23.04.1923
Efri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í D-deild Alþingistíðinda. (3157)

131. mál, tryggingar Íslandsbanka fyrir enska láninu

Jón Magnússon:

Jeg gæti nú haft ástæðu til þess, eða jafnvel tilhneigingu, engu síður en sumir aðrir, að halda svo sem tveggja tíma ræðu. En jeg held, að jeg verði að hlífa deildarm. við slíku, enda munu þeir vera búnir að fá meira en nóg af því að hlusta á hv. 5. landsk. þm. (JJ). Það er heldur ekki ástæða til þess að fara langt út í ræðu hans, því síðari ræða hans var að mestu leyti endurtekning og útþynning á fyrri ræðunni. Hann var að ásaka mig um það, að ræða mín hefði verið sundurlaus. En mín ræða var alveg eins og hans eigin ræða gaf tilefni til, því hún var svar við henni að nokkru leyti, lið fyrir lið. Jeg skal nú aftur taka stuttlega til athugunar nokkur atriði úr seinni ræðu hans, sem mjer þykir helst ástæða til.

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) var að tala um það, að við ættum að hafa það eins og Danir, í þessu máli, við ættum að láta rannsaka eins og Danir, við ættum að gera alvarlegar ráðstafanir eins og Danir. Þetta er nú sagt annað veifið, en hitt veifið er altaf verið að fjargviðrast út af því, að alt of mikið sje hjer farið eftir því, sem Danir vilji og Danir geri. En sannleikurinn er nú sá um Dani í þessu máli, að aðrar þjóðir eru yfirleitt ekkert hrifnir af framkomu þeirra í því. T. d. er það í einu helsta viðskiftablaði þeirra nýlega haft eftir merkum, erlendum fjármálamanni, að honum þætti það allundarlegt, að Danir væru að básúna þetta bankahrun út um allar jarðir. Okkar bankar, segir hann, hafa líka tapað hundruðum miljóna, margir hverjir, á þessum árum, en við erum ekki að flagga neitt með því; við græðum ekkert á því.

Um gildi þeirrar rannsóknar, sem hjer er um að ræða, þarf jeg ekki að tala mikið meira en jeg hefi þegar gert. Ummælum þeirra hv. 5. landsk. þm. (JJ) og hv. 2. landsk. þm. (SJ) um þetta síðar, er að mestu svarað með því, sem sem jeg hefi áður sagt, og óþarfi í rauninni að endurtaka það. Það var óþarfi fyrir þá að styggjast við það, þótt jeg segði, að enginn hv. flm. aðaltillögunnar hefði vit á eða væri fær um að framkvæma þá rannsókn, er þessi tillaga fjallaði um. Jeg þarf hjer ekkert úr að draga. Til þess að geta framkvæmt þar verulega góða, hlutlausa og kritiska rannsókn þarf ekki einungis menn með meiri sjerþekkingu á bankamálum en nokkur hv. Framsóknarmanna hjer í deildinni hefir til brunns að bera, heldur líka menn með meiri kunnugleika á högum manna og háttum og viðskiftalífinu úti um alt land. Það er ekki nema einn þm. í deildinni, sem nú hefir verulega þekkingu á þessum bankamálum, sem sje hv. 2. þm. G.-K. (BK), og er þó ekki sagt, að hann treysti sjer til þess að framkvæma slíka rannsókn, sem hjer er um að ræða, á hálfum mánuði.

Hv. 2. landsk. þm. (SJ) var sjerstaklega að taka upp þykkjuna út af því, sem jeg sagði um þetta áðan, og virtist vilja láta menn skilja það, að hann treysti sjer að minsta kosti til þess að framkvæma þetta. Má vera, að það virðist hart að halda því fram, að hann, sem um stund — meðan hann var ráðherra — var skipaður yfir bankamálin, geti ekki framkvæmt nú slíka rannsókn. það mætti máske minna á það, er einhvern tíma var sagt, að þeim, sem guð gefi embætti, gefi hann líka vitið, en gefi hann ekki vitið, þá megi hafa fulltrúa í staðinn. En það mun sanni næst, að svo hafi verið um hv. 2. landsk. þm. (SJ) og mig og svo marga aðra ráðherra, að ekki höfum við haft fullkomlega vit á öllum þeim málum, er við vorum yfir settir.

Aðalatriðið í þessu er það, að til þess að geta framkvæmt að nokkru gagni þá rannsókn, sem hjer hefir oftast verið talað um, þarf „experta“, sjerfræðinga, en slíkir menn eru hjer fáir til. Annað mál er um rannsókn þá, sem breytingartillagan fer fram á. Til slíks þyrfti líka skemri tíma; en til hinnar rannsóknarinnar, sem t. d. hv. 5. landsk. þm. (JJ) talar oftast um, þyrfti miklu lengri tíma. (JJ: Hvað var Bjarni lengi?). Jeg má kanske skjóta því hjer inn í, að þessi hv. þm. (JJ) hefir hjer oft þann óþinglega sið, að kalla hv. þm. eiginnöfnum, og er einatt að grípa fram í ræður manna.

Jeg vil annars minna á það, sem jeg hefi áður tekið fram, að úr þessu rannsóknarmáli væri að verða loddaraleikur, eftir að hv. frsm. málsins í hv. Nd. (SvÓ) hafði lýst því yfir, að hann gæti eins vel verið með till. hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) eins og sinni eigin till.

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) var að furða sig á því, að jeg skyldi treysta hv. þm. Dala. (BJ) til þess að gefa rjetta skýrslu, af því að hann væri í öðrum flokki en jeg. En jeg er nú alls ekki svo, að jeg álíti alla menn óheiðarlega, þótt þeir sjeu ekki samflokksmenn mínir, þó að hv. 5. landsk. þm. (JJ) haldi ávalt um sína andstæðinga, að þeir hugsi og geri aldrei annað en alt ilt.

Öðrum atriðum í ræðu hv. þm. (JJ) þarf jeg varla að svara. Hann fór, alveg að ástæðulausu og óviðeigandi, að blanda veitingu lögreglustjóraembættisins inn í þetta. Sú veiting var þó í fullu samræmi við eldri veitingareglur í þessum efnum og ekki unt að ganga fram hjá þeim manni, sem veitt var staðan. Hann fór líka að tala um sýslumanninn í Húnavatnssýslu. Jeg þarf ekkert að verja hann, hv. 5. landsk. þm. (JJ) ætti heldur að gera það sjálfur, því jeg þekki fáa menn trúaðri á Tímann, og líklega hv. þm. (JJ), en þennan sýslumann. Hv, 5. landsk. þm. (JJ) ætla jeg þá ekki að svara fleiru, til viðbótar við fyrri ræðu mína. Jeg verð aðeins að segja það að endingu, að það er leitt að þurfa að vera að deila við menn, annars vegar þá, sem sjáandi ekki vilja sjá og heyrandi ekki heyra það, sem rjett er, en hins vegar við menn, sem eru heiðarlegir menn af sjálfum sjer, en leiddir á tálar af öðrum.