20.04.1923
Neðri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í D-deild Alþingistíðinda. (3125)

130. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Forsætisráðherra (SE):

Það voru nokkur orð út af ræðu hv. 2. þm. Reykv. (JB), þar sem hann talar um, að Íslandsbanki hafi vikið að kunningjum sínum, svo sem í vináttuskyni, vissum upphæðum. Þar sem hv. þm. mun eiga hjer við bætur þær, er Tofte bankastjóri fekk, er hann ljet af stjórn bankans, þá eru þessi ummæli hv. þm. (JB) mjög óviðurkvæmileg.

Því er haldið fram, að Tofte hafi fengið 70 þús. danskar krónur, og er þá gaman að athuga, hversu mikil gjöf þetta hefir verið.

Tofte átti eftir 11/2 ár af ráðningartíma sínum, og jeg geri ráð fyrir, að flestir hv. þm. álíti, að halda beri gerða samninga. þegar nú er reiknað eftir þeim launum, sem Tofte hafði, — 20 þús. kr. árslaun og jafnháa dýrtíðaruppbót, og auk þess „tantiéme“, sem ómögulegt er að segja, hve mikil hefði orðið —, þá er hægt að sjá, hvílík gjöf þetta hefir verið. Laun og dýrtíðaruppbót, ef reiknuð er með sömu uppbót og þegar þeir yfirgáfu starf sitt, hefði þá verið 60 þúsund, og þá er tantiémið óreiknað.

það, að skift var um bankastjóra, var sökum þess, að gert var ráð fyrir því í lögum frá Alþingi, að stjórnin skipaði tvo bankastjóra, en alls ekki af því að þeir væru reknir. Hlutafjelagið Íslandsbanki gekk að lögum Alþingis, og var því skyldugt að hafa tvær bankastjórastöður lausar, þegar stjórnin óskaði að skipa í þær. En auðvitað varð hlutafjelagið að semja við þá bankastjóra, sem það vildi láta fara. Og þar sem nú lífsstarfi bankastjóranna var kipt af þeim, án þess þeim væri gefið nokkuð að sök, þá var varla hægt að skilja við þá með mikilli harðýðgi. Víst er um það, að báðir bankastjórarnir voru óánægðir, er þeir fórn.

Það er einkennilegt, að því skuli enn vera haldið fram, að landsstjórnin hafi gengið í ábyrgð fyrir Íslandsbanka við Landsbankann, eftir að stjórnin hefir gefið skýlausa yfirlýsingu um, að svo er ekki. Gefur þetta ástæðu til að halda, að hjer sje verið að magna drauga gegn bankanum.

Bankarnir hafa komið sjer saman um alt, er að viðskiftum þessum lýtur, og árásir út af því lenda því engu síður á Landsbankanum, sem var annar aðilinn.

Það er leiðinlegt að heyra hv. meðmælendur þáltill. sífelt vera að tala um einhverja samábyrgð í kringum bankann. Sterkasti þátturinn í þeim varnargarði, sem hv. þm. eru að kvarta yfir, að sje hjer í þinginu um bankann, er heilbrigð skynsemi. Og það er órjett að segja í raun og veru, að vamargarðurinn sje í kringum bankann; hann er í kringum lánstraust landsins.