23.04.1923
Efri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í D-deild Alþingistíðinda. (3147)

131. mál, tryggingar Íslandsbanka fyrir enska láninu

Jónas Jónsson (frh.):

Jeg hafði, er umr. um þetta mál var slitið síðast, lokið við að gefa yfirlit yfir vissa þætti í sögu Íslandsbanka um síðustu 20 ár. Jeg var kominn fram að vorinu 1920, þegar núverandi kreppa hófst.

Um leið og bankinn hætti að yfirfæra fyrir almenning kom upp talsverður uggur hjá kaupsýslumönnum, er áttu fje inni í bankanum, eða höfðu önnur skifti við bankann. Þá gerðist það, víst í fyrsta sinni í sögu bankans, að einn bankaráðsmaðurinn grípur á eftirtektarverðan hátt inn í eftirlitið með þessari stofnun, að jeg tel rjettast að fara um störf hans nokkrum orðum. Eins og mörgum er kunnugt, átti hv. þm. Dala. (BJ) sæti í bankaráðinu, og tekur vor ið 1920 að sjer að rannsaka hag og ástæður bankans og gefa skýrslu um þær rannsóknir. Það er ekki hægt að sjá, hvort hann hafi gert það að tilhlutun landsstjórnar eða bankans eða tekið það upp hjá sjálfum sjer, en að vísu gat þetta legið innan hans verksviðs sem bankaráðsmanns. Niðurstaða rannsóknarinnar var svo birt í blaði hjer í bænum, og gekk út á, að bankinn væri í prýðilegu ástandi. Þar eru viðhöfð sterk orð um, hversu tryggingarnar sjeu miklar, einkum þó tryggingar Fiskhringsins og stórkaupmanna. Yfirleitt eru þar stærstu orðin höfð um öryggi þeirra lána, er síðar hafa reynst hættulegust fjárhag bankans. Það sjest af skýrslunni, að honum hefir verið fenginn til aðstoðar starfsmaður í bankanum, sem farið hefir með hann í gegnum hinar og þessar bækur, og á því hafi dómurinn verið bygður, án þess að bankaráðsmaðurinn kynti sjer sjálfur tryggingarnar. Síðan fer bankaráðsmaðurinn til bankastjórnarinnar og spyr hana, hvernig stórlánin sjeu trygð, og hún lætur vel yfir. Síðan kemur út dómurinn um ástand bankans, á þá leið, að alt sje í ágætu lagi. Skýrslan hefir sjálfsagt haft áhrif í þá átt að styðja traustið á bankanum hjer innanlands, þegar hún kom út. Erlendis hjeldu menn áfram að byggja skoðun sína á vanmætti bankans til að yfirfæra. En er frá leið og upp komst, að skýrslan var tóm endileysa, gerði hún bankanum verulegan álitshnekki. Það hafa verið skiftar skoðanir um það, hvort rannsóknin hafi verið svo grunnfær eða skýrslan gerð þannig úr garði með vilja. Jeg hallast að þeirri skoðun, að hv. þm. Dala. (BJ) hafi samið skýrsluna í góðri trú. Að hóflaust sjálfsálit hans, samfara vöntun á þeirri greind og þekkingu, sem að gagni mátti koma í þessu máli, hafi leitt hann út í ófæruna.

það var allra hluta vegna óheppilegt fyrir bankann, að þessi maður skyldi vera fenginn til að gera skýrsluna. Maður, sem var þá á 10–15 þús. kr. launum fyrir að gera ekki neitt. Þar að auki tók hann við sjerstakri borgun fyrir þetta ómak, 4–6 þús. kr. — Hæstv. landsstjórn hefir ekki enn viljað skýra þinginu opinberlega frá, hvor talan er rjettari. — Skýrslan er að mörgu leyti einstök í sinni röð. Hún er vitlausasta endurskoðun, sem sögur fara af hjer á landi. Engin endurskoðun hefir verið borguð með jafnmiklu fje, miðað við vinnuna. Og þjóðin má líklega að talsverðu leyti kenna skýrslunni um, hversu álappalega hefir tekist með ríkishjálpina til bankans. Eftir að skýrslan kom út byrjaði hrunið fyrir alvöru. þessir ríku menn, sem skýrslan talaði svo fleðulega um, stóðu á fallanda fæti og fjárhagur þeirra var hinn hörmulegasti það hafði verið myndað fjelag, svo nefndur Fiskhringur, sem keypt hafði mestan hluta af íslenskum fiski það ár. Enn fremur hafði hringurinn gert ráðstafanir til að láta smíða 2 skip í Englandi, sem nota skyldi til vöruflutninga milli Íslands og Suðurlanda. Nú lækkaði verðið á fiskinum óðum og tapið varð gífurlegt, svo að þegar til skjalanna átti að grípa, varð bankinn að gefa hringnum upp mörg hundruð þúsundir, ef ekki miljónir króna. Það er ekki ljóst, hvað tapið hefir numið miklu, bæði af hinni illu sölu fiskjarins og af því, að Fiskhringurinn hafði orðið að sleppa skipunum, en tapið á skipunum einum saman er áætlað 11/2 miljón króna.

Þá tapaði bankinn stórfje á mörgum nýjum togurum, sem þá voru keyptir og kostuðu á þeim tímum meira en helmingi meira en nú, svo að tap eigenda og lánardrottins varð óskaplegt. Loks varð bankinn í tvö haust fyrir miklum skelli út af síldarsölunni. Var tap landsins á henni áætlað alls um 10 miljónir króna, og af því lenti allmikill skerfur á Íslandsbanka. Þessi tvö töp, fyrir utan mörg önnur, stöfuðu algerlega af verslunarbralli kaupmanna í Reykjavík, sem fengu fjeð út úr bankanum eftirlitslítið, gegn tryggingu í sjálfum fyrirtækjunum, og þegar þau mishepnuðust, kom skellurinn á bankann. En hluthafarnir hafa síðan reynt að koma tapinu yfir á þjóðina.

Ekki verður sjeð, að formaður bankaráðsins, þáverandi forsætisráðherra, hafi aðhafst nokkum skapaðan hlut. Í stað þess að gera ráðstafanir til þess að bjarga landinu og bankanum, var haldið undan. Fyrst var hætt að yfirfæra, því næst hætt að innleysa seðlana erlendis. Jeg var þá staddur í Kaupmannahöfn, þegar Tofte bankastjóri bannaði viðskiftabanka sínum þar að innleysa seðlana. Varð jeg var við, að miklum óhug sló á menn, og ótrúin á fjárhag landsins margfaldaðist. Um þetta leyti var Landsbankinn í samningaumleitunum við enskan banka um viðskifti, en þeir samningar strönduðu, er bankinn heyrði, að íslensku seðlarnir væru óinnleysanlegir erlendis. Enn fremur kom fyrir þá um sumarið leiðinlegt atvik, sem enn hefir ekki verið fyllilega skýrt, en skýrist ef til vill hjer við umræðurnar í dag. Það kom brjef til kaupsýslumanna hjer, frá erlendum viðskiftamönnum, þar sem spurst var fyrir um það, hvernig stæði á því, að stjórnin bannaði Íslandsbanka að greiða skuldir sínar erlendis. Eftir því sem heyrst hefir, báru þessi brjef bankastjórn Íslandsbanka fyrir þessu. Sje það rjett, verður þessi syndin ekki ljett á metunum, þegar gerður verður upp skuldareikningur hluthafanna við landið. Væri hörmulegt til þess að vita, ef forráðamenn stofnunar, sem notið hefir slíkra vildarkjara hjer á landi, hefði skrökvað upp á landsstjórnina, eins og illa vaninn götudrengur. En nærri má geta, hver áhrif þetta hefir haft á álit landsins, er erlendir kaupsýslumenn fóru að trúa þessu.

Haustið 1920 varð ástandið verra og verra og álitið tæpara og tæpara út á við. Stafaði það af þessum mörgu glappaskotum, sem nú hafa verið rakin, þar sem stjórn Íslandsbanka og stjórn landsins áttu sameiginlega sök, meir sökum fávisku og aðgerðaleysis heldur en af öðrum ástæðum. því hefir verið haldið fram í Nd., að fjártap Íslandsbanka skaði ekki landið svo mikið, því að mestur hluti fjárins hafi tapast innanlands. En þetta er hinn mesti misskilningur. Mjög mikið af fjenu er tapað úr landi. Má þar til nefna togarakaupin. Togaramir voru keyptir 3–400 þús. kr. of dýrt. þetta fje, ef það verður nokkurn tíma borgað, er vitanlega tapað út úr landinu. Sama er að segja um skipatap Fiskhringsins, tap á síld og fiski, þar sem mikill hluti framleiðslukostnaðar var greiddur erlendis, þá hefir því verið haldið fram, að verkalýðurinn hafi grætt á hinu háa kaupi. Því er fyrst að svara, að bankinn tapaði fjenu engu að síður og að tap og skuldabasl bankans hefir valdið gengishruninu, lánstraustsspjöllum og almennri óáran í þjóðlífinu. Í öðru lagi er það vafasöm blessun, að kaup sje hærra heldur en framleiðslan ber á hverjum tíma. Í sveitunum, þar sem kaupfjelögin og Sambandið selja íslensku vöruna á ábyrgð hinna starfandi manna, þar helst jafnvægið milli söluverðs og framleiðslukostnaðar. Þess vegna eru samvinnufjelögin tryggustu skiftavinir bankanna. Og hvað viðvíkur sjálfum háu verkalaununum, sem borguð voru 1920 og 1921 við útgerðina, þá hafa þau á vissum sviðum haft beinar skuggahliðar, aukið óhóf og eyðslu, a. m. k. hjá flestöllu einhleypu fólki.

Um haustið 1920 kom grein í blaði einu hjer í Reykjavík, sem mun hafa komið óþægilega við kaun hv. 2. þm. S.-M. (SHK). Hún mun hafa verið sá ásteytingarsteinn, sem olli því, að hann talaði af sjer í gær. Þessi grein var einföld skýring á því, af hverju sjúkleikinn í bankanum stafaði, sem sje af klofningi milli hagsmuna hluthafanna og hagsmuna þjóðarinnar. Þetta kom strax fram, er rætt var um stofnun bankans. þess vegna stóðu flestir þjóðhollir menn á móti bankastofnuninni. Þeir skildu, að þegar bankinn var rekinn með hagsmuni hluthafanna fyrir augum, sem að mestu leyti voru erlendir menn, þá gat augnablikshagnaður hluthafanna orðið stórtjón fyrir þjóðina. En sumir forvígismenn bankans töluðu þá strax eins og þeir ættu eiginhagsmuna að gæta móti hagsmunum landsins. Byrjun meinsemdarinnar lá í hinu hættulega fyrirkomulagi á skipulagi bankans. Það var nauðsynlegt að skilja upphaf og eðli meinsemdarinnar, enda er öll lækning óhugsanleg án þess. En síðan Tíminn skýrði hagsmunaklofning hluthafanna og íslenska þjóðfjelagsins hefir málið legið ljóst fyrir öllum hugsandi mönnum í landinu. Eftir að hluthafarnir höfðu sett bankann í strand 1920 og margbrotið rjett sinn bæði gagnvart landsstjórninni og viðskiftamönnum sínum átti vilji þeirra að lúta í lægra haldi fyrir hagsmunum þjóðfjelagsins. En fyrir ofsa og frekju hluthafanna og undirlægjuskap meiri hluta þings og stjórnar sitja hluthafarnir. enn sem fyr í hásætinu í fjármálum landsins. Jeg minnist á þessa blaðakrítik hjer af því, að hinar einföldu og óhrekjanlegu sannanir, sem þar komu fram, hafa valdið nokkru um þann taumlausa geðofsa, er kom fram í ræðu hv. 2. þm. S.-M. (SHK).

Á. útmánuðum 1921 kemur Alþingi saman. Þá fær þáverandi stjórn heimild til að taka lán erlendis til þess að hjálpa landinu og ef til vill leggja eitthvað í bankann sem lán eða hlutafje. Stjórninni gekk nú erfiðlega að fá lánið. Það fekst ekki í Danmörku af skiljanlegum ástæðum. Orðstír landsins var lítill, og Íslandsbanki nokkurskonar sendiherra þess út á við. Sumarið 1921 tókst stjórninni að fá 10 miljón króna lán í Englandi. Þá er maður kominn að þessu nafntogaða enska láni, sem óhjákvæmilegt er að minnast á í þessu sambandi, því að mest af því fór til Íslandsbanka, til að bjarga honum úr kröggum þeim, sem stjórnleysi bankastjórnarinnar hafði skapað honum. Þeim, sem kynni að þykja þetta ofmælt, má benda á það, að hinn bankinn, sem skifti við sömu aðilja, útvegsmenn og kaupmenn, auk þeirra litlu skifta, sem bændur hafa þar, gat altaf starfað, af því að forráðamenn hans skildu, hvert stefndi. Landsbankinn var sú afltaug, sem þjóðin lifði á yfir erfiðasta tímann. Í sambandi við ástand Íslandsbanka er erfitt að láta hjá líða að fara fáeinum orðum um enska lánið, en stjórnin hefir engar skýrslur um það gefið. Það má slá því föstu, að það hafi fyrst og fremst verið tekið fyrir Íslandsbanka, því næst til almennrar eyðslu fyrir þáverandi landsstjórn. Minstur parturinn fór til Landsbankans. Það voru býsna margir gallar á láni þessu, eins og þjóðkunnugt er orðið. Fyrst og fremst fóru 100 þús. kr. í milliliði. Þetta er óþægileg hnot að brjóta fyrir þá, sem telja mikið gagn að sendiherranum, því að auðvitað var sjálfsagt að láta hann annast um lántökuna, ef fjármálaráðherrann, hv. 1. þm. Skagf. (MG), kendi sig ekki mann til að koma þar fram fyrir landsins hönd. Hr. Sveinn Björnsson tekur að vísu lánið og skrifar undir það, en þó þurfum við að borga 100 þús. krónur til milliliða. Það er sagt, að hr. Páll Torfason hafi verið að skrifa hingað heim og beiðst hjálpar að ná því inn, sem hann telur sig eiga inni fyrir aðstoð við enska lánið. Jeg veit ekki, hvort 19 þetta er satt, en það sýnir, að stjórnin hefir þurft hjálp frá milliliðum, og það fleiri en einum. Og auk þess lítur út fyrir, að samningar við þessa aðstoðarmenn hafi verið loðnir, úr því að 100 þús. kr. nægðu ekki. Til samanburðar vil jeg geta þess, að þegar Sambandið semur um lán erlendis vegna kaupfjelaganna, þá framkvæma umboðsmenn þess þar það og fá ekki eyri sjerstaklega fyrir og nota enga milliliði. Það er partur úr daglegri vinnu þeirra. Annar galli enska lánsins var, að af því var ekki útborgað nema 85%. Kjörin eru þau, að þó að vextirnir sjeu 7%, þá er bannað að endurborga lánið fyrstu 10 árin, en ef skuldin er þá borguð upp, verður að borga hver 100 sterlingspund með 103. Þá er þriðja atriðið. Íslandi er ekki trúað betur en svo, að afborgun og rentur verður að senda til London 2 mánuðum fyrir gjalddaga. þetta ber vitni um megnasta vantraust á fjárreiðum landsins og skilsemi landsstjórnarinnar. þessir peningar, sem liggja í Englandi 2 mánuði á undan greiðsludegi, eru á afarlágum vöxtum. Þá er beiskasta pillan eftir, en það er bandið á tolltekjunum. Jeg verð að minnast á þetta atriði, úr því að lánið var tekið fyrir Íslandsbanka, til þess að sýna, hve gífurlegar fórnir landið hefir lagt á sig fyrir þennan banka. Jeg skal leyfa mjer að lesa upp úr enska textanum þær línur þessu viðvíkjandi, sem mest hefir orkað tvímælis um:

„The said loan, both as regards principal and interest, shall be the direct obligation of the Kingdom of Iceland, and shall further be secured by a specific charge on the customs Receipts, which the Government declare are at date hereof uncharged. No charge on the customs Receipts shall be given whilst any bonds of this loan are outstanding, ranking either ahead of, or pari passa with this charge“.

Skilmálamir eru þá svona. Ísland tekur þetta lán, og ber fulla ábyrgð bæði á höfuðstól og vöxtum. Enn fremur skal lánið gert öruggara með sjerstakri tryggingu í tolltekjum landsins. íslenska stjórnin (þ. e. umboðsmaður hennar, sendiherrann) lýsir yfir, að tolltekjurnar sjeu ekki veðbundnar, þegar samningurinn er gerður. Að lokum lofar íslenska stjórnin, að tolltekjumar skuli ekki vera veðsettar neinum öðrum (nema þá með 2. og 3. veðrjetti!) meðan nokkurt af skuldabrjefum enska lánsins eru óinnleyst.

Þannig hefir fyrverandi landsstjórn tekist að ganga frá fjármálum landsins. Hugsjón hv. 2. þm. G.-K. (BK), sem kom fram í sambandi við stofnun Íslandsbanka 1901, að til mála gæti komið að veðsetja tolltekjumar, var nú orðin að veruleika.

Að festa þannig tekjur landsins er ráð, sem ræfilsþjóðir eru stundum neyddar að grípa til, svo sem Tyrkir og Kínverjar, og er í þessu hin mesta auðmýking.

Enn er eitt dálítið einkennilegt við skilmálana. Ef lánveitendurnir vilja skifta sjer eitthvað af okkur, þá snúa þeir sjer ekki til landsstjórnarinnar, heldur til Landsbankans. Landsstjórnin er ekki talin hæfur aðili í þessu máli, og má segja, að Bretinn hafi fljótt fundið, við hverja hann átti. Þessir menn hafa vitað, að Landsbankinn var aðaltraust landsins með skilagreiðslur erlendis. En til hvers skyldu þessir 2 mánuðir vera settir? Jeg geri ráð fyrir, að lánveitendurnir hafi hugsað sem svo: Ef Íslendingar standa ekki í skilum og senda peningana ekki 2 mánuðum fyrir gjalddaga, þá getum við gert okkar ráðstafanir. En hvaða ráðstafanir? Þeir gætu sent mann hingað til þess að taka við tolltekjunum, um leið og þær innborgast hjer í Reykjavík. Þessi umboðsmaður yrði eftirlitsmaður hinnar ómyndugu, skuldaflæktu landsstjórnar. Hann mundi heimta, að hver eyrir af tollunum gengi til Landsbankans og þaðan upp í skuldina. Þetta ástand er ekki alveg hliðstætt skuldabasli Tyrkja og Kínverja. En það er eingöngu forms en ekki efnismunur.

Þannig var þá enska lánið fengið.

Jeg kem þá að hinu nafntogaða mati á Íslandsbanka, sem núverandi og fyrverandi landsstjórn telur einskonar goðasvar og innibyrgja í sjer þá vitneskju um bankann, sem þjóðin hafi gott af að fá.

Danir fóru samt ólíkt að, þegar þeir hófu rannsókn í Landmandsbankanum. Þar datt engum í hug að skipa rannsóknarnefndina að 2/5 hlutum trúnaðarmönnum bankans sjálfs. Enda mun það hvergi tíðkast í víðri veröld, þegar lánardrottinn þarf að rannsaka hag skuldunauts, eins og hjer stóð á, að blönduð nefnd sje skipuð til þess. Í Danmörku áttu hluthafar Landmandsbankans engan þátt eða trúnaðarmann í rannsóknarnefndinni, er haft gæti áhrif á virðingu hlutabrjefanna. Þar var því líka strax ákveðið, að hlutabrjefin væru hið fyrsta, sem ganga ætti upp í skuldir bankans, og að hluthafarnir töpuðu alveg andvirði þeirra. Hjer er þessu öðruvísi farið. Nefndin var skipuð þannig, að hluthafar völdu 2 af 5 nefndarmönnum, þingið 2 og hæstirjettur 1. Í augum barna og fáfræðinga leit þetta mjög sakleysislega út, að hafa oddamann, sem hæstirjettur kaus. En sá styrkur, sem það var fyrir bankann að hafa 2 menn sína í nefndinni, auk áhrifa þeirra, sem hluthafarnir virðast hafa á suma menn í þinginu, og þar með á dóma þingsins, verður naumast of hátt metinn.

Þegar kom til að kjósa þessa tvo menn í nefndina, neitaði meiri hluti þingmanna að taka þátt í kosningunni. Sá nefndarmanna, sem fleiri atkvæði fekk, var svo kosinn með eitthvað 17 atkvæðum.

Mjer dettur auðvitað ekki í hug að segja, að meiri hlutinn hafi ekki verið lagalega bundinn við þessa kosningu, en aðferð meiri hlutans sýnir geig og ugg margra þingmanna við allan þennan málatilbúnað.

Annar þessara manna, sem kosinn var, var 2. þm. G.-K. (BK), sem hafði verið einn af hvatamönnum þess, að bankinn var stofnaður. Og þótt nokkur kuldi væri milli hans og Íslandsbanka meðan hann var bankastjóri Landsbankans, þá hafði hann þó nokkurskonar guðföðuraðstöðu til þessarar stofnunar. Jeg segi ekki, að það hafi haft nein áhrif við rannsóknina, en þetta er staðreynd.

Hinn maðurinn var Þorsteinn Þorsteinsson hagstofustjóri. Þótt sá maður sje að allra dómi dugandi borgari, þá var þó aðstaða hans ekki sem ákjósanlegust, þar sem hann var mjög venslaður sumum þeim, sem einna mest skulduðu í bankanum. Þetta sýnir, hve erfitt er í okkar litla þjóðfjelagi að fá algerlega óháða menn til trúnaðarstarfa eins og þeirra, sem hjer var um að ræða. Jeg er ekki að segja, að þessir menn hafi ekki viljað vinna starf sitt trúlega. Aðeins, að þessi aðstaða skapar ekki nægilega tiltrú.

Jeg skal ekki fara mikið út í matið sjálft. Niðurstaðan varð sú, að hlutabrjefin væru enn nálega í fullvirði. Að vísu væri um verulegt tap að ræða, en varasjóður myndi duga til að jafna það að mestu. Nefndin virti hlutabrjefin á 91%, en einn bankastjórinn, Eggert Claessen, var óánægður með þá virðingu, vildi láta landið, ef það keypti þau, kaupa þau yfir nafnverð.

En það hefir fallið annar dómur um störf nefndarinnar. Erlendis hafa brjefin mjög fallið síðan matið var framkvæmt. þau munu jafnvel hafa komist niður í 38%. Sá dómur er bygður á kauphallarverði í Danmörku, bygður á dómi þeirra manna erlendis, er mest afskifti hafa af Íslandsbanka. Hann er því þungur dómur á rannsóknarnefndina. það er hæpið, þegar svona stendur á, að nota allra svæsnustu skammaryrði málsins um þá menn, er ekki að öllu leyti vilja ganga inn á dóm nefndarinnar, sem hefir þar að auki ekki á minsta hátt rökstutt þetta mat opinberlega. Og skrítin tilviljun er það, að nálega sömu menn, sem kusu hagstofustjórann og þm. G.-K. (BK) til þessarar virðingargerðar, lögðu á flótta út af lokaða fundinum í vetur, þegar farið var fram á heimulega athugun á Íslandsbanka. Þeir vildu þá ekki einu sinni eiga tal við þá, sem vildu á friðsamlegan hátt kynna sjer tryggingar þær, er Íslandsbanki hafði gefið fyrir því fje, er hann hafði fengið af enska láninu.

Um þetta leyti höfðu bankastjórar Íslandsbanka mjög farið að týna tölunni. Einn hafði fengið lausn, vegna heilsubilunar, og annar lengi legið veikur. Bankaráðið er svo skipað, að í því eru 7 menn. Eru 3 kosnir af þingi, 3 af hluthöfum og forsætisráðherra Íslands sá 7. Ísland hefir því jafnan meiri hluta í bankaráðinu, auk þess sem forsætisráðherra hefir venjulega umboð fyrir erlendu hluthafana. Val bankastjóranna ætti því að vera á ábyrgð íslenskra manna, og gæti verið það. En í framkvæmdinni mun það hafa orðið svo, að minni hlutinn, útlendingarnir, hafa stungið forsætisráðherranum og hans fríða íslenska fylgdarliði í vasann. Þegar nú stjórn Jóns Magnússonar og hluthafarnir fóru að svipast um eftir manni í stað þess, sem burtu fór, þá völdu þeir málfærslumann einn hjer í bænum, sem verið hafði lögfræðilegur ráðunautur mjög margra af stærstu útgerðar- og kaupsýslufyrirtækjunum hjer í bænum. Og mörg af þeim voru þá orðin höfuðskuldunautar Íslandsbanka.

Jeg vil nú á engan hátt segja það, að bankastjórinn, sem skipaður var af hluthöfunum, sje ekki duglegur og gegn maður, eða að það hafi ekki að ýmsu leyti verið ávinningur fyrir bankann að fá hann, einkum ef miðað er við dáðleysi fyrirrennaranna. Jeg álít meira að segja, að bankinn myndi hafa tapað minna 1919–1920, ef hr. Claessen hefði þá verið einn í stjórn hans. En að hann er skipaður af hluthöfum, og telur sig því fyrst og fremst eiga að gæta hagsmuna þeirra, kom ljóst fram á fundi, er 1. þm. Rang. (GunnS) hafði boðað til hjer í bænum í vetur og ræddi um bankamál. Eggert Claessen lýsti því yfir á þeim fundi, að gengismálið kæmi Íslandsbanka ekkert við. Ef rjetta ætti við gengið, þá ætti landið að gera það. Þetta er auðvitað rjett frá lagalegu sjónarmiði. Íslandsbanki er gróðafjelag, eign erlendra manna. Bankastjóri, sem hluthafarnir skipa með aðstoð vina sinna í landsstjórninni, skoðar sig fyrst og fremst sem fulltrúa hluthafanna og telur sig eiga að gæta rjettar þeirra. En þetta kemur þjóðinni við, sem líka á sinna hagsmuna að gæta í bankanum, vegna þess fjár og þeirra hlunninda, sem hún hefir látið bankanum í tje. En hjer kemur til greina vanræksla frá hálfu stjórnarinnar. Hluthafar bankans hafa einn mann til að gæta sinna rjettinda, en landið á að hafa tvo til að gæta sinna. Og nú kemur að því, hversu landsstjórnin hefir þar gætt skyldu sinnar. Fyrverandi landsstjórn hafði látið bankanum í tje meiri hluta enska lánsins, honum til hjálpar, en framfylgdi ekki þeirri heimild, er hún hafði, til að skipa tvo bankastjóra í hann, til að gæta hagsmuna landsins. Danski bankastjórinn, Tofte, mun því hafa ráðið mestu um, hvernig þessu láni var ráðstafað. Þetta var hvorki tilgangur þingsins nje í samræmi við erlenda venju, þar sem líkt stendur á.

Í sambandi við þessa ráðningu hr. Claessens hefir komið fram megn eyðsla á fje bankans, og þar með þjóðarinnar Umræddur bankastjóri, sem sagt er að hafi samning til 10 ára, mun hafa verið ráðinn þangað með 40 þúsund kr. árslaunum, eða með hæstu launum, sem þekst hafa nokkrum Íslendingi til handa fyr eða síðar. Nú mun það verða sagt, að bankinn borgi þessi laun, og það komi því þjóðinni ekki við. En þetta er ekki rjett, því það er þjóðin, sem borgar þau með háu vöxtunum.

Þá hefir og annar íslenski bankastjórinn, sem hætti störfum, fengið há eftirlaun, líklega, eftir því sem mælt er, ein 13–14 þús. kr. á ári undanfarin ár, að meðtalinni dýrtíðaruppbót. Að ákveða eftirlaunin svona há er hvorki rjett nje eðlilegt. Þessi bankastjóri ber að sínu leyti ábyrgð á tapi bankans, og er þar að auki ríkur maður, svo ekki er um þurftarlaun að ræða. Þetta er því eyðsla, sem seint verður álitin rjettmæt, og er ekkert hliðstætt fordæmi til um eftirlaun hjer á landi. Jeg þarf naumast að taka það fram, að þegar bankar tapa erlendis fyrir ógætilega stjórn og bankastjórarnir eru látnir fara frá, þá eru færð niður laun starfsmanna svo sem unt er og sparað sem verða má. Þessi eyðslusemi í Íslandsbanka er því einstök og óverjandi.

Þá kem jeg að því, er hluthafarnir fengu hluta af enska láninu. Í því máli er það aðalatriði, hverja tryggingu fyrv. fjármálaráðherra (MG) fekk. Ef til vill hefir einhverjum þingnefndum verið skýrt frá því, en þjóðin veit áreiðanlega ekkert um það. — Það hefir nú samt einhvern veginn lekið út, að tryggingin muni hafa verið 4–5 miljónir króna, mest í víxlum reykvískra kaupmanna og útgerðarmanna, eða máske alt. þetta er mjög undarlegt. Væri gott, að hv. 4. landsk. þm. (JM) gæti gefið upplýsingar um það, hvert nafnverð þessarar tryggingar var, einkum um það, hvort nafnverð veðsins hefir verið lægra en lánsupphæðin. Þetta er merkileg ráðstöfun, því venjulega er ekki lánað út á meira en mest 3/5 virðingarverðs tryggingar, jafnvel þótt um fasteignaveð sje að ræða. En því miður leikur sterkur grunur á, að í tíð fyrverandi stjórnar hafi nafnverð víxlaveðsins verið mun lægra en upphæð lánsins, ef miðað er við núverandi gengi krónunnar gagnvart enskri mynt. Að hafa veðið ófullnægjandi, var bæði rangt og óþarft, því auðvitað átti bankinn miklu meira í víxlum, og hefði þá getað látið þá sem tryggingu.

Þegar þing kom saman 1922, mun hafa verið aðalástæðan fyrir því, að stjórnin fjell, vanræksla hennar og axarsköft í aðgerðum viðvíkjandi Íslandsbanka. Þingið mun hafa litið svo á, að þetta mál væri ekki í góðum höndum hjá fyrverandi stjórn. Hún hafði þótt lin- og aðgerðalítil. Enn fremur eyðslusöm, hvað launin snerti. þingmenn óttuðust auðvitað mjög hina hóflausu eyðslu á landsfje, sem stjórnin var sek um. Eyðslan var alstaðar höfuðeinkennið, hvort sem litið var á launin, eftirlaunin eða þóknun til milliliða (100 þús. kr. við enska lánið).

Þetta gegndarleysi í launagreiðslum og eftirlaunum vakti líka almenna gremju, t. d. hjá ýmsum starfsmönnum landsins. Sýslumenn, sem lengi höfðu þjónað, fengu ekki meira en 1/5 þeirrar eftirlaunaupphæðar, sem bankastjórinn fekk, sem bar þó þunga ábyrgð á tapi bankans.

Stjórnin hafði, eins og áður er sagt, þótt aðgerðalítil og eyðslusöm. Því fjell hún. En ný stjórn var skipuð í þeirri von, að hún rjetti hlut þjóðarinnar gagnvart hluthöfunum.

Aðalhlutverk nýja bankastjórans, Eggerts Claessens, fyrstu mánuðina var að moka þetta Ágíasarfjós bankans, og má telja það honum til lofs. Hann sýndi rögg af sjer við að rannsaka, hverjir ekki gætu borgað, og gefa þeim upp, og urðu þeir býsna margir og upphæðirnar háar. Þessi allsherjarhreingerning mun hafa verið nauðsynleg, en þó hygg jeg, að það hafi gert aðstöðu bankans erfiðari í bili. Það gat líka orkað nokkuð tvímælis, hverjum var gefið upp og hvernig átti að semja. Eggert Claessen hafði, eins og fyr er sagt, áður verið lögráðunautur ýmsra útgerðarfjelaga hjer. Gat það orðið til þess, að menn álitu, að honum væri ekki fært að dæma jafnóhlutdrægt um aðstöðu þessara skuldunauta bankans. Sýnir þetta aftur, hve afarerfitt er að fá algerlega óháða menn hjer á landi til slíkra trúnaðarstarfa, þótt dugandi sjeu að öðru leyti. það er því ekki hægt að áfella þá menn, sem vorkenna þessum bankastjóra að hafa orðið að gefa upp miljónir króna af þessum töpuðu skuldum, og sumt til fyrirtækja, sem hann hafði áður átt að vera verndarmaður fyrir. Til dæmis um þessa örðugleika má nefna alþektan kaupsýslumann í Hafnarfirði, sem gefið hefir verið eftir, í Fiskhringnum. Hann hafði hælt sjer af því 1920, í siglingu, að hann ætti 10 börn og gæti látið hvert þeirra fá 100 þús. kr. Hefir þessi maður borgað aleigu sína til bankans upp í tap hringsins? Eða hefir honum verið gefið eftir meira eða minna af eignum sínum? Þetta veit þjóðin ekki, en verður að vita fyr eða síðar. Því að almenningur getur ekki tekið með þökkum að borga skuldatap fyrir auðmenn landsins. Og það væri langbest fyrir alla hlutaðeigendur, að ekki orkaði tvímælis um neinar staðreyndir í slíku máli.

Enska lánið dugði ekki til að rjetta bankann við. En þá var sagt, að „kritikin“ hjer heima hafi verið þess valdandi, en hv. 2. þm. S.-M. (SHK) ætti að geta skilið, að bankanum myndi veitast erfitt að ná sjer upp, og það voru fyrst og fremst hans eigin gerðir, sem voru þess valdandi. Það er barnalegt og skoplegt, að hjer megi ekki tala um misfellur bankanna; það er þó alstaðar gert erlendis, og ekki minna en hjer. Þessir hv. þm. ættu að lesa dönsk og norsk blöð um þessar mundir. Eftir þessa hreingerningu í bankanum, að gefa nokkrum af helstu kaupmönnum og útgerðarmönnum í Reykjavík upp 5–6 miljónir, sem voru þá þegar tapaðar, fór þessi bankastjóri, Eggert Claessen, í ferðalög um mörg hin næstu lönd, til að fá peninga að láni handa stofnuninni. Eftir heimkomuna var fullyrt í Morgunblaðinu, að nú væru nógir peningar til að bæta úr þörfum bankans; fjórar miljónir hefðu fengist að láni. En í raun og veru fekk hann ekki svo mikið, því að töluverður partur, alt að því helmingur upphæðarinnar, var aðeins framlenging eldri skuldar við Prívatbankann í Kaupmannahöfn.

Svo kom atvik, sem hv. 2. þm. S.-M. (SHK) ber ábyrgð á, að jeg neyðist til að minnast á. 2. desember í fyrra gat bankinn ekki staðið í skilum með ávísun, sem var ekki 100 þús. kr., og mun hafa komið frá landsstjórninni. Þetta er skiljanlegt, þegar þess er gætt, hve bankinn hefir haft lítið í sjóði við sum hin seinni opinberu reikningsskil, og sýnir þetta, hversu erfitt bankinn á með að annast stórar útborganir, sem vitanlega altaf geta komið fyrir.

Eins og jeg hefi fyr tekið fram, urðu stjórnarskiftin í fyrra fyrst og fremst með tilliti til Íslandsbanka. Og af því að Framsóknarflokkurinn var aðalþátturinn í stuðningsliði núverandi landsstjórnar, var ekki óeðlilegt, að hann óskaði eftir, að einhverju verulegu yrði breytt til batnaðar frá ráðlagi fráfarandi stjórnar, sem virtist meira setja fyrir sig hluthafahagsmunina en hagsmuni þjóðarinnar. Það er óhætt að segja, að eftir að þingi sleit í fyrra ljet miðstjóra flokksins ekkert tækifæri ónotað til þess að minna stjórnina á þá sjálfsögðu skyldu að framfylgja þingviljanum. Stjórnin tók þessu líklega og mun hafa gert einhverjar bráðabirgðaráðstafanir í þá átt. En þó var ekki laust við tvískifting í stjórninni, eins og síðar varð fullkunnugt. (Forsrh. SE: öll stjórnin var sammála). Jeg skal víkja að því góða samlyndi síðar. Á miðju sumri gerðist sú formlega breyting viðvíkjandi bankanum, að forsætisráðherra ákvað að breyta verkaskiftingunni meðal ráðherranna þannig, að forsætisráðherra skyldi eftirleiðis skrifa skipunarbrjef bankastjóra, þar á meðal vitanlega hinna stjórnskipuðu bankastjóra við Íslandsbanka. Forsætisráðherra hrifsaði þannig undir sig veitingarvaldið yfir bönkunum, með konunglegri auglýsingu, úr höndum stjettarbróður síns, fjármálaráðherrans. þessi atburður hefir verið kallaður valdarán. Forsætisráðherra ákvað þessa breytingu að fjelaga sínum fjarverandi og þvert ofan í óskrifaða samninga við Framsóknarflokkinn, sem hafði gert það að skilyrði fyrir stuðningi ^ið stjórnarmyndunina, að fjármálaráðherrann færi með bankamálin og að verkaskifting milli deildanna hjeldist óbreytt. Þessi atburður breytti þungamiðjunni í stjórnmálunum um stund. Af einhverjum leyndardómsfullum ástæðum flutti forsætisráðherra hug og hjarta yfir á skákina til hluthafanna, eins og gerðir hans sýna síðan í máli þessu. Með þessu hvarf ábyrgð bankamálanna yfir á forsætisráðherra. Áður höfðu tveir ráðherrar haft ábyrgðina saman, annar á því, að losa ekki um stöðurnar í bankanum, en hinn á því, að vanrækja að skipa í hinar lausu stöður. Svo líður fram á haustið, en þá fer forsætisráðherra að hugsa sjer til hreyfings að framfylgja bankalögunum og losa stöður í bankanum. Mönnum er kunnugt, að það haust voru fleiri fundir í bankaráði Íslandsbanka en öll undanfarin ár, og voru aðallega tvö umræðuefni á dagskrá. Annað var vaxtalækkunin. Landsbankinn var búinn að setja niður sína vexti talsvert, og öll sanngirni og kröfur almennings mælti með því, að Íslandsbanki yrði knúður til að hafa ekki hærri vexti. Það gekk lengi í þófi um þetta, en svo fór, að Íslandsbanki hjelt sínum óforsvaranlega háu vöxtum. Það er skiljanleg ástæða, að banki, sem hafði orðið fyrir gífurlegu tapi, vildi vinna það upp með háum vöxtum, og flytja þannig skaða þann, sem fyrst og fremst átti að koma niður á hluthöfunum, yfir á þjóðarheildina.

Hitt umræðuefnið, sem virðist hafa eytt miklum tíma fyrir bankaráðinu, var að semja við fráfarandi bankastjórn um launafúlgur, er þeim bæri að fá að skilnaði. það virtist liggja í augum uppi, að hagsmuna þjóðarinnar yrði best gætt með því að láta þessa menn fara umsvifalaust, eins og gert er við banka erlendis, þar sem stórfeld töp koma fram, eins og hjer hafði átt sjer stað. Kröfur þeirra um eftirlaun eða heiðurslaun gátu þá orðið dómstólamál.

Í bankaráðinu var forsætisráðherra voldugasti maðurinn, því að auk síns atkvæðis fór hann með atkvæði fyrir þrjá útlendu hluthafana. Hann einn var því meiri hluti í bankaráðinu. En í stað djarftækra framkvæmda gagnvart bankastjórninni var ákveðið að fara samningaleið, og endirinn varð sá, að annar bankastjórinn fekk 70 þús. danskar krónur í eitt skifti fyrir öll, sem bætur fyrir atvinnumissi, en hinn fekk 4, 5 eða 6 þús. í eftirlaun, auk dýrtíðaruppbótar. En það er meira en ráðherralaun hjer á landi. Það hefir þó varla verið gustukaverk að gefa danska bankastjóranum þessar 70 þúsundir, því að ekki hefir hann haft sultarlaun við bankann undanfarið. Eitt árið vita menn, að laun hans urðu 80 þús. kr., og yfirleitt munu þau hafa verið hærri en laun nokkurs annars manns á landinu. Hinn, sem hrepti 10 þúsund, er líka með efnaðri mönnum bæjarins og hefir fengið mikla erfð og er maður á besta aldri og barnlaus, svo að ekki verður sjeð, að hann eigi við mikla örðugleika að stríða. Tölur þessar eru að vísu að nokkru leyti ágiskanir, því að formaður landsstjórnarinnar hefir neitað að gefa upplýsingar um þetta efni opinberlega, frá gerðum bankaráðsins. Þær eru ríkisleyndarmál, sem „ríkið“ sjálft má ekki fá neitt að vita um. Áreiðanlega hefir þessi ákvörðun um að leyna þjóðina gerðum bankaráðsins, verið studd af hæstv. forsætisráðherra, því að hann einn gat á þessu tímabili myndað meiri hluta ályktun í bankaráðinu.

Annars er það ekki fyrst og fremst peningaupphæðin, sem er eftirsjá í, þótt hún sje töluvert há. En það er blærinn á öllum þessum aðgerðum, að moka þannig peningum út, þegar bankinn er í nauðum staddur, og það til þeirra manna, sem hafa stýrt bankanum á þeim tíma, þegar stjórn hans orsakar þjóðfjelaginu mikil vandræði.

Nokkru fyrir jól, töluvert áður en ákveðið var endanlega um heiðurslaunin handa Tofte, varð um 120 þús. kr. sjóðþurð í Íslandsbanka. Datt mjer þá ekki annað í hug en að bankastjórarnir fráförnu hefðu orðið glaðir yfir því að sleppa úr embættum sínum, þótt þeir hefðu orðið að fara þaðan slyppir og snauðir. En þetta mikla óhapp virtist engin áhrif hafa á þá eða meiri hluta bankaráðsins. Danski bankastjórinn Tofte, var alveg eins kröfuharður, þegar komið var fram í dagsljósið svona sjerstakt dæmi um afleiðingamar af hirðuleysisstjórn á bankanum. Óhappið hlaut að varpa skugga á stjórn þeirra, sem frá viku. Að sjálfsögðu vissu bankastjórarnir ekki um þessa miklu óreiðu. En í því liggur einmitt sönnunin um, að þeir voru ekki vaxnir húsbóndastarfinu á heimilinu. En þeir bera þó ábyrgðina. Þannig þótti fyrv. forsætisráðherra Dana, I. C. Christensen, ekki tilhlýðilegt annað en að segja af sjer, er það vitnaðist, að einn úr ráðuneyti hans, Alberti, hafði stungið miklu fje undan, þó að allir vissu, að forsætisráðherrann væri saklaus um alla hlutdeild í fjárdrættinum.

Þegar þessi sjóðþurð vitnaðist, fanst miðstjórn Framsóknarflokksins keyra úr hófi fram, og fyrir jól skrifaði hún forsætisráðherra brjef, áður en hann sigldi, og lagði þar eindregið til, að stjórnin skipaði tvo duglega menn til að gæta hagsmuna landsins í bankanum. Forsætisráðherra svaraði með því, að það væri ekki hægt, því að búið væri að slíta fundi í bankaráðinu; hann hefði ekki lengur útlendu umboðin, nema með nýjum samningum við hluthafana. Síðar hefir komið í ljós, að hr. Claessen hafði beðið hann að gera ekki neitt. Og sú ósk hafði verið tekin til greina.

Þegar forsætisráðherra kemur heim úr utanför sinni um áramótin, slær hann upp báðum bankastjórastöðunum, og um þær sækja 10–15 menn. Rjett á eftir ákveður bankaráðið laun fyrir hina nýju bankastjóra, hin hæstu, sem þekkjast í hinu íslenska ríki, 25 þús. kr. eða meira. Síðari fregnir herma, að þau sjeu 30 þús. Hæstv. forsætisráðherra getur gefið skýringu á þessu, því að hann er sá eini maður hjer í deildinni, sem um þetta veit.

Hjer ber aftur að sama brunni og áður. Þegar bankanum hefir gengið í lakasta lagi, þá eru launakröfurnar óstjórnlegastar.

þannig heldur þessum leik áfram til mánaðamótanna janúar–febrúar. Þá er umsóknarfresturinn liðinn, og enn þá hefir landsstjórnin ekki ákveðið að skipa neina fasta menn í stöðurnar. Þá setur hún tvo menn í þær, bókara úr bankanum og skrifstofustjóra úr stjórnarráðinu. Þetta hefir mælst illa fyrir. Báðir eru menn þessir að vísu góðir og gegnir menn. En aðstaða þeirra gerir þeim ómögulegt að starfa eins og þjóðarhagsmunirnir krefjast. Þessir menn geta verið reknir á brott með klukkutíma fyrirvara. Þeir vita aldrei að kveldi, hvort þeir verði bankastjórar að morgni. Þeir geta þess vegna ekki gert það, sem þjóð og þing ætlast til af mönnum í þessari stöðu: Að leggja grundvöll að framtíðarskipulagi og starfsemi bankans, þar sem fyrst og fremst sje gætt hagsmuna landsins, en hluthafanna þar á eftir.

Það hefir engin skýring verið gefin á því, vegna hvers hæstv. forsætisráðherra tekur fyrst undir sig valdið til að skipa í bankann, en notar svo ekki þetta vald. Með valdaráninu sjálfu hefir hann brotið af sjer traust þeirra manna, sem studdu hann til ráðherratignar. En með því að nota ekki valdið eftir anda og bókstaf bankalaganna hefir hann brotið af sjer traust þjóðarinnar.

En til að gera hæstv. forsætisráðherra greiða vil jeg gefa honum tækifæri til að mótmæla því, sem haldið er á lofti um þessi efni. Það er álit margra, að hann hafi gripið til þessarar ráðstöfunar, að setja í embættin, til þess að geyma embætti handa sjálfum sjer, er hann ljeti af störfum. Einn af bestu borgurum þessa bæjar hefir sagt, að ef stjórnin hrifsaði þessi embætti undir sig, vanrækti síðan að velja í þau heppilega menn, þá væri slíkt athæfi líkast því þegar forsetinn í Mexico fer í langt ferðalag með landssjóðinn í vasanum. (Forsrh. SE: Hver er þessi ágæti borgari?). Það skiftir engu máli, hvert nafn hans er. Allir óspiltir menn í landinu eru og verða manni þessum sammála.

Jeg vona og þykist vita, að grunur þessi sje ástæðulaus, og trúi honum ekki, fyr en jeg tek á. Það er algerlega í bága við reynslu mína hingað til af hæstv. forsætisráðherra. En jeg gef honum hjer með tækifæri til að hreinsa sig af þessu, með því að skýra frá, hvers vegna hann hafi vanrækt að skipa í embættin, og lýsa því yfir í áheyrn þingsins, að hann ætli hvorki beint eða óbeint að njóta hagsmuna sjálfur af þessari vanrækslu.

Þá kem jeg næst að hinum ýmsu tilraunum Framsóknarflokksins hjer á þingi til að fá gleggra yfirlit yfir þetta mál. (Forsrh. SE: Talar hv. þm. í nafni Framsóknarflokksins?). Jeg tala í mínu nafni um tilraunir Framsóknarmanna til að koma viti fyrir hæstv. forsætisráðherra í þessu efni.

Stjórnarskiftin í fyrra voru gerð vegna Íslandsbanka og fjármálanna yfirleitt. Það er ekki hægt að neita því, að þó að mikill munur hafi verið á fjárreiðum fyrverandi og núverandi stjórnar, eins og fjáraukalögin frá tíð hvorrar um sig sýna best, þá er munurinn á stjórn þeirra á Íslandsbanka ekki ýkjamikill. Þær vonir, sem menn gerðu sjer um, að nýja stjórnin, sem tók við í fyrra, sýndi röggsemi í stjórn bankans, hafa ekki ræst. Þeir bera margar sameiginlegar syndir, fyrverandi og núverandi forsætisráðherra. Höfuðástæðan til þessa sameiginlega syndafalls er ef til vill sú, að þeir hafa verið formenn í bankaráði erlends hlutabanka, án þess að vera nógu sterkir til að standa í þeirri raun. Við skulum hugsa okkur, hvað sagt yrði í Englandi, ef Bonar Law tæki að sjer að vera formaður í bankaráði þýsks banka, sem starfaði í London. Bankaráðsformenskan er að vísu lögleg, en jafnframt erfið skylda, og því meiri ætti löngun ráðherranna að hafa verið að láta hagsmuni landsins sitja fyrir hagsmunum hinna erlendu hluthafa.

Jeg kem nú að einu aðalatriðinu, sem mikið hefir verið talað um í sambandi við mál þetta. Það er, hversu alt hefir gengið seint hjá landsstjórninni, þegar um rjettmætar ráðstafanir gagnvart bankanum hefir verið að ræða. Er ekki ástæða til, að þeir, sem við stjórn bankans hafa verið riðnir síðan hann byrjaði að tapa, skili aftur ágóðahlut sínum? Er ekki rjett að afskrifa hlutafje bankans fyrir tapinu, í stað þess að hann vinni það upp með alt of háum vöxtum, sem vitanlega eru teknir úr vasa almennings ?

Hv. 2. þm. S.-M. (SHK) vonar, að bankinn fari að græða aftur og rjetta við. En á hverju græðir hann þá? Á vaxtamismun. Útlánsvextir eru nú hærri í Íslandsbanka en í Landsbankanum, og hafa verið um langt skeið. Það er því bersýnilegt, að með þessu á að koma tapinu á herðar almennings, en bjarga hluthöfunum, sem þó þóknanlegast hirða gróða góðu áranna.

Og hvers vegna eru ekki festir þeir tveir trúnaðarmenn stjórnarinnar, sem fyrir landsins hönd eiga að gæta þess fjár, sem bankanum hefir verið lagt til úr ríkissjóði?

Það er nærri broslegt að heyra stöðugar ásakanir og illyrði í garð þeirra manna, sem vilja framfylgja lögfestum þjóðarvilja í þessu máli. Og hvaðan eru þessar ásakanir sprottnar? Vitaskuld frá þeim, sem eiga hlutabrjef í bankanum, þeim, sem skulda honum eða hafa notið bitlinga við hann. Það eru þeir, sem telja þá menn óalandi, sem heimta rjettlæti. Það eru hinir seku, sem áfella þá saklausu, þeir sjúku, sem brigsla um veikindi þeim, sem heilbrigðir eru. Það er ekki verið að áfella þá, sem margföld fá heiðurslaun fyrir að hafa stjórnað bankanum svo dæmalaust vel, og ekki heldur hina, sem gefin hafa verið upp hundruð þúsunda. Nei, en á okkur er hlaðið gífuryrðum fyrir að krefjast rannsóknar á stjórn þeirra. Fyrir að gera það eitt, sem hver og einn góður borgari í þessu þjóðfjelagi hlýtur að krefjast af fulltrúum sínum.

þá eru nokkur atriði í ræðu hv. 2. þm. S.-M. (SHK), sem þarf að athuga.

Góður og gegn þm., sem mjög er kunnugur þingsögunni síðastliðin 25 ár, sagði við mig, að ræða þessa hv. þm. (SHK) í máli þessu væri sú ókurteisasta, sem flutt hefði verið hjer á þingi um síðasta aldarfjórðunginn. Á þessu eru ýmsar skýringar, t. d. veikindi þessa hv. þm. (SHK). En jeg mun halla mjer að hinu, sem er honum til verulegs sóma, að honum er ljóst, hvern málstað hann er að verja. Hann finnur, að sá málstaður er alt annað en góður, og því meiri verður gremja hans, er honum verður ljóst, hversu málstaður hans er lítið virðulegur fyrir íslenskan alþingismann.

Ádeilu hans á fyrv. fjármálaráðherra (MagnJ) er svarað með því að taka fram þá staðreynd, að það er forsætisráðherra, sem er æðsti maður bankans og honum ber því að gefa skýrslur um hann. (Forsrh. SE: Heyra bankamál undir forsætisráðherra?). Jeg hefi þegar tekið fram, að hann er yfirmaður bankans. (Forsrh. SE: Hvar stendur það skrifað?). Það stendur illu heilli skrifað í stofnlögum bankans, að ráðherrann skuli vera formaður bankaráðsins. Og þar að auki hefir hæstv. forsætisráðherra aukið völd sín og sorgir með því að hrifsa undir sig veitingarvaldið nú í sumar sem leið. Annað mál er það, að þó að skýrsla hefði nú verið gefin og þó að henni hefði verið trúað, þá hefði hún aldrei verið það fullnægjandi, að tillaga þessi væri ekki jafnrjettmæt. Og þingið á í raun og veru aðeins að trúa sínum eigin augum í svo mikilvægu máli. (Forsrh. SE: Flutningsmenn till. eru þá ekki sammála, eftir því sem kom fram í umr. í hv. Nd.). — Ef rannsókn yrði hafin á tryggingunum fyrir enska láninu, sem eru mestmegnis víxlar, þá er hætt við, að ýms góð nöfn sæjust þar standa fyrir svo sem hálfri miljón, 300 þús. o. s. frv. Ef menn nú óskuðu að vita gerla um, hvers virði þessar tryggingar eru, þá er ómögulegt að fá nokkurn botn í þá rannsókn, nema að athuga, hvernig þessir skuldunautar bankans eru stæðir. Og þá er rannsóknin orðin að almennri athugun á hag bankans. Þetta er kjarni málsins. Engin skýrsla til þingsins gaf fullnaðarskýringu. Um ástand veðsins verður ekki dæmt, nema af ástandi bankans sjálfs og skuldunauta hans. En hluthafarnir og vinir þeirra í þinginu virðast bera kvíðboga fyrir því, að þjóðin eða fulltrúar hennar fái að sjá þau hin göfugu nöfn, sem á víxlunum standa.

Neðri deild hefir nú samþykt, að þingið skuli ekki fá að vita neitt um hag bankans, nema gegnum gleraugu stjórnarinnar. Og þar sem hæstv. forsætisráðherra hefir neitað að gefa upplýsingar um laun Tofte, geta menn nokkum veginn gert sjer í hugarlund, að það verður takmarkað, sem þingmenn græða á þessari tilvonandi skýrslu stjórnarinnar.

Það er og villandi hjá hv. 2. þm. S.-M. (SHK), að fyrv. fjármálaráðherra. (MagnJ) hafi sett enska lánið í bankann. Það gerði fyrirrennari hans, núverandi hv. 1. þm. Skagf. (MG), og það var hann, sem vanrækti að skipa tvo umsjónarmenn með fje þessu, sem hann hafði þingheimild til. Aftur á móti má telja það til lofs fyrverandi fjármálaráðherra (MagnJ), að honum tókst að auka trygginguna um eitthvað 25%, eftir að fyrirrennari hans var búinn að sleppa peningunum í bankann.

Eitt atriði sýnir, hvernig margt breytist undarlega í heimi þessum. Hv. 2. þm. S.-M. (SHK) fordæmdi með sterkum orðum rannsókn þessa, kvað hana glæp o. s. frv. Fyrir nokkrum árum kom líkt atvik fyrir hjer á landi. Það var 1909. Þá átti þessi sami maður (SHK) sæti á þingi og var ákafur stuðningsmaður þeirrar stjórnar, sem skipaði rannsóknarnefnd á annan bankann. En þá var það Landsbankinn.

Ef allir þeir eru glæpamenn, sem nú standa að þessari tillögu, þá mætti jafnvel finna einstaka slíka herra meðal þeirra, sem fastast stóðu að rannsókn inni 1909.

Um haustið 1909 sendu Heimastjórnarmenn undirskriftaskjöl út um alt land, til að lýsa vantrausti á þáverandi ráðherra, vegna rannsóknarinnar á Landsbankanum. Þá var gefið út blað á Akureyri, sem hjet „Norðurland“. Ritstjóri þess hjet þá Sigurður Hjörleifsson, en hefir nú gengið úr gamla reifinu og heitir nú alt öðru nafni. Það er núverandi 2. þm. S.-M. (SHK). Í ritstjórnargrein í blaði sínu 21. des. 1909 segir hann í tilefni af þessu atferli stjórnarandstæðinganna:

„Með þessu ætlast þeir til, að þjóðin launi honum (þ. e. Birni Jónssyni ráðherra, sem skipaði rannsóknarnefndina) þá drengilegu djarfmensku að stöðva óregluna í Landsbankanum“.

Enn fremur:

„Engar sannanir hafa verið færðar fyrir því, og engar líkur verða fyrir því færðar, að þessi ráðstöfun muni spilla fjárhag eða lánstrausti bankans eða þjóðarinnar“.

Á þingi 1911 var mjög deilt á þá, sem að rannsókninni stóðu, en þessi sami maður (SHK) stóð til varnar fyrir rannsókninni. M. a. sagði hann þá í einni þingræðu:

„Það má telja þrjá merkisdaga í þessu máli eða hátíðisdaga, þó að margir hafi verið tyllidagar þar að auki. Fyrsti merkisdagurinn er 27. apríl 1909, þegar bankarannsóknarnefndin er skipuð, þá er 22. nóv. 1909, þegar stjórn Landsbankans var vikið frá, og loks 3. jan. 1910, þegar háyfirdómari Kristján Jónsson ljet setja sig inn í bankann með fógetavaldi“.

Hjer talar þm. með miklum fjálgleik um hátíðisdaga, sem margir aðrir kölluðu hneykslisdaga. Í sömu ræðu segir hann, að ástæðurnar fyrir rannsókninni hafi ekki verið lítilfjörlegar, þótt hann telji nú enga ástæðu til rannsóknar. Ástæðumar kvað hann þá, að vantað hefði á víxlaforða bankans og að uppgerð sparisjóðs hafi ekki verið í fullri reglu, „og loks, að töluvert var álitið tapað af útlánum bankans“.

Þá telur hann, að bankinn hafi tapað á 11 mönnum, sem riðnir voru við gjaldþrot, þetta frá 10–171 þús. á hverjum Ef þessar ástæður hans, í grimmri varnarræðu fyrir stjórn þeirri, sem skipaði rannsóknina, eru bornar saman við afstöðu hans nú, þá undrast menn breytinguna. Sannast á þm., að enginn veit sína æfina fyr en hún öll er.

Á þessu sama þingi (1911) var svo skipuð rannsóknarnefnd á stjórnina, og átti hv. núverandi 2. þm. S.-M. (SHK) sæti í henni í Ed. Nefndin klofnaði, og var hann einn í minni hluta, þótti honum bankarannsóknin 1909 hafa verið nauðsynleg og varði hana, en hins vegar fanst honum þessi nefnd ekki gera nógu mikið að því að hnýsast í bækur bankans. Fórust honum svo orð:

„Niðurstaða bankastjórnarinnar nýju hefir orðið sú, að 500 þús. kr. sjeu tapaðar, eða þá að meira eða minna leyti í hættu. Mjer þótti rjettara, að hv. samnefndarmenn mínir hjer í deildinni hefðu reynt að rannsaka nokkuð þetta atriði málsins, hvort þetta ískyggilega ástand bankans stafaði af einhverjum slysum eða óhepni, eða af ófullnægjandi eftirliti hinnar fráförnu bankastjórnar, en jeg get ekki betur sjeð en að þetta sje órannsakað enn“.

Þessi dæmi ættu að nægja til þess að sýna, hvernig hv. núverandi 2. þm. S.-M. (SHK) leit á slíka rannsókn þá, og er þessa alls ekki getið honum til lasts. Það er rjettmætt að finna að stjórn og rekstri banka eins og annara fyrirtækja. En hins ber að minnast, að þessi framkoma hv. 2. þm. S.-M. (SHK) þá er engan veginn samrýmanleg illyrðaaustri hans út af bankarannsóknum alment, eins og kom fram í ræðu hans um daginn.

Munurinn á ástæðunum til rannsóknar 1909 og nú er aðallega sá, að þá var óendanlega lítilfjörleg ástæða til að rannsaka Landsbankann, í samanburði við þær, sem nú hrópa á rannsókn á Íslandsbanka.

Þá hefir því verið slegið fram, að þagnarskylda hvíldi ekki á mönnum, samkvæmt tillögu okkar Framsóknarmanna, nema rjett á meðan á rannsókninni stæði. Hjer er rjettu máli vikið við. Ef rannsóknin færi fram, þá er tvent til: Annaðhvort að alt sje í lagi eða ekki. Við viljum, að alt fari fram með ítrustu varasemi og að lokaður fundur taki ákvörðun um, hvað gera skuli, þá er rannsókn er lokið, og þinginu í heild sinni skýrt frá árangrinum. Ef alt reynist í góðu lagi, þá er engin ástæða til að upphefja þagnarskylduna. en annars er óhugsandi að þegja. Þjóðin yrði að fá vitneskju um, ef ólag reyndist á bankanum; annað væri óhæfa.

Jeg hefi nú rakið þetta mál allítarlega, dregið fram í dagsbirtuna aðalatriðin í sögu bankans frá byrjun og fram á þennan dag. Ræða mín er orðin nokkuð löng, en lengri er því miður óhappaferill hluthafastefnunnar hjer á landi. Hefir ekki í skemra máli verið hægt að gefa deildinni, og síðan öllum borgurum landsins, viðunanlega hugmynd um áhrif hluthafastefnunnar á þjóðlífið og fjármál landsins. Jeg skal ekkert um það fullyrða, hvort hluthafarnir eða þjóðin eru í meiri hluta í þessari deild. Fyrir okkur flutningsmönnum tillögunnar vakir það eitt að gera skyldu okkar og gefa þinginu tækifæri til að gera skyldu sína. Nærfelt helmingur þm. hefir áður á þessu þingi flúið salinn vegna Íslandsbanka. Ef til vill verður í kvöld meiri hluti í deildinni fyrir því að flýja enn undan boði skyldunnar.