21.04.1923
Efri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í D-deild Alþingistíðinda. (3143)

131. mál, tryggingar Íslandsbanka fyrir enska láninu

Flm. (Einar Árnason):

Jeg hefi hlustað undrandi á klukkutímaræðu hv. 2. þm. S.-M. (SHK). Undrandi vegna þess, að hún virtist hvergi koma nærri því, er jeg sagði í framsöguræðu minni. Ræða hv. þm. bar þess auðsæjan vott, að hún hafi verið samin áður en jeg hjelt mína ræðu og áður en hv. þm. hefir áttað sig á því, hvað hjer var um að vera. Eða þá að hann hefir ekkert heyrt af því, er jeg sagði: (SHK: Ræða frsm. var gagnslaus!). Hvort ræða mín hefir verið gagnslaus eða ekki, skiftir engu máli. Hv. þm. átti samt að halda sjer við efni till.

Enn fremur var jeg undrandi yfir því, að svo gamall þm., sem hv. 2. þm. S.-M. (SHK) er, skuli leyfa sjer að viðhafa slík ókvæðisorð og þau, er hann kom með í ræðu sinni, eða vilja vera þektur fyrir slíkt.

Jeg skal lesa upp fáein af þeim, er jeg skrifaði hjá mjer. (SHK: Þau koma í þingtíðindunum! — JJ: Þau koma þar þá bara tvisvar! — SHK: Ættu þau ekki að koma þar þrisvar? — JJ: Þau koma í þriðja sinni í sögunni!). — Hjer eru þá fáein málblóm, sem hann beindi að okkur tillögumönnum: „Árásir, flónska, ofsóknir, illkvitni, rógur, níðingsverk, glæpir, svívirðingar“. Þessi orð hefi jeg öll skrifað eftir honum. En þótt hann kalli okkur flutningsmenn flón og heimskingja og öðrum verri nöfnum, þá eru það engin rök. (SHK: Jeg ætlaði ekki heldur að gera það!). Ef það hefir ekki verið meining hv. þm. (SHK) að koma fram með rök í málinu, þá er ræða hans líka skiljanlegri.

Jeg þóttist hafa farið mjög gætilega af stað í þessu máli og ekki gefið tilefni til neinna stóryrða. Það er því hv. 2. þm. S.-M. (SHK), sem með þessari ræðu sinni hefir leitt asnann í herbúðirnar. Og jeg held, eins og jeg sagði áður, að ástæðan sje sú, að hv. þm. hafi samið ræðu sína of snemma, eða áður en hann hafi áttað sig á því, hvað hjer var á seiði.

Hv. þm. (SHK) sagði, að Framsóknarflokkurinn hefði haldið uppi látlausum ofsóknum gegn Íslandsbanka. Það þýðir víst ekki að deila við hv. þm. um þetta. Hann telur það látlausar ofsóknir, þótt ekki sje annað en að menn vilji vita, hvernig á því stendur, að bankinn getur ekki nema að litlu leyti fullnægt þörfum þjóðarinnar og þeim kröfum, sem gera verður til hans sem aðalseðlabanka landsins, til að halda uppi viðskiftum.

Hv. þm. (SHK) fór út í matið á Íslandsbanka fyrir ári síðan og gróða bankans síðastliðið ár. Þetta kom nú að vísu till. okkar ekkert við, nema þá að hv. þm. ætlist til, að þessar tölur, sem hann kom með, sjeu teknar fyrir góða og gilda vöru, til sönnunar því, að hjer þurfi engu að kippa í lag.

Þá sagði sami hv. þm. (SHK), að Framsóknarflokkurinn hefði komið óhug inn hjá mönnum úti um land, og að þeir hefðu æst kjósendur á þingmálafundum, vegna aðgerða stjórnar innar um setningu bankastjóra í Íslandsbanka, og látið menn samþykkja kröfu um rannsókn á bankanum. En þetta getur ekki verið rjett, tímans vegna, því þingmálafundir voru yfirleitt haldnir áður en ráðstöfun stjórnarinnar varð kunn um setningu bankastjóranna. (SHK: Það er alt rjett, sem jeg hefi sagt. Þm. hefir bara tekið skakt eftir!). Nei, þm. sagði þetta, en máske vill hann slá aftur af orðum sínum.

Þá talaði sami hv. þm. (SHK) um, að hjer ætti að skipa rannsóknarnefnd og stöðva ætti alla starfsemi bankans meðan rannsókn færi fram. Þetta er alveg út í hött talað. Engum tillögumanni hefir komið til hugar að stöðva bankann.

Þá talaði hv. þm. enn um það, að tíminn væri orðinn of stuttur fyrir þingnefnd til gagngerðrar rannsóknar.

Sama sagði jeg, og er till. einmitt miðuð við það, svo þetta er engin mótbára hjá hv. þm.

Þá talaði hv. þm. (SHK) um, að bankinn hefði grætt síðan í fyrra og yrði innan lítils tíma vel stæður. Þetta er gott. En geti bankinn ekki samt sem áður fullnægt þörfum þjóðarinnar og þeim kröfum, sem gera verður til bankans, þá gagnar lítið, þótt hann verði ríkur.

Þá sagði hv. þm. (SHK), að bankinn hefði nú miklu betri starfsaðstöðu en nýr banki myndi hafa. Ef svo er, þá tel jeg okkur litlu bættari, þótt stofnaður væri hjer nýr banki.

Hv. þm. sagði, að hagur bankans og þjóðarinnar færi saman. Það hafði jeg líka sagt á undan honum, svo það var alls ekki nein nýfundin hlið á málinu hjá hv. þm.

Hv. þm. sagði, að bankinn ætti rjett á því, að ekki væri altaf verið að áreita hann að óþörfu. En þessi eftirgrenslan er aðeins gerð með það fyrir augum að fá að vita, hvernig á því stendur, að hagur bankans er enn ekkert rýmri, þótt þrjú ár sjeu nú liðin síðan kreppan byrjaði og ríkið hafi styrkt hann framar getu á þessu árabili.

Þá sagði hv. þm. (SHK), að þetta yrði símað út og myndi veikja traust viðskiftamanna bankans erlendis. þessa hefir enn ekki orðið vart, og er þó liðinn hálfur mánuður síðan till. komu fram. En ef hv. þm. heldur, að einu ráðin sjeu þögn og að láta alt standa og sitja fast, þá þýðir víst ekki við hann að deila um það.

Enn talaði hv. þm. (SHK) um það, að rannsaka ætti innieignir einstakra manna í bankanum. Um það er ekki getið í till. og heldur ekki tilgangurinn. En tilgangur hv. þm. (SHK) með því að segja þetta og fullyrða er skiljanlegur.

Ræða hv. þm. (SHK) var á köflum aðeins dómur um persónur manna. Það er afaróviðeigandi að ráðast á heila flokka eða einstaka menn, þegar alvarleg mál eru á ferðinni. Jeg hefi ekki þá trú, að neinn vaxi af slíku.

Mjög margt var það í ræðu hv. þm. (SHK), sem nauðsynlegt hefði verið að athuga, og hefi jeg skrifað margt af því niður hjá mjer, en jeg vil ekki eyða tímanum í að fara nánar út í það nú. Mikið af því var fyrir utan efnið og sumt var gersamlega rangt, en að svo komnu skal jeg ekki um það deila.