23.04.1923
Efri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í D-deild Alþingistíðinda. (3150)

131. mál, tryggingar Íslandsbanka fyrir enska láninu

Jón Magnússon:

Jeg held jeg hafi það ekki rangt eftir, að í blaði hv. 5. landsk. þm. (JJ: Jeg á það ekki einn) væri kvartað undan því, að ekki væri hægt að koma málum fram í þinginu fyrir vaðli einstakra þingmanna. Jeg er samdóma þessu. Hv. 5. landsk. þm. (JJ) veit best um þetta. Hann hefir nú með vaðli sínum komið máli þessu svo, að ekki er hægt að taka það alvarlega. Það er orðinn loddaraleikur af hálfu flutningsmanna. Það var blásið upp í byrjun í Nd., en bólan sprakk þar furðu skyndilega. Jeg hefði nú haldið, að nægilegt hefði verið, að þessi rannsóknartillaga væri samþykt í Nd., og gætu því hv. tillögumenn tekið tillögu sína aftur hjer, einkum þar sem flm. hennar í Nd. lýsti því þar, að hann væri ánægður með þá till., sem samþykt var þar. Jeg tók ekki eftir því, hvort hv. flm. hjer í deildinni hefir lýst yfir því sama, en held, að hann hafi þó sagt eitthvað í þá átt. — Nei, það er ekki til þess að gera neitt, að þessi till. kemur fram. Tilgangur forgöngumannanna er sá, að hafa gagn af þessu við næstu kosningar. Enda hefir það komið fram í málgagni þeirra, að þetta ætti að vera aðalmálið við næstu kosningar. Þetta er bara áframhald af árás á Íslandsbanka og ein staka menn, eins og best sjest af ræðu hv. 5. landsk. þm. (JJ)

Það hefir einatt verið svo um mig, að jeg hefi ekki átt því láni að fagna að hafa mikið blaðafylgi um dagana. Tíminn var mjer að vísu velviljaður fyrst í stað. En síðustu 3 árin rúmlega hefir hann, að jeg held, aldrei viljandi sagt neitt satt um mig. Jeg skal þó ekki kvarta undan þessu, því þetta hefir stutt mig allra best sem stjórnmálamann. Hv. 5. landsk. þm. (JJ) veit vel, að það er sagt um stjórnmálamenn, að ilt sje, að um þá sje talað í blöðunum, því það er venjulega misjafnt, sem um þá er sagt; en hitt sje verra, að um þá sje þagað. Það er sagt í Njálu, þegar Gunnar Lambason var að segja frá brennunni í Orkneyjum, að um allar sagnir hefði hann hallað mjög til, en logið víða frá. Svipað og ekki rjettara er því farið með söguburð hv. 5. landsk. þm. (JJ) um mig. Jeg þakka honum fyrir þann stuðning, sem hann hefir veitt mjer með því. Og jeg er ekki sá eini, sem getur sagt eitthvað svipað.

Það er alment talið, að forsætisráðherra (SE) hafi vaxið í áliti manna síðan hann fór að hundsa þennan þm. (JJ), sem oft vinnur mótstöðumönnunum mikið gagn með þessu undarlega móti. Hv. 5. landsk. þm. (JJ) heldur víst, að jeg sje enn í stjórn þessa lands. (JJ: Er þetta Íslandsbankamál?). Er það alt um efnið, sem talað hefir verið? Nei, ekki. Við skulum ekki gera okkur alt of heimska. Hv. þm. (JJ) hefir sjálfur vaðið utan við efnið. Saga hans o. fl. kom ekkert efninu við.

Það er oft sagt frá því í fornsögum vorum, er talað er um bardaga, að sumir garparnir hafi virst ekki sjá nema foringja mótstöðumannanna. Mjer virðist einatt líta svo út, sem hv. 5. landsk. þm. (JJ) sjái engan nema mig. Jeg hefi að vísu altaf haft mjög hóflegt álit á sjálfum mjer, en jeg játa, að það hefir töluvert vaxið við þessa athygli, sem hv. þm. hefir sjerstaklega veitt mjer.

Þá sagði sami hv. þm. (JJ), að Íslandsbanki hefði í stjórnartíð minni blásið upp, en vindurinn farið úr honum síðar. Auðvitað. Þetta var svo alstaðar seinni hluta stríðsáranna og fram á árið 1920, að fje safnaðist, en þá kom fellirinn. Jeg bjóst við því og sagði það einatt fyrir, að brekkan myndi reynast býsna brött, og það varð hún.

Þá var talað um það í blaði hv. sama þm. (JJ), að húsaleiga fyrir landið hefði hækkað í minni stjórnartíð. Þetta var sagt með mesta sakleysissvip. Auðvitað. Öll leiga hækkaði á þeim tíma.

Það er eins og með fleira, að auðvitað gerði það ekkert til, þótt annar færi með bankamálin í minni tíð. Mjer er samt kent um það alt.

Annars er ilt að svara þessum hv. þm. (JJ), því það er með hann eins og sagt var um aðra mjög virðulega persónu, að hann veður vítt um veraldarfrón. Hann kom víða við í ræðu sinni. Jeg held það hafi verið eitthvað í sambandi við mig, að hann var að tala um, að skila bæri aftur þeim ágóðahluta, sem bankinn hefði borgað út, eftir að hann fór að tapa. En hve nær fór hann að tapa? Hæstv. atvrh. (KIJ) sagði, að það hefði verið á árinu 1919, en það er ekki rjett. Eftir því, sem einn af kunnugustu mönnum bankans sagði mjer í morgun, þá hefir það ekki verið fyr en síðari hluta ársins 1920. Þá fyrst tapar hann verulega. Hv. 5. landsk. þm. (JJ) sagði, að hann hefði tapað á síld árið 1919, en það er ekki rjett. Útgerðarmenn hafa þá tapað, en bankinn ekki. (JJ: En Elías Stefánsson ?). Jeg veit ekki um það; veit ekki einu sinni, hvort búið er að gera búið upp enn. En tapið varð auðvitað að koma. Og jeg álít, að það hefði verið óforsvaranlegt að reka bankann svo varlega á þessum árum, að ekki hefði orðið tap.

Það varð tap á síld 1919, en bankinn fór ekki að tapa fyr en á árinu 1920. Þá fæst ekkert fyrir fiskinn og heilir farmar fara forgörðum; jafnvel var farmi, sem var miljón króna virði, fleygt í sjóinn af einu skipi. Svona lagað er ekki hægt að sjá fyrir nje reikna með því fyrirfram.

Vegna þess, hve hv. 5. landsk. þm. (JJ) er mjög ant um að vita, hve mikinn ágóðahluta jeg fekk, þá skal jeg friða hann með því að segja honum það. 1920 var ágóðahlutinn 1950 kr., og skiftist hann jafnt milli þriggja ráðherranna. Það voru því um 650 kr. í hlut. 1921 fekk enginn neitt.

Eftir þessu loflega dæmi, sem hv. þm. (JJ) talaði um, þá ætti hver ráðherra að borga aftur þessar 650 kr. Ef almennur vilji væri, að það væri gert, þá held jeg, að jeg myndi komast fram úr því, fyrir mitt leyti. — í ár verða það líklega nálægt 400 kr. Íslandsbanki yrði varla feitur af því.

Það er hlægilegt alt þetta sögulega hjal um Íslandsbanka. Eftir till. og ræðu hv. frsm. (EÁ) sýnist það lítið koma málinu við. Jeg sje enga hættu fyrir landið í heiti bankans. Hann fekk þetta nafn, er lögin um hann voru samþykt, og var gefið það af þeim mönnum, er hv. 5. landsk. þm. (JJ) ber svo mikla virðingu fyrir og talar svo vel um. Nei, þetta er alt tómur loddaraleikur. — Íslandsbanki tapaði á ýmsu fleiru en fiskinum, eða fiskhringnum, sem talað hefir verið um. Vandræði hans stöfuðu frá fleiru. T. d. lögðu Englendingar hjer inn fje til vörukaupa á ófriðarárunum. Að ófriðnum loknum voru eftir af því um 5 milj. króna. Þetta fje varð bankinn að yfirfæra til Englands, og skapaði þetta meðal annars örðugleikana. En jeg ætla ekki að fara lengra út í sögu bankans að sinni, enda er jeg ekki til þess búinn. Jeg bjóst ekki við að þurfa að gefa skýrslu sem ráðherra, enda engin heimild til að krefja mig um hana úr því sæti, er jeg nú sit í. Jeg skal þó aðeins drepa á einstök atriði.

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) talaði um, að bankinn hefði brugðist skyldu sinni um yfirfærslur. Þetta er rjett, að nokkru eða miklu leyti — um tíma. Og ef það hefði staðið lengur, hefði máske orðið að láta bankann hætta störfum. Hv. þm. Dala. (BJ) fór þá til bankastjóra Landsbankans og spurði að því, hvort sá banki treysti sjer til að halda uppi viðskiftunum, ef Íslandsbanki hætti. Landsbankastjórnin neitaði því. Þótti þá ekki rjett að fara út í nein harðræði.

það kemur mjer ekki við, og þó að nokkru leyti, að fara að tala um skýrslu hv. þm. Dala. (BJ), sem hv. 5. landsk. þm. (JJ) varð svo tíðrætt um. Tildrögin voru þau, að vegna þess, að vitanlegt var, að bankinn hafði átt allerfiða tíma um hríð, þá þótti bankaráðinu rjett, að athugaðir væru ýmsir víxlar og fleiri hlutir viðvíkjandi störfum bankans og viðskiftum. Varð það svo úr, að hv. þm. Dala. (BJ) tók það að sjer. Jeg var þá fjarverandi, þegar þetta var gert og skýrslan var gefin. En um þessa rannsókn og skýrslu hv. þm. Dala. (BJ) veit jeg það, að hann vann að henni og vann mikið; hafði hann sjer til aðstoðar einn af glöggustu starfsmönnum bankans, og hann reyndi að afla sjer upplýsinga um skuldunauta og aðra viðskiftamenn bankans. Veit jeg ekki til, að neitt það yrði þá upplýst, er gæfi ástæðu til að ætla, að viðskiftamenn bankans gætu yfirleitt ekki staðið í skilum. Jeg get sagt það um þessa skýrslu hv. þm. Dala. (BJ), að hún er gefin af mjög bjartsýnum manni, eins og allir vita að hv. þm. Dala. (BJ) er, að þá sagði hann ekki neitt annað en það, sem allir góðir drengir mundu hafa sagt, og að þessi skýrsla hans er gefin eftir bestu sannfæringu.

En hv. 5. landsk. þm. (JJ) segir að vísu ekki, að hv. þm. Dala. (BJ) hafi gefið vísvitandi ranga skýrslu, en hann segir það ósatt, því hann álítur hitt, enda kom slíkt fram í blaði hans, og hann gæti þá alls ekki sagt um þessa skýrslu hv. þm. Dala. (BJ), að hún væri það allra vitlausasta, sem til væri á jarðríki. (JJ: Hver er vitlausari?). Það er ekki hægt að dæma skýrsluna eftir því, sem eigi varð vitað fyr en síðar; auk þess hefir hv. 5. landsk. þm. (JJ) margsinnis talið þessa skýrslu ranga (JJ: Hvenær?) og gefið í skyn, að hv. þm. Dala. (BJ) hafi þar vísvitandi farið með rangt mál. Hv. 5. landsk. þm. (JJ) er afskaplega tortrygginn, og kemur þessi tortrygni hans ljósast fram í þessu máli. Skýrsla hv. þm. Dala. (BJ) er gefin eftir bestu samvisku, en af mikilli bjartsýni, eins og þeim manni er eiginlegt. En aðaltap bankans á fiskhringnum svo nefnda stafaði næstum eingöngu frá 3 viðskiftamönnum Landsbankans.

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) var að tala um og álasa fyrri þingmönnum, og er það allmerkilegt, hversu hann er altaf að dæma fyrri þingmenn; stafar það líklega af því, hversu sögufróður hv. 5. landsk. þm. (JJ) er. En jeg álít þetta rangt, því það hefir vitanlega hver nóg með sjálfan sig.

Þá var hv. þm. (JJ) að lá þingmönnum, að þeir sæktust eftir að komast í bankaráðið eða eftir öðrum slíkum bitlingum. Jeg skal játa, að jeg er á svipaðri skoðun um hina svo kölluðu bitlinga, þótt jeg vilji ekki fara að taka undir ásakanir hans á þingmenn í þessu efni. Um sjálfan mig get jeg sagt það, að jeg hefi aldrei bitling þegið. Einu sinni átti jeg kost á því að verða kosinn í bankaráð Íslandsbanka, en jeg afþakkaði það, og þau árin, sem jeg var forsætisráðherra, skifti jeg ágóðahlut mínum milli mín og hinna ráðherranna, jafnt til hvers okkar. Yfir höfuð held jeg, að jeg geti sagt það, að jeg hefi aldrei haft aðrar tekjur en þær, er jeg hefi unnið fyrir. Allar sögur um fjár- „spekúlationir“ mínar eru ósannar; jeg hefi aldrei verið við riðinn neitt þess háttar; hefi t. d. aldrei átt hluti í botnvörpungum.

Þá fer hv. 5. landsk. þm. (JJ) að mælast til að fá skýrslu um það, hvernig á því hefði staðið, að það frjettist til útlanda, að stjórnin hefði bannað yfirfærslur. Hv. landsk. þm. á engan rjett til þess að krefjast skýrslu af mjer. En mig minnir, að hjer væri þá innflutningsnefnd; hefir þetta líklega verið eitthvað í sambandi við hana.

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) var eitthvað að saka Íslandsbanka um, að hann hefði átt mikinn þátt í dýrum botnvörpungakaupum. Jeg spurði um það á sínum tíma, hvern hlut bankinn hefði átt í togarakaupum, og fekk það svar, að bankinn hefði aldrei verið að spurður, hvort þar fengist fje til kaupanna, eða verið við hann ráðgast um þau. Fyrst höfðu menn fest kaup á skipum eða látið byggja, og eytt til þess miklu fje frá sjálfum sjer, máske 400–500 þús. kr., áður en fullgerð var smíðin, og þá komnir í fjárþrot. Þá fyrst var venjulega komið til bankans og hann beðinn um lán. Þá komu menn og sýndu fram á, hvernig komið væri fyrir þeim, og að ef þeir ekki fengju meira fje, mundu þeir tapa öllu, sem þegar væri í þetta lagt. Jeg held því, að það hafi verið þannig, að Íslandsbanki hafi sjaldan verið með frá byrjun, en leiðst til að hjálpa með lánum til þess að forða mönnum frá mjög miklu fjártjóni.

Enn var hv. 5. landsk. þm. (JJ) að tala um hið háa kaup hjer. Mjer er spurn: Var nú nokkurn tíma svo hátt kaup hjá verkamönnum eða öðrum, að það væri of mikið? Jeg efast mjög um það. Það kann að hafa átt sjer stað um sjómenn; en við því er það að segja, að svona var það þá um allan heim, og stafaði þetta af þeirri áhættu, sem siglingum þá voru samfara.

Þegar verið er að tala um tjón Íslandsbanka, þá verður ávalt að hafa það í huga, að hann hafði stöðugt aðaláhættuna alstaðar. Flestöll áhættumestu fyrirtækin, áhættumesta framleiðslan, hafði þar viðskifti sín, og því var eðlilegt, að hann tapaði. Tímarnir eru og þannig, að allflestir bankar í álfunni hafa beðið mikið tjón undanfarið. En jeg hefi þó ekki orðið var við, að svo hafi verið hrópað upp erlendis eins og hjer út af þessu, nema þá um bein svik hafi verið að ræða.

Þá var hv. 5. landsk. þm. (JJ) enn að tala um það, að umhyggju fyrir hagsmunum hluthafa hefði mjög svo gætt hjá stjórn bankans. Jeg sje nú ekki, hvað sje svo athugavert við það, meðan bankinn er rekinn sem einkafyrirtæki. Því skal síst neitað, að Landsbankinn hjálpaði vel um tíma með yfirfærslur.

Þá var sami hv. þm. (JJ) að tala um það, að Ísland hafi verið orðið svo ófrægt erlendis, að eigi hafi fengist viðskiftalán handa Landsbankanum í útlöndum 1920. Jeg var nú einmitt staddur í London í maí 1920 og samdi þá um lán handa Landsbankanum og fekk það, sem jeg bað um. Jeg komst að því, að Ísland var þar í fremur góðu áliti, en þó sagt, að það væri fremur óþekt þar á peningamarkaðinum. Jeg vissi um það, að seinna hafði bankinn leitað fyrir sjer með stærra lán, sem þó ekki varð neitt úr, en mjer er ókunnugt um, hvers vegna svo fór þá. Jeg veit ekki til, að bankinn hafi mætt neinum erfiðleikum á peningamarkaði Englands. Aðalatriðið er það, að komast inn á þessa stóru markaði, og ef svo er staðið í skilum, þá er alt gott.

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) vill helst altaf vera í eldhúsverkum fráfarinnar stjórnar, og sjest það best á „Tímanum“, er hann segir, að stjórnin sje eyðslusöm; en fjvn. hv. Nd. hefir ósannað þetta. Jeg veit nú ekki, hversu vel „Tíminn“ trúir þessu, en jeg ætla að trúa betur þingnefnd heldur en „Tímanum“. Jeg ætla að staðhæfa það, að meðan jeg var forsætisráðherra var stjórnin ekki eyðslusöm. Þá var svo um öll lönd, að miklu var eytt; það var svo hjer líka, en það var ekki stjórnin, sem því olli sjerstaklega, miklu fremur þingið. Nú má að vísu segja, að stjórnin hefði átt að halda aftur af því og aftra þessu, en það gerði nú engin stjórn þá.

Þá er enska lánið; hv. 5. landsk. þm. (JJ) drap og á það. Sagði hann, að jeg hefði þar farið út fyrir efni dagskrárinnar. Þetta hygg jeg vera misskilning hjá hv. þm., og ef það er ekki að fara út fyrir efnið, sem hann þar gerði sig sekan í, veit jeg ekki, við hvað er átt með því að fara út fyrir efnið. Hann var sem sje að tala um, hve enska lánið væri dýrt. (JJ: Þetta er misskilningur. Það er talað um þetta úti um alt land). Ef svo er, að óskað hafi verið eftir því, að lán væri tekið utan Danmerkur, þá var það vel gert af fráfarinni stjórn, að hún tók það þarna. Annars er óþarft að vera að tala um þetta nú. Þáverandi fjármálaráðherra (MG) gaf ítarlega skýrslu um það í þinginu í fyrra, sem jeg læt mjer nægja að vísa til.

Þá talaði sami hv. þm. (JJ) um veðsetning á tolltekjunum fyrir láninu. Jeg ætla nú ekki að fara nánar út í þær umr., en jeg ætla að segja þingmanninum sögu. Einn af mestu fjármálamönnum Dana sagði við fulltrúa vorn einn, að tolltekjurnar væru veðsettar fyrir láninu. Maður þessi er mjög kunnugur enskum peningamarkaði og öðrum fjármálum. Fulltrúi vor spurði hann, hvort hann þyrði að standa við þessi orð, eða hvort þetta væri hans skoðun. „Nei, alls ekki“, kvað hann, „en „Tíminn“ ykkar segir það“. (JJ: Enski textinn?). Þessi hv. þm. (JJ) er eigi meiri ættjarðarvinur en það, að þótt erlendir fjármálamenn þori ekki að telja tekjur okkar veðsettar fyrir þessu láni, segir hann, að þær sjeu það.

Þá talar hann um ákvæði lánssamningsins og milligöngu Landsbankans. Hann sjer ekki það, sem liggur beinast fyrir augum í öllum þessum málum. En það er það, að ofureðlilegt er, að bankafirmu vilji heldur fara til banka í þessum efnum en þurfa að snúa sjer til ríkisstjórnar. Það er ekkert vantraust á stjórnunum, þótt svo sje. Þegar jeg var að semja um lánið 1920 handa Landsbankanum, þá var miklu greiðara að fá lán handa bankanum heldur en handa ríkisstjórninni, sem líka var um talað. Banki sá, er jeg átti við um lánið, sagðist heldur vilja veita lánið bankanum, vegna þess, að reynslan væri sú þar, að ríkislánunum væri eytt, en bankalánum ekki.

En hvað er það þá um þessar tolltekjur? Það er alt og sumt, að því er lofað, að þær verði ekki veðsettar öðrum meðan enska lánið stendur. Jeg veit, að menn vilja í lengstu lög forðast veðsetningu á þeim. (JJ: Það er nú samt búið að gera það). Hv. 5. landsk. þm. (JJ) er það fyrir öllu að finna einhvern höggstað á óvinum sínum. Vegna hans miklu meðfæddu tortrygni getur vel verið, að hann haldi, að erlendir bankar tryðu betur stjórninni en bankanum, en til þess þarf afarkrókóttan hugsunarhátt.

Áður en jeg hverf frá enska láninu ætla jeg að leyfa mjer að geta þess, að þegar hr. Kaaber bankastjóri sigldi til þess að reyna að fá betri kjör á láni hjá enskum bönkum, þá sagði sá maður, er hafði verið milligöngumaður bankans þar, að erfitt væri að fá lán í London, vegna þess, hve Ísland væri þar lítt þekt. Fekk Kaaber þau svör hjá fjámálamönnum þar, að kjörin yrðu að teljast góð eftir kringumstæðum, og hann rjeð til að taka lánið.

Þá taldi hv. þm. (JJ) virðing hlutabrjefanna ekki rjetta á 91%, og viðvíkjandi því, er hann ber fyrir sig kauphallarsöluna, þá er það vitanlegt, að verðið er þar oft mismunandi, eftir framboði og eftirspurn, og auk þess sjaldnast selt fyrir sannvirði. Enn fremur var það alt rangt, sem þessi hv. þm.- (JJ) sagði um verð hlutabrjefanna í kauphöllinni, auk þess sem það í sjálfu sjer er engin sönnun fyrir sannvirði þeirra, þótt rjett hefði verið frá skýrt um verðið.

Þá taldi þessi þm. (JJ) það aðeins vera ræfilsþjóðir, sem veðsettu tekjur sínar. Mig minnir hann nefndi Tyrki, Grikki og Kínverja. Hvað Tyrkjum viðvíkur, er vafasamt, hversu miklir ræflar þeir eru. Þeir munu þó og nokkru þektari í heiminum en vjer, og um Kínverja er það að segja, að þeir eru nokkru fleiri en vjer og einnig talsvert efnaðri. Ræfilsnafnið er einnig dálítið varasamt fyrir okkur að nota um Grikki.

Það, sem þessi hv. þm. (JJ) var að tala um fullveldið, á alls ekki við mig. En meðan hann var í flokki sjálfstæðismanna gæti þetta þá hafa átt við hann sjálfan. Jeg man eftir því, að í blaði hans var hæðst að hátíðahaldinu 1. des. 1919 — held jeg — og fullveldisviðurkenningunni.

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) var að tala um útrjetta hönd, er verið var að boða okkur á einkafund um daginn um bankarannsóknina. Ef þessi þm. rjetti mjer höndina, þá mundi jeg hika við að taka í hana, af því að jeg óttaðist, að rýtingur væri í henni. Hið sanna er, að jeg vil ekkert leynimakk við þennan hv. þm. eiga. Það var ekkert annað en yfirdrepskapur að tala um leynifund, því að vitanlega var ekki hægt að gera neitt án þess að allir vissu um það. Það, sem átti að gerast, varð að gerast opinberlega. Framsóknarflokkurinn fór óforsvaranlega að ráði sínu. Hann ljet flokksmann sinn, forseta sameinaðs þings, kalla saman einkafund. Hinir flokkarnir fengu ekki að vita, hvað gera átti. Er spurt var, fekst ekkert svar, og er á fundinn kom, tóku þeir að lesa upp skrifaðar ræður og tilbúnar ályktanir til samþyktar. Þetta er neðansjávarverk, kafbátahermaður. Hv. þm. (JJ) ætti að minnast þess, að það, sem gera á, á að gerast opinberlega. (JJ: Það er þá best að samþykkja þessa tillögu). Það er ekki annað en spaug að ætla nú að fara að rannsaka bankann, þegar ekki er hægt að búast við, að eftir sje nema í hæsta lagi hálfur mánuður af þingtímanum. Sjerstaklega þó þegar það eru Framsóknarflokksmenn, sem framkvæma eiga rannsóknina, því að það þori jeg að fullyrða, að enginn úr þeim flokki, sem sæti á hjer í deildinni, hefir minsta vit á að rannsaka bankann. Segi jeg þetta ekki þeim til lasts; það er ekki von, að þeir sjeu bankafróðir eða sjerstaklega hafi þann kunnugleik, er hjer þarf til.

Þá fann þessi hv. þm. (JJ) að vali bankastjóra Eggerts Claessens. Jeg skal fúslega játa, að jeg á sök á því máli. Jeg áleit, að það væri ekki hægt að fá heppilegri mann í bankann, eins og þá stóð á, og hygg jeg, að það muni hafa sýnt sig, að hann var vel valinn. Hv. þm. talaði um hið óskaplega kaup, er hann fengi, og jeg minnist þess, að það mun hafa staðið í Tímanum, að hann væri ráðinn með 40 þús. króna lágmarkslaunum. En sannleikurinn er sá, að jeg rjeð hann með 20 þús. kr. föstu kaupi. En hins vegar hafa bankastjórarnir dýrtíðaruppbót, sem bankaráðið ákveður eftir á fyrir ár hvert, svo það er algerlega undir því komið, hve há hún er. Mín synd er því ekki fólgin í öðru en því, að jeg rjeð þennan íslenska mann með sömu kjörum og hinn danski bankastjóri, Tofte, hafði. Maðurinn var í tekjumikilli stöðu áður, og var ekki eðlilegt, að hann vildi fara úr henni, nema hann fengi há laun, og auk þess mátti búast við, að bankanum yrði þá og þegar lokað, ef hv. 5. landsk. þm. (JJ) og hans nótar fengju vilja sínum framgengt, og hvað var þá orðið úr þessum háu launum? (JJ: Þetta er skáldskapur). Þetta er ekki skáldskapur, því að ef þessi hv. þm. (JJ) verður að teljast með fullu ráði, þá er ekki hægt að fá annað út úr skrifum hans og skrafi en að hann vilji láta leggja bankann niður, ef hann verður ekki algerlega landsins eign.

Hv. þm. (JJ) kvaðst hafa spurt mig að því fyrir nokkrum árum, hvort jeg vildi, að landið eignaðist Íslandsbanka. Jeg býst við, að jeg hafi svarað því svo, að meðan bankanum gekk vel og hann var vel stæður, þá hafi jeg viljað það. Nú tel jeg það óráð; best að láta hlutafjelagið bera áhættuna.

Þá talaði hv. þm. (JJ) um það, að það hefði veri vanrækslusynd af fyrv. stjórn að skipa ekki í bankastjórastöðurnar. Jeg hefi nú heyrt þetta fyr, að það hefði verið rjett af fyrv. stjórn að gera þetta, og líklega hefði það ekki verið óskemtilegt fyrir mig, sem altaf hefi átt að vera að trana gæðingum mínum og nánustu venslamönnum í feitar stöður, eftir því sem þessi hv. þm. (JJ) segir. En jeg skal taka það fram hjer, að jeg veit ekki til, að nokkur náinn venslamaður minn eða ættingi hafi fengið nokkra opinbera stöðu í minni ráðherratíð, nema ef telja skyldi það, að einn systursonur minn varð háseti á einu landssjóðsskipinu. Hvað viðvíkur bankastjóraskipuninni, þá taldi jeg mjer ekki rjett að skipa þá; það hlaut að hafa áhrif á skipunina, hvort landið tæki hluti í bankanum og eignaðist þannig bankann að meiri hluta, með öðrum orðum, banki þessi yrði og landsbanki. Og þótti mjer rjettast að láta núverandi stjórn hafa óbundnar hendur, er ráðið væri, hvort hlutir væru keyptir eða ekki. Jeg vildi í þessu máli, sem öðrum, gera það, sem mjer þótti rjettast, en jeg veit, að það þýðir ekki að segja hv. þm. þetta; hann trúir því ekki, því að honum er farið eins og sagt er um þá, sem þjófgefnir eru, að þeir halda, að allir steli. Hann heldur, að jeg hlynni að mjer sjálfum, af því að hann hefir svo ósleitilega skarað eld að sinni köku. (JJ: Hve nær hefi jeg hlynt að sjálfum mjer á opinberan kostnað?) Hvenær hefir þingmaðurinn hlynt að öðrum en sjálfum sjer? Sagði þm. það? Mjer heyrðist. Ja, því get jeg ekki svarað. Annars heyrðist mjer hæstv. forsrh. (SE) eitthvað minnast á það í einni ræðu.

Hv. þm. (JJ) er stuðningsmaður núverandi stjórnar, og hún hefir ekki enn skipað í embættin, svo þm. getur nú átt um þetta við sína eigin stjórn. En það er oft eins og þessi þm. sjái ekki aðra en mig, er hann þykist að einhverju þurfa að finna.

Þá taldi þessi hv. þm. (JJ) eftir þessi 6000 kr. eftirlaun til Sighvats Bjarnasonar. Honum þótti þau of há. Það má kanske deila um, hvort þau hafi átt að vera 5 eða 6 þús. En þessi maður hefir lengi verið í landsins þjónustu, og jeg efast um, að hann geti talist efnaður, eins og þm. tók fram. Annars mun hann vera einn uppi með að sjá eftir þessum eftirlaunum til þessa heiðursmanns, og þegar hann á næsta þingi ræður öllu einn, eins og hann hefir haft á orði, þá fer hann sjálfsagt að reyna að breyta þessu.

Jeg veit ekki, hvað veðið hefir verið hátt, sem Íslandsbanki setti í byrjun fyrir enska láninu (sínum hluta). Það má vera, að veð í víxlum hafi eigi verið meira en matsverð á enska láninu, en þar fyrir utan var skuld ríkissjóðs ca. ein miljón, sem telja má hafa verið og að veði. Það er annars ekkert nýtt með slíka víxla. Er Kaupmannahafnarbankarnir þurfa að fá seðla hjá Þjóðbankanum danska, þá fara þeir með víxla.

Þá talaði hv. þm. (JJ) um, að vextir Íslandsbanka væru hærri en hjá Landsbankanum. Þeir voru hærri fyrir þingið 1922, en þá fekk þáverandi stjórn loforð um vaxtalækkun, gegn ákveðinni breytingu á bankalögunum, sem þingið samþykti. Jeg veit ekki til, að önnur niðurfærsla hafi átt sjer stað síðan. Annarsstaðar fara vextir eftir því, hvort lánin eru áhættumikil eða ekki; þeir fara eftir tryggingum og mönnum, sem lánað er. Því er í raun og veru ekki undarlegt, þótt vextir Íslandsbanka sjeu eitthvað hærri. Nú munar, að jeg hygg, 1/2% á vöxtunum. Jeg hygg, að það sje nú svo, að áhætta Íslandsbanka sje ekki öllu minni en svo, í samanburði við Landsbankann, að hún samsvari vaxtamismuninum.

Mjer þykir leitt að þurfa að lengja mikið umræðumar um þetta mál, sem nú er orðið ómerkilegt. Hæstv. atvrh. (KIJ) hefir lýst yfir því, að skýrslan sje nú bráðum tilbúin. Að henni fær fjhn. aðgang, og býst jeg við, að nefndarmönnum geti orðið veðið fullljóst eftir henni, þótt þeir sjeu ekki allir bankamenn. Jeg vænti þess, að jeg þurfi ekki að halda langar tölur hjer eftir; jeg a heimtingu á því af hv. 5. landsk. þm. (JJ), að fá að vera óáreittur af honum sem stjórnandi, en sem þingmaður mun jeg engrar vægðar biðjast af honum.