23.04.1923
Efri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í D-deild Alþingistíðinda. (3152)

131. mál, tryggingar Íslandsbanka fyrir enska láninu

Sigurður Jónsson:

Það er með hálfum huga, að jeg kveð mjer hljóðs til að leggja orð í belg, því að fleirum en mjer mun þykja þessara umræður orðnar nokkuð langar, þótt jeg vilji eigi með þessum orðum setja ofan í við hv. samdeildarmenn mína.

Jeg vildi leyfa mjer að minnast á örfá atriði, sem hafa ekki verið dregin nógu rækilega fram, en þyrfti að skýra betur.

Jeg var ekki viðstaddur, þegar hv. 2. þm. G.-K. (BK) mintist á, hvernig tekið hefði verið í þetta mál á þingmálafundum. Jeg hefi líka rannsakað þetta nokkuð í sambandi við ýms ummæli, er fallið hafa hjer í hv. deild í sambandi við þetta mál. Tek jeg þingmálafundagerðirnar af handa hófi, þær sem hendi eru næstar, en ekki í neinni ákveðinni röð. Fyrst urðu fyrir mjer 4 fundargerðir úr Skagafjarðarsýslu, þar sem lýst er óánægju yfir afskiftaleysi stjórnarinnar gagnvart Íslandsbanka og er skorað á þingið að hlutast til um, að næg trygging sje fyrir enska láninu. Líkt þessu er víða í öðrum fundagerðum, og tekið oft svo til orða, að fundurinn lýsi „megnri óánægju“, „víti harðlega stjórn bankans“ o. s. frv. Úr Austur-Skaftafellssýslu eru 3 fundargerðir, 3 úr Mýrasýslu, er ætlast til, að þingið skifti sjer af málinu. Úr Eyjafirði eru 4 fundargerðir, og kemur þar fyrir orðatiltækið „megn óánægja“. Af sameiginlegum fundi fyrir báðar Múlasýslur og þingmálafundi fyrir Norður-Múlasýslu er sama að segja, og í Suður-Múlasýslu voru 2 fundir haldnir, á Nesi í Norðfirði og á Djúpavogi. Þar eru samþyktirnar einna harðorðastar og ákveðnastar. Þetta er þá umboð hv. 2. þm. S.-M. (SHK) frá kjósendum hans, og sjá hv. deildarmenn, hversu hann hefir farið með umboðið í þessu efni.

Jeg held því fram, að þrátt fyrir það, þótt Ólafur læknir Thorlacius sje Tíma maður, þá sje hann góður maður og greindur. Og þrátt fyrir það, þótt hann sje í tengdum við hæstv. forsrh. (SE), þá þorir hann samt að skora á stjórnina að láta rannsaka hag bankans. Hjer getur því varla verið fjandsamlegum persónulegum ástæðum til að dreifa.

Úr langflestum kjördæmum koma fram áskoranir um að athuga hag Íslandsbanka.

Jeg veit annars ekki betur en að það sje venjan, að Alþingi taki tillit til vilja kjósendanna úti um landið, enda fæ jeg ekki betur sjeð en það sje mjög eðlilegt. Rataðist hv. 1. þm. S.-M. (SHK) þar rjett orð af munni, er hann sagði, að þjóðin ætti rjett á að fá að vita, hvort nokkur hætta sje á ferðum. En þá veit jeg ekki, hvers vegna þessi hv. þm. (SHK) vill endilega spyrna gegn vilja kjósendanna í þessu efni. Það er ekki annað en þetta, sem till. fer fram á.

Sami hv. þm. (SHK) talaði um „yfirdrepskap“ og að till. okkar Framsóknarflokksmanna væri ekki fram komin af umhyggju fyrir hag bankans. Gaf hann það í skyn, að þetta ætti að vera kosningabeita. Það er undarleg ósamkvæmni hjá hv. þm. (SHK), að játa í öðru orðinu, að rjett sje að taka tillit til vilja kjósenda, en lá öðrum svo í hinu, að þeir gera það. Jeg skal fúslega játa, að ástæðan til, að jeg fylgi þessari till., er einmitt sú, meðal annars, að jeg veit, að þetta er vilji kjósendanna. Mönnum er orðið órótt út af bankanum, en vonandi að ástæðulausu, og býst jeg því við, að rannsóknin verði fremur til að gera bankanum gagn en hið gagnstæða.

Hjer ætti við að minnast þess, að samþykt var á þinginu 1918 till. um að rannsaka Landsverslunina, sem kom frá 10 þm. í Nd. Átti þetta áð ná til starfs ins „inn á við og út á við“. Þetta var stórmikið verk, þar sem veltan var þá um 20 miljónir króna, og fór svo, að nefndin skilaði aldrei áliti sínu. En ekki er sjáanlegt, að rannsókn þessi hafi neitt rýrt álit ríkisverslunarinnar.

Sama máli gegnir um rannsókn þá á Landsbankanum í tíð Björns heitins ráðherra, sem nefnd hefir verið. Bankinn beið engan hnekki af þeirri rannsókn. Þvert á móti. Eins gæti farið hjer, og líklegt, að svipað færi nú. Líklegt er líka, að svo færi nú, að sú fyrirhugaða nefnd manna gæti ekki skilað neinu áliti áður en þingi verður slitið. En það er ekki þetta, sem skilur á milli, heldur hitt, að við flm. viljum, að það sjeu trúnaðarmenn þingsins, sem hafi þessa rannsókn á hendi, en ekki aðrir. Það er þó ekki svo, að jeg vilji væna skýrslu góðra manna um að vera fölsk, en hitt verður þó betra og kemur að meiri notum. Mundi skýrsla slíkra manna geta orðið bankanum hinn mesti styrkur.

Hæstv. forsrh. (SE) gaf í skyn, að með þessu væri lýst vantrausti á bankanum. Svo er það ekki frá mínu sjónarmiði. Jeg hefi þá trú, að bankinn sje sterkur. Og því má þá almenningur ekki fá að vita það? Rjett frásögn um góðan hag bankans mundi aðeins verða til að auka traust hans bæði innanlands og utan.

Hv. 4. landsk. þm. (JM) talaði um það áðan, að það væri „loddaraleikur“, sem hjer væri á ferðinni. Því er þar til að svara af minni hálfu, að jeg hefi ekki lært sjónhverfingar. Annars er það ekki líkt þeim manni að hafa slík orð, og mun hann hafa verið kominn í mikinn hita. Kvað hann okkur í fjárhagsnefnd þessarar deildar ekki hafa neitt vit á bankamálum, og datt mjer þá í hug þetta, sem skáldið sagði forðum: Hafðu, bóndi minn, hægt um þig. Hver hefir skapað þig í kross?

Svo lítur út, sem sami hv. þm. (JM) hafi gleymt því, að hv. 2. þm. G.-K. (BK) er þó einn í nefndinni, sem kemur til að fjalla um málið, en varla býst jeg við, að hann telji þann mann ekki hafa neitt vit á bankamálum.

Jeg þarf svo ekki að fara fleiri orðum um þetta. Jeg hefi sýnt fram á það, að það er ekki rjett hermt, að fundagerðir þingmálafundanna úti um landið óski ekki eftir því, að slík rannsókn verði gerð. (BK: En af hverju stafar sá vilji kjósendanna?). Það kemur ekki málinu við. En vilji hv. þm., sem fram í tók, halda því fram, að það sje Tímanum að kenna, þá sýnir það þó, að hann muni vera sterkari en margur vill halda fram og jafnvel sterkari en Framsóknarmenn hafa þorað að vænta eftir í sínum djörfustu dagdraumum, og mun..(vantar letur).. ari en þessum hv. þm. mun kærkomið. (JJ: Hann er að minsta kosti sterkari en Moggadótið).

Jeg lýk svo máli mínu með því að taka það fram enn á ný, að þessi till. okkar er ekki fram flutt í því skyni að veikja bankann, heldur miklu fremur til að styrkja hann og afla almenningi rjetts álits á Íslandsbanka.