20.04.1923
Neðri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í D-deild Alþingistíðinda. (3129)

130. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Forsætisráðherra (SE):

Jeg hefi talað fátt í dag, og ætla nú aðeins að gera stuttar athugasemdir við ræðu hv. þm. Ak. (MK). Hv. þm. bar upp á mig, að jeg hefði gert mig sekan í valdaráni. Jeg veit ekki, við hvað hann á. Það, að forsætisráðherra skipi í æðstu embætti við bankana, getur ekki talist neitt valdarán. Það hefir gengið fyrir sig á alveg löglegan hátt. Hv. þm. (MK) vildi svo draga þá ályktun, að fjrh. bæri ekki lengur ábyrgð á bönkunum. En það er langt frá, að nokkur breyting hafi orðið á því; bankarnir heyra eftir sem áður undir fjrh. Ef við það er eitthvað sjerstaklega ámælisvert, þá ber að snúa sjer til fjrh. með það. Jeg vona, að orð mín skiljist ekki svo, að jeg sje að koma ábyrgð af höndum mjer, sem á mjer hvíli. Jeg legg áherslu á að sýna hv. þm., að það, sem hann kallar valdarán, hefir alls ekki verið í því fólgið að breyta yfirráðunum yfir bankanum, því að þau heyra eftir sem áður undir fjrh., en skipun í hin æðri embætti heyra undir forsætisráðherra og engan annan.

Hv. þm. (MK) tók fram, eftir því, sem mjer skildist, að jeg hafi verið beðinn um að gefa skýrslu um bankann. Jeg lýsi því hjer með yfir, að það hefir aldrei komið til mín nokkur áskorun um slíkt. Þá talaði hv. þm. (MK) um brjef, sem jeg hefði fengið. Það var rjett. Jeg fekk brjef frá forseta sameinaðs þings, þess efnis, að það var skorað á mig að kalla saman fund í sameinuðu þingi til þess að ræða um bankamál. Jeg hlýt að hafa leyfi til þess að skýra frá þessu nú. Jeg minnist þess, að það var rætt um þetta á stjórnarfundi, að fjármálaráðherra viðstöddum, og var þá skotið til mín þeirri spurningu, hvort jeg vildi kalla saman fund í Sþ. Svaraði jeg því til, að jeg mundi ekki kalla saman fund til að leggja fyrir hann mál, sem jeg væri mótfallinn að næði fram að ganga. Það væri óeðlilegt, þar eð jeg væri á móti allri rannsókn. Aftur á móti tók jeg fram, að það væri eðlilegt, að málið yrði rætt innan flokka, og ef menn kæmust þá að einhverri niðurstöðu, sem jeg gæti fallist á, þá væri ekki nema sjálfsagt að kalla saman fund.

Annars lá ekki í þessu áskorun til mín um að gefa skýrslu um Íslandsbanka. Hitt er satt, að jeg sagði í ræðu á fundi með Framsóknarflokknum, að mjer þætti eðlilegt, að flokkarnir ræddu um bankamál við stjórnina og reyndu að komast að einhverri niðurstöðu.

Það kom fram hjá hv. þm. (MK), að jeg, sem formaður bankaráðsins, ætti að skýra þinginu frá öllu því, sem gerðist í bankanum. Undir bankaráðið eru borin mál eins og hvort veita skuli þessum og þessum lán o. s. frv., og hvaða ástæða ætti að vera til þess að fara að skýra þinginu frá slíku?

Stjórnin hefir gert alt, sem hún gat, til þess að fá bankana til þess að vinna saman, og nú er sú samvinna hafin.