21.04.1923
Efri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í D-deild Alþingistíðinda. (3142)

131. mál, tryggingar Íslandsbanka fyrir enska láninu

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Þegar enska lánið var tekið, gekk nokkur hluti þess til þess að greiða áfallin gjöld ríkissjóðsins, en hinu var skift á milli bankanna. Landsbankinn fekk sitt lán án þess að setja fyrir því tryggingu. Jeg læt þess aðeins getið, án þess að jeg sje að átelja það. Bankinn naut þess þar eins og fyrri, að hann er eign landsins. En Íslandsbanki fekk stærstu fúlguna og setti veð fyrir láninu. Það var fyrverandi stjórn, sem lánið veitti og tók á móti veðinu.

Skömmu eftir að þetta hafði gerst urðu stjórnarskifti, en við fjármálastjórninni tók maður, sem var flokksbróðir þeirra 14 manna, er nú báru fram í þinginu tillögu um rannsókn á Íslandsbanka, og þá meðal annars rannsókn á tryggingunni fyrir enska láninu. Ástæða var því til þess að ætla, að þessir 14 þingmenn mundu bera traust til ráðherra síns og flokksbróður og una því vel, að veðið væri undir yfirstjórn hans. Að sjálfsögðu átti það að vera eitt af fyrstu skylduverkum hans að kynna sjer tryggingamar fyrir láninu og sjá um að halda þeim svo við, að þær rýmuðu ekki. Að sjálfsögðu var það skylda hans að gefa ekki aðeins flokksbræðrum sínum, heldur öllu þinginu skýrslu, ef veðið rýmaði á nokkurn hátt, án þess að bankinn bætti úr því, og yfir höfuð heimta allar þær tryggingar, er hann taldi nauðsynlegar.

Það er víst, að fyrverandi fjármálaráðherra gaf þinginu enga slíka skýrslu, og jeg leyfi mjer að fullyrða, að hann fór ekki fram á neitt það í tryggingaráttina, sem bankinn ekki uppfylti.

Sjeu ráðherranum ekki gerðar getsakir um vítaverða vanrækslu á embættisskyldu hans í þessu efni, eða því að honum dróttað, að hann hylmaði yfir með bankanum á einhvem hátt, — og hvorugt þetta vil jeg gera —, þá verður ekki dregin önnur ályktun af því, að hann gaf enga skýrslu um málið, en sú, að hann hafi sjálfur verið sannfærður um, að veðið væri nægilegt og tryggilega um það búið. Jeg verð líka að gera ráð fyrir því, að fjármálaráðherrann hafi nú verið kunnugastur veðinu allra manna, annara en bankastjóra Íslandsbanka.

Hins vegar hefir því verið svo varið hjer í þessu landi, að síðan enska lánið var veitt bankanum hefir verið haldið uppi sífeldum og látlausum tilraunum til þess að skerða álit og traust bankans, bæði innan lands og utan. Jeg segi síðan enska lánið var veitt bankanum, ekki af því, að þetta væri ekki gert alveg eins áður, heldur af því, að nokkur ástæða hefði verið til þess að vænta þess, að þegar landið var orðið svona mikill lánardrottinn bankans, þá yrði enginn pólitískur flokkur í landinu, og allra síst aðalstjórnarflokkurinn, til þess að halda uppi ofsóknum gegn bankanum. Það mun vera nokkuð fágætt í viðskiftalífinu, að sá, sem lagði fje sitt í hendur annars manns eða fór með umboð þess, er það gerði, hjeldi jafnframt uppi ofsóknum gegn lánþiggjanda og reyndi til þess að skaða hann fjárhagslega. Foringjar Framsóknarflokksins hefðu átt að vita það, að þingmenn þess flokks voru líka þingmenn þjóðarheildarinnar, eða áttu að vera það. En öllum er kunnugt um atrennuna að Íslandsbanka, sem gerð var af flokksblaði Framsóknarflokksins, meðan Eggert Claessen bankastjóri var erlendis síðasta vetur, til þess að útvega bankanum — og þar með landsbúum — veltufje. Með þeirri atrennu tókst að koma óróleik á hugi manna víðs vegar um land og tæla kjósendur, sem fremur lítið skynbragð báru á bankamál, til þess að heimta rannsóknir og eftirlit þingsins með því verðmæti, er Framsóknarmennirnir höfðu sett sinn eigin ráðherra til að gæta.

Þegar svona var ástatt, virtist ekki annað liggja beinna við en að fjármálaráðherrann skærist í leikinn, til þess að reka af sjálfum sjer ámælið um það, að hann færi illa með það pund, er honum hafi verið fengið í hendur. Ekkert virtist eðlilegra en að hann sjálfur, ótilkvaddur, gæfi þinginu skýrslu um tryggingamar fyrir láninu, og að hann gerði þetta sjálfs sín vegna.

En hann átti líka að gera þetta vegna Íslandsbanka, vegna þeirrar hættu, sem bankanum gat stafað af því innan lands og utan, að honum væri sýnd svo þrálát og illvíg áreitni.

Og hann átti loks að gera það vegna þjóðarinnar. Peningar þjóðarinnar voru í vörslum bankans; margir einstaklingar áttu þar líka sparisjóðsfje sitt. Þjóðin átti rjett á að fá að vita, hvort nokkur hætta væri á ferðum. Stjórnin hafði sjálf skipað tvo af bankastjórum bankans. Henni átti, að minsta kosti eftir það, að vera mjög hægt um vik að gefa skýrslu. Á öllum öðrum sviðum atvinnulífsins, þar sem um mikið fje var að ræða, sem heita mátti að þjóðin ætti, þótt ekki væri nærri eins mikið fje og þetta, hefði einhver yfirlýsing verið birt frá æðsta eftirlitsvaldi stofnunarinnar.

Fjármálaráðherrann hefði átt að tala, en hann kaus að þegja.

Hann hefir nú losað sig við óþægindin af því að standa hjer til reikningsskapar. Jeg treysti því fyrir mitt leyti, að honum verði það aldrei til vansæmdar, að hann hafi vanrækt tryggingamar fyrir enska láninu, en jeg get ekki sýknað hann um þau „þöglu svik“ að þegja við tilraunum foringjanna í flokki hans til þess að glepja þjóð og þing til þess að vinna bankanum tjón.

Því í skjóli þessarar þagnar ráðherrans er hinn nýi leiðangur gegn bankanum hafinn.

Jeg á samleið með hv. flutningsmönnum aðaltillögunnar um það, að jeg vil vita um tryggingar fyrir enska láninu. Úr því fjármálaráðherra gaf ekki þessa vitneskju ótilkvaddur, er eðlilegt, að um hana sje beðið og að skýrslan um tryggingamar sje athuguð af fjárhagsnefndum deildanna; en jeg tel það sjálfsagt, að þetta verði gert á þann hátt, að fullkomin þögn geti verið út á við um víxla þeirra viðskiftamanna bankans, er bankinn hefir sett til tryggingar. Jeg tel þetta nauðsynlegt fyrir velsæmi þingsins, einkahagsmuni þeirra manna, er við bankann skifta, og fyrir bankann sjálfan.

Útlit er fyrir, að ekki sje til þess ætlast af hv. flutningsmönnum tillögunnar, að þessa sjálfsagða hófs sje gætt við rannsóknina, eða öllu heldur á eftir henni. Þá á að vera lokið allri þagnarskyldu af þeirra hálfu. Með þessu eru þessir hv. flutningsmenn að áskilja flokksblaði sínu rjettinn til þess að ráðast eftir á á einkahagsmuni þeirra manna, er því er í nöp við.

En þessum hv. herrum er það svo sem ekki nóg að fá að vita um tryggingarnar fyrir enska láninu. Þeir vilja umfram alt komast inn í bankann og setja þar rannsóknarrjett yfir honum samkvæmt 35. grein stjórnarskrárinnar.

Ákærendurnir vilja sjálfir gerast dómarar í sínu eigin kærumáli.

Svo langt gengur yfirdrepsskapurinn, að þeir jafnvel gera ráð fyrir því, að bankanum muni vera og eigi að vera það sjerstök ánægja, að þeir sjeu að gera þar ófrið og uppistand í bankans eigin húsi. Svo langt gengur yfirdrepsskapurinn, að þeir lýsa yfir því í þingsölunum, að það sje þeirra heitasta ósk að geta sagt kjósendum sínum, að ekkert sje að athuga við bankann.

Rannsókn á bankanum nú! — Er það ekki fáránleg uppástunga? Það er ekki liðið nema rúmt ár síðan lokið var við algjöra rannsókn á öllum efnahag bankans og útibúa hans. Mat þetta var framkvæmt af mönnum, er voru svo vel til þess hæfir, að engir munu vera hæfari í þessu landi. Þeir höfðu nægan tíma til þess að framkvæma rannsóknina. Getur nokkrum heilvita manni dottið í hug, að mat, sem framkvæmt væri af þingnefndum, mönnum, sem eru önnum kafnir við önnur störf hjer í þinginu, gæti orðið nokkuð nándamærri eins ábyggilegt, jafnvel þótt þeir hefðu starfað að því allan þingtímann, hvað þá þennan stutta tíma, sem þingið á eftir að sitja?

Þingið hefir engan siðferðilegan rjett til þess að vefengja matið. Tap bankans var metið hátt, en bankinn átti líka mikinn varasjóð, og niðurstaðan varð sú, að hlutabrjef bankans voru þá metin á 91%, eða með öðrum orðum, af hlutafjenu, 41/2 milj. kr., vantaði 405000 kr. til þess, að brjefin væru í pari. En síðan þetta var hefir bankinn grætt allmikið fje, en ekki, svo kunnugt sje, tapað neinu umfram það tap, sem matsnefndin vissi um og hafði áætlað um, og enn þá er víst ekki nærri alt það tap, sem matsnefndin áætlaði, komið fram.

Matsnefndin mat tap bankans á þessa leið:

Tap af lánum kr. 5430000

Gengistap — 1183658

Samtals kr. 6613658

Um fyrri liðinn, tapið á lánunum, mun það vera að athuga, að þegar nefndin hafði reiknað út það tap, sem hún taldi vera á lánunum, bætti hún mjög álitlegri fjárhæð ofan á, til tryggingar því, að þetta mat hennar yrði ekki of lágt.

Um síðari liðinn er það aftur að segja, að þar er að ræða um áætlað gengistap, er bankinn mundi bíða af enska láninu, og var þá gert ráð fyrir því, að bankinn mundi þurfa að endurborga hvert pund með 27 íslenskum krónum. En nú var þetta lán veitt til 30 ára. Jeg ímynda mjer, að flestir okkar, ef ekki allir, sem hjer sitjum, eigum bágt með að trúa því, að um næstu 30 ár verði meðalgengi pundsins gagnvart íslenskri krónu 27 krónur, heldur að hjer sje reiknað of hátt. Samt má öllum þykja vænt um, að nefndin hefir metið svona hátt.

Þetta sýnir okkur svo áþreifanlega varfærni hennar og samviskusemi. Þetta er atriði, sem við getum sjálfir myndað okkur hugmynd um, og það hlýtur að vekja traust þeirra, sem við rökum vilja taka eða eru færir um að taka á móti nokkrum rökum, á því, að nefndin hafi líka áætlað tapið af lánunum nógu hátt.

Síðan þessi tapsáætlun var gerð hefir bankinn verið svo heppinn að geta lagt fyrir mikið fje, til þess að mæta þessu áætlaða tapi.

Þetta hefir verið lagt til hliðar:

Frá varasjóði......... kr. 1687000,00

Arður ársins 1921....—..206270,81

Greitt upp í tap ....... — 2093,31

Samtals kr. 3895364,12

En bankinn er að leggja meira til hliðar fyrir tapinu. Af ársarðinum fyrir 1922 leggur bankastjórnin til, að lagt sje til hliðar fyrir tapinu kr. 1157048,89 En í árslok 1922 á varasjóðurinn þá að vera kr. 2345406,31.

Sjeu þessar þrjár tölur:

kr. 3895364,12

— 1157048,89

— 2345406,31

lagðar saman, þá ————

kemur út...............97819,32

Þessi tala er kr. 784161,31 hærri en alt það tap bankans, sem matsnefndin áætlaði, og er þá líka talið með alt gengistapið, sem hún áætlaði, sem þó kemur niður smátt og smátt á 30 árum.

Með öðrum orðum, bankinn á þá nú, að minsta kosti, alt hlutafje sitt óskert og auk þess kr. 784161,31, og hefir þá sumpart lagt til hliðar eða á í varasjóði alla þá fúlgu, er matsnefndin áætlaði, að hann frekast mundi hafa tapað á lánum sínum og viðskiftum.

Væri banki að byrja hjer með 41/2 miljónar hlutafje og meira en 3/4 miljónar tryggingarfje, þá held jeg, að okkur litist ekki svo illa á þann búskap.

En vitanlega er aðstaða Íslandsbanka að mörgu leyti miklu betri en byrjandi banka, af því hann hefir þegar fengið fasta viðskiftamenn, og þarf því ekki að búast við neinu rentutapi á stofnfje sínu, auk þess sem hann hefir fengið dýrkeypta reynslu á viðskiftamálum landsins.

Jeg fæ því ekki betur sjeð en að flest bendi til þess, að bankinn sje nú vel stæður og að engin minsta ástæða geti verið til þess að fara að ryðjast inn í bankann með rannsóknarnefndir. Og af því að bönkunum græðist svo fljótt fje, þegar vel gengur, er eins líklegt, að eftir tiltölulega stuttan tíma geti hann verið orðinn ágætlega stæður.

Tap það, sem bankinn hefir orðið fyrir, er ekki heldur að neinu leyti einstætt. Við vitum það t. d., að á sama tíma, sem bankinn var að tapa, tapaði Landsbankinn miklu fje, en af því engin rannsókn hefir farið fram á því tapi, vitum við miklu minna um það tap heldur en um tap Íslandsbanka, vitum miklu minna eða óglöggar um tapið í þeim bankanum, sem við eigum sjálfir, heldur en í bankanum, sem er eign einstakra manna og að mestu leyti eign útlendinga.

Sje litið til annara landa, verður líkt uppi á teningnum, alstaðar hafa bankarnir verið að stórtapa eftir heimsstyrjöldina, sem aðallega stafar af því verðfalli, sem orðið hefir síðan, og styrjaldargróðavímunni, sem var í mannkyninu.

En jeg skal játa það, að þegar verið er að gera ráð fyrir því, að horfur Íslandsbanka sjeu nú góðar, eins og jeg vona að horfur Landsbankans sjeu líka góðar, þá vitum við ekki, fremur en aðrar þjóðir, hvað framtíðin hefir í skauti sínu. Við verðum að miða flest við líðandi stund. Við getum ekki annað gert en biðja guð að forða þjóðinni við nýjum áföllum og leggja fram það vit og krafta, sem þjóðinni eru gefnir, til þess að halda þjóðarskútunni á floti.

En það er víst, að hagur Íslandsbanka og hagur íslensku þjóðarinnar er óaðgreinanlega sameinaður.

Farnist Íslandsbanka illa, þá má segja, að mikill meiri hluti af atvinnufyrirtækjum þessa lands sje í hættu staddur. Farnist honum vel, þá er uppfylt fyrsta skilyrðið fyrir því, að atvinnufyrirtæki geti blómgast í landinu, að þau hafi eða geti haft afl þeirra hluta, sem vinna þarf með.

Íslandsbanki hefir ekki notað fje sitt til útlendra spekúlationa. Hann hefir lánað það til rekstrar atvinnufyrirtækjanna, og til þess að greiða fyrir því, að afurðir landsins komist í sem best verð.

Á meðan hann vinnur að þessu, og ekki öðru, á hann fullkomlega skilið að bera sitt fagra nafn og heita Íslandsbanki.

Á meðan hann hefir þetta með höndum á hann líka rjett á því, að ekki sje verið að áreita hann að ósekju.

Og einmitt af því, að Íslandsbanki hefir haft það starf með höndum, sem hann hefir haft, þá verður því ekki heldur mótmælt, að langmestur hluti af því tapi Íslandsbanka hefir runnið á margvíslegan hátt til landsbúa sjálfra. Hjer er það sama að segja um tap Íslandsbanka eins og t. d. um tap Landsbankans.

Þetta alt hefðu þeir menn átt að íhuga, sem hófu ofsóknina gegn bankanum og hafa haldið henni áfram alt til þessa dags.

Árásirnar á bankann hafa verið og eru ekkert annað en óhæfuverk, eða öllu heldur níðingsverk, ekki aðeins gegn bankanum, heldur líka gegn íslensku þjóðinni.

Hvernig halda menn að litið yrði á það í heiminum í kringum okkur, ef það frjettist, að þingið væri búið að skipa pólitíska rannsóknarnefnd á Íslandsbanka? Jeg geri ráð fyrir því, að þeim, sem hefðu af þessu glöggar frásagnir og þektu vel til, þætti þetta nokkuð kynleg nefndarskipun. Pólitískar rannsóknarnefndir hafa ekki beinlínis orð á sjer í heiminum fyrir rjettdæmi. Sagan hefir áreiðanlega oftar en hitt orðið að dæma verk þeirra með glæpum og svívirðingum mannkynsins. En það eru ekki nema svo undurfáir í umheiminum kringum okkur, sem þekkja hjer vel til. Menn draga, langflestir, ályktanir sínar af því, sem verður á yfirborði viðburðanna. Þess vegna held jeg líka, að það væri áreiðanlega ógerningur að ætla sjer að koma umheiminum í skilning um það, að þetta væri alveg ástæðulaust, og það eftir það, að nýlega væri búið að rannsaka allan hag bankans. Í augum ókunnugra en óvilhallra manna hlyti að líta svo út, sem sú rannsókn, er gerð var áður, hlyti að vera eitthvað stórkostlega óábyggileg, eða jafnvel öllu heldur, að komnar væru upp um stjórn bankans einhverjar stórfeldar misfellur eða svik. Það væri alls ekki hægt að gera ráð fyrir því, að ókunnir útlendir menn færu að álykta, að þessi meiri hluti, er þessu hefði ráðið, væri rekinn út í þetta með hnútasvipum rógs og haturs.*) — Það mætti sjálfsagt koma þeim í skilning um, að til væru pólitísk flón í íslenska þinginu, — Því þau eru til í öllum þingum —, en það væri víst örðugra að gera þeim skiljanlegt, að pólitísku flónin væru í meiri hluta, og sjerstaklega að sá stjórnmála flokkurinn, sem mesta ábyrgð ber á stjórnarstörfunum, hefði fylgst að, nærri því sem einn maður, í því að koma þessari rannsókn á, algerlega að ástæðulausu.

Afleiðingin hlyti að verða sú, að á bankann — aðalviðskiftabanka landsins — hlyti að falla afarþungur grunur um óábyggilegleika, ef ekki óheiðarleika. Og allir ættu að vita það, að traust og tiltrú er hverjum einasta banka nauðsynleg, ef hann á að geta unnið sæmilega ætlunarverk sitt.

Og hver yrði svo afleiðingin af þessari rannsókn fyrir íslensku þjóðina? Jeg held hún mundi ekki bæta úr fjárhagsörðugleikunum. Er hægt að hugsa sjer öllu hressilegar blásið að kolunum til nýrrar álitsskerðingar fyrir alt íslenskt viðskiftalíf, ekki aðeins viðskifti Íslandsbanka, heldur líka fyrir viðskifti Landsbankans og viðskifti íslenskra manna, sem skifta við útlendinga?

Hver áhrif þetta gæti haft á gengi íslensku krónunnar, geta menn nokkurn veginn getið sjer til. Halda hv. flutningsmenn, að þetta mundi hækka gengi hennar? „Þeir ætla að hækka með þessu gengi íslensku krónunnar, blessaðir“, sagði vitur fyrverandi þingmaður við mig á götunni um daginn, þegar þessi undraverða tillaga kom fram. Hann sagði það með gremjuþrungnu háði. Honum varð það fyrst fyrir að hugsa um það, sem líka var augljósast.

Er þá ekki orðið nóg um það tjón, sem þessar tillögur hafa gert? Því vitanlega er nú búið að síma um það til útlanda og það þegar komið fyrir eyru fjölda margra þeirra manna, sem Ísland og íslenskir menn eiga lánstraust sitt undir, að borin hafi verið fram í báðum deildum þingsins, og það af aðalstjórnarflokknum, tillaga um það að skipa rannsóknarnefnd á Íslandsbanka. Er ekki nóg komið, þó að þingið geri sjer ekki líka þá óvirðingu að samþykkja hana?

Fái fjárhagsnefndir þingsins skýrslu bankans um tryggingamar fyrir enska láninu og rannsaki fjármálastjórnin þessa skýrslu og geri við hana þær athugasemdir, sem hún telur þörf á, og verði þessi skýrsla og þessar athugasemdir íhugaðar með viðeigandi þagmælsku og gætni, svo að bætt verði úr því, er kynni að þykja athugavert eða óvarlegt, — ef það þá verður nokkuð —, þá tel jeg alt það sje gert, sem þingið á að gera og má gera í þessu máli. Jeg get ekki greitt atkvæði mitt með neinni þingnefnd, er eigi að fara inn í bankann til rannsóknar, þótt hún sje ekki skipuð með því valdi, sem 35. grein stjórnarskrárinnar ræðir um. það verk, sem á að vinna, má og á að vinna í þinginu sjálfu. Jeg segi þetta einnig gagnvart tillögu hv. 6. landsk. þm. (IHB), þótt hún sje að öllu leyti miklu sæmilegri en tillaga hv. flm. aðaltillögunnar og mjer reyndar skiljist, sem það sje helst smámunir og fyrirkomulagsatriði, sem á milli ber till. minnar og tillögu hv. 6. landsk. þm. (IHB).

Hv. flutningsmenn aðaltillögunnar þykjast vilja kynna sjer alla fjárhagsaðstöðu Íslandsbanka gagnvart ríkinu, og til þess hefir margt verið talið, svo sem málmforðinn og seðlaútgáfan.

Við höfum embættismenn til þess að rannsaka þetta, ekki einu sinni á ári, heldur mörgum sinnum á ári. Þessir embættismenn gefa stjórninni skýrslu um störf sín. Annar þeirra, er þetta verk hafa með höndum, er hæstv. forseti Nd., hinn er beint kosinn af stjórninni sem trúnaðarmaður hennar. Hvað á þessi nefnd að rannsaka annað en það, sem þessir menn hafa rannsakað alveg nýlega, og líklega gert miklu betur en þingnefnd mundi gera? Rannsóknarnefndin þarf þó líklega einhvern tíma til sinna rannsókna. Og hvað lengi á að stöðva bankann, meðan nefndin er að sínu veglega verki? Er ekki alt þetta til athlægis? Finst mönnum ekki, að þingið hafi eitthvað annað að gera þann stutta tíma, sem það á enn þá að hafa setu, en að vasast í slíku?

Þá hefir svo verið látið, sem skipa þurfi rannsóknarnefnd á bankann, af því landsmenn eigi þar nokkurt alment innlánsfje, og sjálfsagt líka fje á hlaupareikningi. Ætli eigendum þessa innlánsfjár væri það svo fjarska kærkomið, að fjandmenn bankans væru þar að snuðra í innlánseignum þeirra? Spyr sá, sem ekki veit.

Og um öll þessi atriði má segja það, að ef nú er ástæða til þess að skipa rannsóknarnefnd á bankann af þeim ástæðum, sem til hafa verið tíndar, þá verður alveg sama ástæðan til þess að skipa rannsóknarnefnd á bankann að ári og hitt árið og árið þar á eftir o. s. frv., og þá hefði verið ástæða til að skipa þessa rannsóknarnefnd á bankann í fyrra og hittifyrra, árið þar áður o. s. frv.

Ætla hv. Framsóknarmenn að skipa rannsóknarnefnd á bankann árlega, meðan hann fer með nokkra seðlaútgáfu eða þar er nokkur eyrir af innlánsfje?

Mikil yrði virðing þess þings í tölu löggjafarþinga veraldarinnar, sem hagaði sjer svo.

Þá er að minsta kosti eftir ein ástæðan, sem til hefir verið tínd fyrir þessari rannsókn, en hún er sú, að Landsbankinn hefir lagt inn á hlaupareikning sinn í Íslandsbanka um 3 miljónir króna. Mjer finst þetta væri ekki nein rannsókn á Íslandsbanka, heldur rannsókn á ráðstöfun Landsbankans. Jeg ætla ekki að fara ótilneyddur mikið út í þá ráðstöfun. Jeg tel, að Landsbankinn eigi að fá að vera óáreittur, ef stjórn hans gefur ekki tilefni til aðfinslu. Og jeg lít svo á, að þessi ráðstöfun bankans gefi ekki tilefni til aðfinslu. En eitt er óhætt að segja: Þessi ráðstöfun Landsbankans ber þess ljósastan vottinn, hve afarmikið traust hann hefir á Íslandsbanka, að Landsbankinn leggur inn hjá Íslandsbanka svona mikið fje tryggingarlaust og með lágri rentu. Skyldi nokkur verða til þess að trúa því, að hv. flm. þessara till. í báðum deildum sjeu færari um að dæma um ábyggileika Íslandsbanka en Landsbankinn

Og reyndar held jeg það sje fullsannað af rás viðburðanna, að Landsbankinn hafi ætíð borið gott traust til Íslandsbanka, jafnvel þá, þegar horfurnar voru miklu lakari fyrir bankann en nú, hvað svo sem kann að hafa verið látið í veðri vaka.

Það tókst hjer um árið, þegar báðir bankarnir höfðu tapað mestu, með fádæma ofsóknum, að koma af stað „run“ á Íslandsbanka. Fólkið streymdi að bankanum í hópum, til þess að taka bar út sparisjóðsfje, bæði sitt og annara. Peningarnir vora fluttir úr Íslandsbanka yfir í Landsbankann og lagðir þar inn. En hvað gerði Landsbankinn við peningana? Hann hefir víst ekki sjeð sjer meira en svo fært að torga þeim. Það er ekki á öllum tímum áhættulaust að lána út peninga. Landsbankinn flutti því peningana aftur í hundruðum þúsunda yfir í Íslandsbanka og lagði þá þar inn með lægri vöxtum en hann hafði greitt sjálfur fyrir þá. Ef þetta var ekki traustsyfirlýsing af hálfu Landsbankans til Íslandsbanka, þá veit jeg ekki, hvað á að kalla það.

Skyldu ekki allir menn í þessu landi, með heilbrigðu fjármálaviti, geta komið sjer saman um það, að allar þessar ástæður, sem fram eru bornar til rjettlætingar því, að skipa rannsóknarnefnd á bankann, sje ekki annað en tylliástæður, algerlega ómerkar og þýðingarlausar? Þær eru hvorki fluttar af umhyggju fyrir velferð bankans nje heldur velferð landsins.

Fyrir mínum augum eru ofsóknir gegn peningastofnunum landsins raunalegt, en þó hjákátlegt fyrirbrigði. það er svo sem engin hætta á því, að við þurfum að verða of mikið sammála, þótt það athæfi legðist niður. Vilji menn deila um Íslandsbanka, hví deila menn þá ekki um það, hvort hann eigi að vera ríkiseign eða einstakra manna eign? Jeg ætla ekki að fara að rökræða það, en þar er þó um sæmilegt mál að deila og umræðuefni, sem þjóðinni gæti orðið til skilningsauka og uppbyggingar, ef það væri rætt með rökum og sanngirni. En ádeilur þeirra manna, sem aldrei standa við neitt og lítið hafa annað að bjóða en öfgar og illkvitni verða bæði þeim og þjóðinni til skammar og þjóðinni til stórtjóns.

Það er aðalblað Framsóknarflokksins, sem mest hefir unnið að því úti um land að vekja vantraust og óvildarhug til Íslandsbanka. Alþýðublaðið er svo lítið keypt úti um land, að það kemur þar varla til greina, nema í stöku stað. Jeg veit, að þessi rógur var upphaflega hafinn án þess að meiri hluti Framsóknarflokksins ætti þar hlut að máli. En fyrir því eru þeir flokksmenn alls ekki saklausir um þetta mál. Þeir ljetu ginnast af voninni um það, að þarna væri komin upp í hendurnar á þeim einhver tálbeita fyrir kjósendurna. Þeir ljetu ginnast til þess að bera upp sjálfir og láta stuðningsmenn sína bera upp fyrir kjósendum tillögur, er lýstu vantrausti og fjandskaparhug til þessarar þýðingarmiklu peningastofnunar landsins. þeir ljetu glepjast til þess að meta meira væntanlega flokkshagsmuni sína en lánstraust og velferð landsins. Ef til vill gerðu þeir þetta ekki beinlínis vísvitandi. Og loks ljetu þeir ginnast til þess að bera þessa till. hjer upp í þinginu. Jeg veit, að þeir eru missekir, eins og t. d. kindurnar eru mislitar, sumar alveg svartar, sumar miklu hvítari á lagðinn. En viljandi eða óviljandi, vitandi eða óafvitandi hafa þeir verið að selja fjárhagslega hagsmuni landsins fyrir linsur flokkshagsmunanna. (Forseti hringir).

Og svo lýk jeg máli mínu með þeirri ósk, að allar peningastofnanir landsins megi blessast og blómgast.

*) Við fengum dálitla bendingu um þann róg í gær, er við hlustuðum á umræðurnar í hv. Nd. og flóttinn var að bresta þar í liðið. Einn flutningsmannanna lýsti því yfir, að hann hefði gerst flutningsmaður tillögunnar af því honum hefði verið sagt ósatt af sjálfum fjármálaráðherra.