21.04.1923
Efri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í D-deild Alþingistíðinda. (3141)

131. mál, tryggingar Íslandsbanka fyrir enska láninu

Flm. (Einar Árnason):

Atvikin hafa hagað því svo, að við flutningsmenn þessarar tillögu höfum orðið að fara nokkuð aðra leið í þessu máli en við hefðum helst kosið. En þó að sú leið, er við töldum æskilegasta, reyndist útilokuð, þá gátum við þó ekki látið þetta mál með öllu niður falla, vegna þess, að við teljum, að hjer sje um svo mikilvægt alþjóðarmál að ræða.

Í fyrsta lagi liggja þau drög til þessa máls, að við teljum það skyldu hvers einasta þingmanns, og þá þingsins í heild, að gera sjer sem ljósasta grein fyrir fjárhagsástandi landsins, bæði út á við og inn á við. En þar sem fjárhagur ríkissjóðs og fjármálaviðskifti þjóðarinnar er svo samtvinnað þeirri peningastofnun, sem tillagan ræðir um, þá verður ekki hjá því komist að athuga hvorttveggja í senn, ef hugsanlegt á að vera að vita deili á öðruhvoru. Um fjárhagsástand ríkissjóðs verður því ekkert sagt með vissu, öðruvísi en með því að kynna sjer að einhverju leyti þá peningastofnun, sem hefir haft í hendi sjer viðskiftafjöregg þjóðarinnar og spunnið hefir örlagaþræðina um fjárhagslega afkomu hennar á síðustu tveim áratugum.

Í öðru lagi er það vitanlegt, að mikill meiri hluti þjóðarinnar hefir vænst þess, að þetta þing tæki bankamálin til rækilegrar athugunar, og gerði sitt ítrasta til að leysa viðskiftalífið úr þeim læðingi, sem það liggur nú fjötrað í. Úr flestum kjördæmum landsins berast kröfurnar um þetta ótvíræðar og ákveðnar. Þjóðin horfði til þingsins með þeirri von og vissu, að það ljeti endurbót þessara mála sitja fyrir öllu öðru. Enda má óhætt segja, að ef þessu þingi auðnaðist að greiða vel úr banka- og viðskiftamálunum, þá hefði það unnið ómetanlegt stórvirki og leyst mikil vandræði af höndum þjóðarinnar. Jeg verð að játa, að þegar jeg fór til þings í vetur, taldi jeg víst, að þetta mál yrði eitt aðalviðfangsefni þess. Jeg þóttist þess fullviss, að bæði landsstjórnin og leiðandi menn bankanna myndu hafa einhverjar tillögur að gera þessu ástandi til umbóta. En því miður hefir þetta alt brugðist. Ekkert er gert. Þingið veit lítið um málið og þjóðin enn þá minna. Það eina, sem þjóðin veit, er það, að fjármála- og viðskiftalífið sigldi í strand fyrir þrem árum; að skilamennirnir hafa orðið að greiða á þessum árum óhæfilega háa vexti til bankanna, vegna vanskila annara; að þjóðin borgar miljónir á ári út úr landinu vegna gengismunar, sem skapast hefir af óheilbrigðri fjármálastjórn; að hún hefir lánað Íslandsbanka fje, sem nemur fullum 7 miljónum króna, eftir núgildandi verðlagi á íslenskum peningum; loks, að fjárkreppa og dýrtíð er að drepa allan framkvæmdaþrótt í landinu.

Þetta er sjúkdómur í viðskiftalífinu, sem ekki má láta ráðast, hvernig snýst. Það þarf að þekkja ræturnar til meinsins og byrja þar lækninguna. Og það er trú mín, að ef bankamir, landsstjórnin og þingið vildu hefja heilhuga samstarf til þess að greiða úr þessum málum, þá megi komast langt í endurbótum á tiltölulega skömmum tíma.

Jeg hefi heyrt það utan að mjer, síðan þessi tillaga kom fram, að fyrir okkur flutningsmönnum hennar vaki það eitt að veikja traustið á Íslandsbanka og gera honum erfitt fyrir, með öðrum orðum, að hjer sje ofsókn á ferðinni. þessu vil jeg eindregið mótmæla. Við erum reiðubúnir til að styðja bankann að hverju góðu verki. Við teljum það skyldu okkar gagnvart þjóðinni. En aftur á móti viljum við krefjast þess, að okkur sje sýnt fult traust af bankanum og að engin leynd sje viðhöfð gagnvart fulltrúum þjóðarinnar. Það er vissasti vegurinn til þess, að bankinn vinni aftur það traust, sem hann áður naut, en óneitanlega hefir rýrnað á síðustu árum.

Það er ekki úr vegi að athuga í þessu sambandi, hvað það er, sem þjóðin hefir látið Íslandsbanka í tje, og hvað hann hefir veitt henni í staðinn.

Honum hefir verið veittur einkarjettur til seðlaútgáfu; það hefir verið látið óátalið, þótt hann ræki sparisjóðsstörf; það hefir verið ljett af honum innlausnarskyldunni og honum hefir verið veitt undanþága frá því að greiða nokkra opinbera skatta. Af þessum fríðindum er seðlaútgáfan mikilvægust. Framan af starfsárum bankans var hún allmikið takmörkuð, en þegar á leið, var smámsaman rýmkað um þetta, og að lokum ljet þingið þetta að mestu eða öllu leyti á vald landsstjórnarinnar og bankans. Með þessari takmarkalausu eða takmarkalitlu seðlaútgáfu er bankanum fengið í hendur nokkurskonar einveldi í fjármálum þjóðarinnar út á við. Það liggur í hlutarins eðli, að undir honum var þá að miklu leyti komið, hvernig fjárhagnum reiddi af, því að það var hans hlutverk sem seðlabanka að hafa vald á fjárreiðum landsins gagnvart útlöndum.

Jeg hefi enga tilhneigingu til að draga fjöður yfir það gagn, sem Íslandsbanki hefir gert landinu. Þvert á móti viðurkenni jeg fúslega, að hann hefir hrundið hjer af stað ýmsum gagnlegum framkvæmdum; hann hefir eflt og aukið sjávarútveginn að miklum mun og með því aukið framleiðsluna. En hann hefir líka stofnað til ýmsra tvísýnna verslunarframkvæmda, og enn fremur lánað mikið fje til húsabygginga í kaupstöðum og sjávarþorpum, og með því beint fólksstraumnum úr sveitunum til sjávarsíðunnar. Er það álit margra, að á sumum þessum sviðum hefði bankinn þurft að gæta meiri varúðar. En tilhneiging hans til að græða á seðlaútgáfunni hefir farið með hann í gönur.

Á stríðsárunum, sem voru að mörgu leyti veltiár í verslun, græddi bankinn því meira sem hann setti meira út í umferð af seðlum. Freistingin var auðvitað mikil, en varygðin lítil. Þegar svo verðfallið skall yfir, kom það í ljós, að gróði stríðsáranna var falskur, því að peningamir, eða rjettara sagt seðlarnir óinnleysanlegu, höfðu verið settir í fyrirtæki, sem hrundu í rústir við fyrsta vindkast örðugleikanna. Þá fyrst varð það ljóst, að bankinn hafði ekki gætt þeirrar skyldu, sem á honum hvíldi sem seðlabanka, sem sje þeirrar, að gefa ekki meira út af verðmiðli en hægt var að rísa undir, þótt eitthvað bjátaði á. Síðan hefir seðlamergðin verið bankanum hið mesta harmabrauð.

Vitaskuld kemur mjer ekki til hugar að halda því fram, að bankinn hefði getað komist í gegnum þá fjárhagsörðugleika, sem gengið hafa yfir öll ríki veraldarinnar, án þess að verða fyrir einhverju tjóni. Slíkt var óhugsanlegt. En hann hefir tapað óþarflega miklu og þjóðinni hefir blætt of mikið í það fórnartrog.

Sakir standa þá þannig: Íslandsbanki er lamaður, — vanmegna þess að bæta úr viðskiftaþörfum þjóðarinnar. Þjóðin er búin að bíða 3 ár eftir því, að þetta ástand lagaðist. Ríkissjóður hefir lánað bankanum allmikið fje. Landsbankinn sömuleiðis. Þó virðist engin breyting til batnaðar. Er þá ekki ástæða til þess, að þingið láti sig einhverju skifta hvernig því er varið með þessi lán?

Nú er þess ekki að dyljast, að úti á meðal þjóðarinnar er nokkur uggur um það, hvort þessi lán til bankans sjeu svo trygð, sem skyldi. Sje þessi uggur ástæðulaus, þá er nauðsynlegt að kveða hann niður. Það er báðum málspörtum betra.

Það er næsta líklegt, að fyrsta spurningin, sem fyrir okkur þingmenn verður lögð, þegar við komum heim af þingi, verði eitthvað á þessa leið: Hvernig eru lánin til Íslandsbanka trygð og hverjar vonir eru um, að svo fari að rakna fram úr fyrir bankanum, að hann geti farið að greiða eitthvað fyrir viðskiftum manna? Ef sama þögnin og sama leyndin á að hvíla yfir þessu máli áfram eins og hingað til, þá sje jeg ekki annað en að svarið hjá okkur æðimörgum hljóti að verða eitthvað á þessa leið: Jeg veit það ekki. Stjórnin nefndi það ekki, og þingið ljet sig það engu skifta.

Jeg býst ekki við, að nokkur einasti þingmaður sje ánægður með að gefa þessi svör; en jeg sje ekki heldur, hvernig hægt verður að gefa önnur svör, ef þessari tillögu verður ekki sint.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál að sinni; það er ekki ólíklegt að tilefni gefist síðar til þess að fara nákvæmar út í einstök atriði. Jeg verð þó að kvitta fyrir 2 brtt., sem fram hala komið við tillögu okkar. Það er ekki ástæða til að viðhafa mikla snúninga við þessar brtt., en þær eru þannig vaxnar, að við flutningsmenn sjáum okkur ekki fært að greiða þeim atkvæði. Báðar brtt. hafa það sameiginlegt að draga úr þeirri vitneskju, sem till. okkar ætlast til, að þingið fái um bankann, með því að binda athugunina einungis við tryggingarnar fyrir enska láninu En eins og þáltill. ber með sjer, er ætlast til nokkurs meira.

Í till. stendur, að nefnd sú, sem skipuð yrði, eigi samkvæmt 35. gr. stjórnarskrárinnar að kynna sjer, svo sem unt er, fjárhagsaðstöðu bankans gagnvart ríkinu. Með þessu er þó ekki sagt, að hefja skuli gagngerða rannsókn í venjulegri merkingu þess orðs. Þótt það væri vitanlega ekkert á móti því, þá væri það óframkvæmanlegt, því að til þess er enginn tími nje möguleikar nú. Það, sem við flutningsmenn ætlumst til, er það, að nefndin fái nauðsynlegar upplýsingar og skýrslur um alt það, er nauðsynlegt er að vita um ásigkomulag og horfur með fjárhag bankans, svo og viðskiftamöguleika í framtíðinni. Nefndin þarf að gera sjer ljóst, í samráði við bankastjórnina, hverra ráða þarf að leita og hverjar vonir eru um það, að bankinn geti farið að starfa að nauðsynlegum viðskiftamálum þjóðarinnar og greiða fyrir framkvæmdum hennar og atvinnuvegum; og í öðru lagi að athuga, hvort bankinn muni ekki með einhverjum hætti geta stutt að lagfæringu gengisins.

Við flutningsmenn teljum víst, að bankastjórn Íslandsbanka sje ljúft að eiga tal um þetta við trúnaðarmenn þings og þjóðar, og láti þeim því fúslega í tje allar nauðsynlegar skýrslur og aðstoð. Einnig álítum við, að henni mundi vera ljúft, að gerðar væra einhverjar tillögur til að bæta úr því ástandi, sem nú er. Við getum því ekki gengið inn á brtt., vegna þess, að okkur fanst ekki nóg að vita um tryggingarnar einar saman.

Jeg hefi nú reynt að skilgreina, hvað fyrir okkur flutningsmönnum vakir, til þess að reyna að koma í veg fyrir, að í þessari hv. deild yrðu málaðar samskonar myndir af vissri persónu, eins og átti sjer stað í hv. Nd., við umræðurnar um þetta mál.