20.04.1923
Neðri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í D-deild Alþingistíðinda. (3122)

130. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Eiríkur Einarsson:

Jeg ætlaði ekki að kveðja mjer hljóðs í þessu máli, en þar sem ýmsir hv. þm. hafa orðið til þess að lá okkur flutningsmönnum, að við skyldum bera þessa tillögu fram, sá jeg mjer ekki annað fært en gera lítils háttar grein fyrir minni aðstöðu.

Jeg skal strax taka það fram, að jeg gerðist ekki meðflutningsmaður þessarar tillögu til þess að ala á tortrygni gegn Íslandsbanka með henni. Að minni skoðun á tillagan að veita þær upplýsingar um hag bankans, sem nú er óskað eftir víðs vegar af landinu. Jeg veit það úr mínu kjördæmi, að þar er upplýsinga um stofnun þessa alment æskt, og svo mun víðar vera. Það er öllum vitanlegt. En hvort hugir manna standa svo af rógburði eða blaðaundirróðri gegn bankanum, eða þá hinu, að ástæða er til tortrygninnar, skal jeg ekki segja um, en hitt er víst, að þessi skoðun almennings er til staðar, og því þarf að leita svars við því, sem spurt er að. Og þó ekki sje skylda þingmanns að fara eftir vilja kjósenda sinna fremur en sannfæringu sinni, þá er þó altaf ástæða til að taka almennar óskir til greina, að svo miklu leyti sem hægt er, og ekki síst er um almenn hagsmunamál er að ræða.

Annars tel jeg það stóran hag fyrir bankann, að þeim orðrómi, sem um hann er, sje slegið niður, sem vitanlega yrði strax, þegar það yrði kunnugt, að hann stæði sig vel og ekkert væri við starfsemi hans að athuga. En leiddi rannsóknin eitthvað athugavert í ljós, myndi á sannast, að hún hefði verið því sjálfsagðari.

Aðstaða þeirra manna, sem tillöguna flytja, er því hliðstæð kröfum almennings, t. d. um rannsókn á Vífilsstaðahælinu, sem vondar sögur gengu af. Menn vilja fá að vita, hvort þær sögur, sem um bankann hafa gengið, sjeu rjettar, eins og öryggisþörf landsmanna heimtaði rannsókn um það, hvort sögurnar um Vífilsstaðahælið væru á rökum bygðar. Sú rannsókn mun verða hælinu til góðs.

Jeg verð því að halda því fram, að frá bankans sjónarmiði væri þessi rannsókn miklu frekar til öryggis en álitshnekkis.

Hæstv. forsrh. (SE) hefir haldið því fram, að þó að þingmenn ættu að fara að rannsaka hag bankans og athuga, hvort lánveitingar hans og tryggingar væru öruggar eða ekki, þá myndu þeir ekki komast að neinni niðurstöðu, því að það væri svo seinlegt verk og tíminn naumur, sem þeir hefðu til þess.

Þá er jeg hæstv. ráðherra alveg sammála, að nefnd, sem starfaði svo stuttan tíma, eins og hjer er ætlast til, gæti ekki komist að svo ákveðinni niðurstöðu um hag bankans, að sönnun fengist um efni hans. Er fleira á að líta en það, hvað rannsóknartíminn yrði naumur og mennirnir lítt kunnugir, að líkindum þeim málum, er þeir skyldu athuga. Það er svo margt um hag bankans — eins og peningastofnanir flestar — álitamál, er verður þess valdandi, að skýrslugjöfin gæti ekki veitt fullnaðarupplýsingar um styrkleik stofnunarinnar. Eignarskjöl bankans eru t. d. því mjög háð, hvað verðgildið snertir, hvort framtíðin, næstu ár, bera mikinn fisk á land eða ekki, og hvort Reykjavík, sem örlög bankans eru mest bundin við, á blómaskeið eða hnignun fyrir sjer. Tryggingar, sem bankinn nýtur fyrir svo miklu af útlánsfje sínu, munu reynast góðar eða ljelegar, eftir því, hvernig þetta ræðst, og margt er annað, sem ekki verður svarað að svo komnu. Það er einnig ofætlun að ætla nefnd, sem þeirri, er hjer yrði skipuð, að meta, hve góðar væru t. d. sjálfskuldarábyrgðartryggingar eða víxlar bankans. Þeir, sem þar eru til tryggingar, eru dreifðir, ókunnugir margir og hagur þeirra í óvissu margskonar. Nákvæm rannsókn á verðbrjefum bankans og tryggingum er því að mínu áliti alls ekki tilætlunin.

En tillagan getur verið og er eðlileg og nauðsynleg samt sem áður. Með henni er leitað upplýsinga um, hvort nokkuð sjerstaklega tortryggilegt sje á seiði, og þannig komið í veg fyrir tortrygnina. Slíkt yfirlitsstarf um heildarástandið ætti nefndin að geta int af höndum. Og mjer finst, að sú athugun ætti að geta farið svo hóglátlega og hlutdrægnislaust fram, að alt harkið og illindin, sem tillagan hefir valdið, yrði eftir á að maklegleikum til athlægis. — Vel má það og vera, að þótt nefndin kæmist ekki að neinni ákveðinni niðurstöðu um hag og eignir bankans, gæti hún þó með starfi sínu aflað nokkurs heildaryfirlits um peningamálin, eða vakið menn þar til athugunar, sem síst er vanþörf.

Jeg get alls ekki sagt um það, hvort fjármagni bankans hafi verið varið vel nú á síðari árum; en þó vil jeg geta þess, að jeg heyrði einn mikilsvirtan þingmann í Ed. segja um daginn, að hjer í Reykjavík hefðu verið bygð hús fyrir 11 miljónir kr. síðan 1919. Vitanlega hefir nokkuð af því fje verið frá þeim, er húsin bygðu, en eigi að síður hlýtur allmikið af því að hafa verið fengið að láni hjá bönkunum. Jeg er ekki að tala um þetta í ásökunarskyni á bankana, heldur finst mjer, að hjer sje komið inn á merkilegt svið, sem sje hvernig peningastraumarnir skiftast á milli atvinnuveganna. Gæti þetta vel orðið mikið starf fyrir þingnefnd, að athuga, hve mikið fje gengi til bygginga í kaupstöðum, hve mikið til útgerðar og hvað til landbúnaðar o. s. frv. Jafnframt mætti athuga, hvort ekki gæti verið rjett að hafa mismunandi vaxtakjör fyrir atvinnuvegina. Alt þetta er margfaldlega athugunarvert, og virðist ekki fara illa á því, að löggjafarnir byrjuðu með því að gera sjer grein fyrir slíku við athugun á stærsta bankanum. Hefir satt að segja oft verið skipuð milliþinganefnd til athugunar smærri málum.

Jeg tók svo eftir í ræðu hæstv. forsrh. (SE), að hann teldi einna bestu lausnina á þessu máli, að skipaður yrði einn allsherjareftirlitsmaður með öllum sparisjóðum og peningastofnunum landsins, þar á meðal bönkum.

Jeg skal ekki segja, hvort það svaraði kostnaði, þar sem við höfum umsjónarmann fyrir, og það er hæstv. landsstjóra sjálf, sem á að hafa ítarlegt eftirlit með báðum bönkunum, og einhverskonar eftirlitsrjett á hún og með öðrum lánsstofnunum landsins. Og ef bankamálunum slær svo mjög á við og dreif hjá henni eins og nú virðist, þá hefi jeg ekki trú á því, að meðferð þeirra batni, þó að farið væri að bæta þar við nýjum millilið, — stofna nýtt embætti.

Það hefir vitanlega verið rætt fyr hjer á Alþingi að skipa sjerstakan eftirlitsmann með sparisjóðunum, en þó fór nú svo, að sparisjóðslögin komust í kring án þess að sjerstakt eftirlit væri trygt. Skal jeg fúslega játa, að þörf væri á einhverskonar eftirliti með sparisjóðunum, og það máske áhrifaríku á stöku stað, en hvort nokkur ástæða er til nýs embættis fyrir slíkan bankamillilið, sem hæstv. forsrh. (SE) gerir ráð fyrir, er annað mál. Beiti landsstjórnin þar rjettvíslega áhrifum sínum, er það nóg.

Jeg vona nú, að allir hv. þingdeildarmenn sjái, að jeg hefi ekki sagt þessi orð til þess að ala á tortrygni eða til þess að skara frekar í þann eld, sem sjá má blossana frá, og því miður er um þetta bankamál.