23.04.1923
Efri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í D-deild Alþingistíðinda. (3159)

131. mál, tryggingar Íslandsbanka fyrir enska láninu

Guðmundur Ólafsson:

Hjer hafa verið furðu fjörugar umræður og er búið að lýsa allrækilega mannkostum og vitsmunum Framsóknarflokksþingmanna.

Vil jeg fyrst víkja nokkrum orðum að hv. 2. þm. S.-M. (SHK). Jeg skal nú byrja á því að hæla honum fyrir það, að þótt ræða hans nú væri ekki neitt tiltakanlega kurteis, þá var hún þó hálfu orðfínni en sú, sem hann flutti hjer í gær.

Hann kallaði till. okkar ofsókn á bankann, gerða í illum tilgangi, og að við þingmennirnir hefðum skipað kjósendum að krefjast þess á þingmálafundum, að bankinn væri rannsakaður. Sjá allir, hve viðurkvæmilegt það er af þingmanni, að bera okkur þessar sakir á brýn, að við viljum eyðileggja þessa stofnun og gerum þetta til að afla okkur fylgis og hafa það sem kosningaagn. Það eru líka mjög lofsamleg þessi ummæli um þjóðina eða kjósendurna, að hún muni hlaupa til og kjósa þessa menn, sem bera þessa fallegu hugsun í brjósti. Mundu öll þessi orð, ef þau kæmu óbreytt í þingtíðindunum, sýna vel, hver málstaðurinn hefði verið betri og hverjir hefðu farið með meiri stillingu og skynsemd í málið, en það verður líklega einhverju af þeim slept. Er einkennilegt veður þessara manna út af þessari nefndarskipun. Fjöldi manna er í vafa eða veit ekkert um hag bankans, og það er ekki nema eðlilegt, að þeir óski að fá vitneskju um þetta. Er þess og að gæta, að þótt allir bæru fult traust til þeirrar nefndar, er rannsakaði bankann, þá er fult ár síðan, og margt getur breyst á skemmri tíma.

Hv. þm. (SHK) sagði, að nú væri búið að skipa tvo bankastjóra. Þetta er ekki rjett; þeir eru aðeins settir, og aðstaða þeirra er því alt önnur en ef þeir væru skipaðir.

Þá sagði hv. þm. (SHK), að sig hálflangaði nú til að samþykkja þessa till. okkar, en hann gæti það ekki sökum þess, að þeir menn, sem nefndina mundu skipa og sendir væru inn í bankann, væru fjandmenn hans, kjaftaskúmar og blekbullarar. Jeg vil nú spyrja hv. þm. (SHK), hver tegund af þessum þremur það mundi verða, sem hans flokkur mundi kjósa í nefndina.

Hv. 4. landsk. þm. (JM) vildi ekki kannast við það, að hann hefði sagt, að Framsóknarflokkurinn hefði ekkert vit á þessum málum. Hann sagði það þó, þótt hann þori ef til vill ekki nú að standa við það. Enn fremur sagði hann, að fjárhagsnefnd hefði ekkert vit á þessu, og þykir mjer þá skörin vera farin að færast upp í bekkinn. Þar sitja þó 5 menn, og þar á meðal fyrv. bankastjóri (BK), hv. 2. þm. S.-M. (SHK) og svo lögfræðingur, eins og hann er sjálfur, en ekki nema 2 fávísir bændur í nefndinni. Hefir hingað til ekki þurft að maður væri nema lögfræðingur til þess að eiga opna leið að bankanum sem bankastjóri. Hefir enn ekki verið heimtuð meiri bankaspeki hjer.

Hæstv. forsrh. (SE) gladdist mjög yfir því, að tíminn væri nú útrunninn. En þetta er beinlínis honum sjálfum að kenna. Hann hefir dregið málið, sem líka er eðlilegt, þar sem hann hefir altaf verið á móti því, að nokkuð væri athugað um hag bankans.

Þó að komnar sjeu fram upplýsingar um það hjer í deildinni, að þingmenn sjeu ekki færir um þá athugun á hag bankans, sem hjer er farið fram á í till., þá hygg jeg þó, að þeir geti jafnast við hv. þm. Dala. (BJ) til þessa starfs, sbr. skýrslu hans um bankann.

Jeg er hræddur um, að það verði erfitt að telja þjóðinni trú um, að Framsóknarflokkurinn beri þetta mál fram í þeim tilgangi að afla sjer fylgis við næstu kosningar eða til þess að koma Íslandsbanka fyrir kattarnef. Verst, að þetta kemur ekki í þingtíðindunum. (SHK: það, sem jeg hefi sagt, kemur alt). Hv. þm. getur ekki fullyrt það, enda yrðu þingtíðindin þá ljót.

Hæstv. forsrh. (SE) sagði, að alt þetta umtal um bankann í blöðunum hefði borist út úr landinu og skaðað bankann. Er það nú víst, að erlendis sje meira mark tekið á blöðunum en áliti 5 manna nefndarinnar frá 1921?

Jeg þakka hv. þm. þeirra góðu tilgátur í minn garð og meðflutningsmanna minna.

Hv. 4. landsk. þm. (JM) endaði ræðu sína með þeirri góðgjörnu ályktun, að við Framsóknarflokksmenn hefðum verið dregnir á tálar til þess að bera fram þessa tillögu. Þetta er í fullu samræmi við það, sem hann sagði áður um vitsmuni þessara þingmanna og hv. fjárhagsnefndar, þótt hann að vísu væri hóflegri og mildari í síðari ræðu sinni.