. Að vísu er óviðeigandi að blanda utanþingsmönnum inn í umr., en hæstarjettardómurinn í nefndu máli er sönnun þess, að hægt var að viðhafa þetta orð.

Sami hv. þm. (JB) sagði mig hafa rengt mat bankanefndarinnar, og hv. þm. Ak. (MK) sagði, að skýrsla mín um það væri lituð. Hvorugt er rjett. Allar tölur, sem snertu Íslandsbanka, tók jeg úr skýrslu nefndarinnar, að þeim einum undanteknum, sem snertu síðasta ársreikning. Var þar engu undan skotið, en hins vegar ýmsar smáupphæðir dregnar saman í eina upphæð.

Raunar getur verið álitamál um gengismat á gulli bankans, en ekki svo, að það haggi í nokkru verulegu tölum mínum.

Hv. 2. þm. Reykv. (JB) hjelt því hvergi fram, að sjer væri ant um álit Íslandsbanka, og því held jeg ekki, að neinn maður trúi. Hann líkti saman ástæðum Íslandsbanka og Landmandsbankans í Kaupmannahöfn, og hefir hv. þm. Dala. (BJ) fyllilega svarað því. Jeg vil aðeins benda á, að þessum hv. þm. (JB) mun hafa verið sjerstök ánægja að þessum samanburði, því meðan á honum stóð ljómaði andlit hans af brosi.

Eftir að hafa heyrt yfirlýsingu hv. þm. Ak. (MK) um, að hann vilji auka traust bankans, skilur okkur ekki annað en leiðirnar, og að bera fram svona till. er ótæk leið, eins og hæstv. forsrh. (SE) hefir tekið fram. Miklu nær hefði legið, að flutningsmennirnir eða Framsóknarflokkurinn hefði snúið sjer beint til stjórnarinnar, og hefði mátt merkilegt heita, ef sjálfur stuðningsflokkur hennar hefði eigi getað fengið hjá henni þær upplýsingar, er hann æskti. (Forsrh. SE: Jeg hefi ekki verið beðinn um slíkar upplýsingar). Finn jeg þá engu ósvarað í ræðu hv. þm. Ak. (MK), enda hefir hv. þm. Dala. (BJ) svarað henni rækilega.

Þessum hv. þm. (MK) þótti ræða mín merkileg (MK: Já, á vissan hátt.) — og gleður það mig, að svo reyndur þingmaður og virðulegur skuli líta svo á hana. Reyndar sagði hann, að jeg í ræðu minni hefði gert tilraun til þess að villa mönnum sýn, en þar eð hann gerir enga tilraun til að rökstyðja þessi ummæli, þá nenni jeg ómögulega að eltast við þau.

Þá sagði hann, að ræða mín hefði verið árás á Framsóknarflokkinn. Jeg sagði, að þeir, sem sett hefðu nöfn sín undir þessa þáltill., væru ekki færir um að fást við bankamál. Annars er langt frá því, að jeg vildi spilla fyrir þeim eða rýra álit þeirra.

Hv. frsm. (SvÓ) dró saman seglin í seinni ræðu sinni; sagðist hann þá ekki viðurkenna, að nefndin ætti að framkvæma almenna rannsókn á bankanum. En í framsöguræðu sinni taldi hann 5 atriði, sem voru þess eðlis, að ómögulegt er að rannsaka þau, nema að rannsaka um leið allan hag bankans. Svo er t. d. um öryggi útistandandi lána bankans, sem munu nema nálægt 40 milj. kr., og um tryggingu fyrir enska láninu. Er vitanlegt, að slíkar tryggingar er ekki hægt að rannsaka til hlítar, nema hagur bankans í heild sje rannsakaður. Hafi það ekki verið meining allra flutningsmanna upphaflega, þá hefir hv. frsm. (SvÓ) dregið saman seglin, og er það síst að lasta.

Hv. frsm. (SvÓ) sagði, að jeg í ræðu minni hafi viljað leiða grunsemdir að hag Landsbankans. Þessi ummæli eru með öllu tilefnislaus, sem menn geta sannfærst um, þá er ræðan verður prentuð. Ræða mín átti að vekja rjettmætt traust til beggja bankanna, og getur enginn skilið hana öðruvísi.

Þá taldi sami hv. þm. (SvÓ) hastarlegt að telja gullkrónu 2/5 hærri í verði en pappírskrónu. Jeg get því miður ekki gert við þessu. Þetta er staðreynd, og hefi jeg vitanlega ekkert atkvæði um það átt.

Enn fremur eru þau ummæli sama hv. þm. (SvÓ), að jeg hafi dregið S. Í. S. inn í umr., tilefnislaus. Jeg hefi í höndum sundurliðaða áætlun um upphæðir, sem Landsbankinn hefir tapað, og í þeirri áætlun er ekki talið neitt tap á S. Í. S., og jeg nefndi Sambandið alls ekki. Eru því tilefnislaus þau ummæli hans, að jeg hafi viljað gera S. Í. S. tortryggilegt, til þess að leiða athyglina frá fjárglæframönnum og bröskurum, sem Íslandsbanki hefði tapað á. Og illa situr á þessum hv. þm. (SvÓ), meðan hann er frsm. þessara 9 manna, sem till. flytja, að tala um fjárglæframenn í sambandi við Íslandsbanka. Það er langt frá því, að jeg haldi fram, að bankinn hafi tapað á honum sjálfum, en hann ætti að litast um í hópnum sínum og spara stór orð.

Þá notaði sami hv. þm. (SvÓ) þá smekklegu samlíkingu, að jeg hafi sömu aðferðina og beljumar, sem sletta skítugum halanum. Jeg ætla aðeins að skjóta því að honum, sem er höfuð þessara 9 manna, hvort ekki myndi hyggilegt, að hann hygði að, hvort enginn fyndist bletturinn á halanum hjá honum sjálfum.

Þá er eitt atriði, sem jeg mun reyndar ekki gera að neinu kappsmáli. Bæði hv. frsm. (SvÓ) og hv. þm. Ak. (MK) hafa talað um lággengi og dýrtíð í sambandi við þetta mál, og vænta, að rannsókn á bankanum leiði í ljós, hvernig ráða megi bót á hvorutveggja. Telja þeir landið tapa árlega miljónum á lággengi. þetta er náttúrlega ekki rjett athugað. þjóðin gerir yfirleitt hvorki að tapa nje græða á lággengi, aðeins ef gengið er stöðugt; það er aðalatriði málsins. Hins vegar stendur á sama, hver peningaeiningin er, meðan gengið er fast. Jeg hefi reyndar áður gert grein fyrir því, hversu fjarri fer, að lágt gengi baki þjóðunum tjón; miklu fremur gæti það hjálpað þeim til þess að halda uppi atvinnu í landinu á erfiðum tímamótum. Undan teknar eru einungis þær, sem gengið er fallið svo hjá, að öll tiltrú til peninga er horfin. Er því alveg vonlaust, að rannsókn á Íslandsbanka bæti að nokkru úr lággengi eða dýrtíðinni í landinu. Mun hún engu þar um þoka. Jeg hygg, að gengið skapist af tveim aðalástæðum. Annað er hlutfallið milli útflutnings og innflutnings, og hitt er alment verðlag innanlands. Þetta getur hvorttveggja breyst, án þess að Íslandsbanki komi til greina, nema að því betra trausts sem bankinn nýtur, því meiri stuðningur er að honum. Er því ekki annað að gera en að efla traust hans sem mest, bæði innanlands og utan.

Jeg ætla að enda ræðu mína með þakklæti til hv. frsm. (SvÓ) fyrir þá yfirlýsingu hans, að hann og meðflutningsmenn hans geti felt sig við brtt. mína.