08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í D-deild Alþingistíðinda. (3165)

119. mál, verslunarsamningur við Rússland

Flm. (Jón Baldvinsson):

Undir umræðunum um fjárlögin á síðasta þingi vjek jeg stuttlega að því, hvort hæstv. landsstjórn vildi ekki leitast eftir því, hvort hægt væri að komast að samningum við Rússland um sölu á fiski og síld. Norðmenn höfðu þá nýlega selt afarmikið af síld og saltfiski til Rússlands, og höfðu þá þegar gert verslunarsamning við rússneska lýðríkið.

Hæstv. atvinnumálaráðherra tók þá vel undir þetta. Hann hafði kynt sjer sölusamning Norðmanna og Rússa og ljet í ljós, að hjer væri um hagfeldan samning að ræða fyrir Norðmenn. Og honum sýndust hjer einnig möguleikar fyrir fiskmarkað. En hvort hæstv. stjórn hefir nokkuð frekar gert í þessu máli, er mjer ekki kunnugt; en hitt þykist jeg mega fullyrða, að enn þá sjeu ekki til neinir verslunarsamningar milli Íslands og Rússlands.

Árið 1921 tók danska stjórnin upp samningatilraunir við Rússland. En þeim samningatilraunum var hætt seint á því ári. Var því um kent, að kröfur Rússa hafi verið svo harðar, að ekki hafi þótt gerlegt að ganga að þeim. En í dönskum blöðum hefi jeg sjeð því um kent, að danskir mikilsmegandi kaupsýslumenn hafi lagst fast á móti þessum samningatilraunum, og svo ýmsir útlægir áhangendur gömlu keisarastjórnarinnar í Rússlandi, sem ekki vildu af því vita, að rússneska sovjetstjórnin væri viðurkend, með því að gera við hana samninga.

Í vetur fitjuðu Danir aftur upp á slíkum samningi, og fyrir skömmu er komin fregn frá Danmörku um, að samningar hafi komist á milli Dana og Rússa.

Í þessum samningum hinna ýmsu ríkja við Rússland hefir mesta deiluefnið verið um hinar gömlu ríkisskuldir og um eignir þeirra manna og fjelaga útlendra, sem gerðar hafa verið upptækar. Um þetta vilja Rússar ekki semja við neina einstaka þjóð, heldur skipa þessum málum síðar, og gildi þá hið sama um allar þjóðir. En þrátt fyrir það, að ekki hefir tekist að ná samkomulagi um þetta, hafa samt verið gerðir verslunarsamningar við Rússland af mörgum ríkjum, eins og áður er sagt.

Engin þess háttar deiluefni ættu að þurfa að tefja fyrir því, að við gerðum verslunarsamning við Rússa. Íslenska ríkið á ekki, eða íslenskir þegnar, svo jeg viti til, neinar fjárkröfur á hendur þeim. Og jeg gæti trúað, að við gætum sloppið við mörg hin flóknu ákvæði milliríkjasamninga um fulltrúa og sendisveitir, því ekki geri jeg ráð fyrir því, að við hefðum þar fastan fulltrúa eða sendiherra.

En hvað sem um það er, verðum við að ná samningi við Rússland, ef við eigum að geta haft við það nokkur verslunarviðskifti; því sovjetstjórnin mun fylgja fast fram því, að hafa hvorki nje leyfa nokkur viðskifti við þau ríki, sem ekki hafa við hana samninga.

Um það kann nú að verða spurt, hvaða gagn við getum haft af verslun við Rússland. Hvort líkur sjeu fyrir því, að við getum selt þangað nokkuð af framleiðslu okkar, og þá hvort líkur sjeu til, að svo gott verð fáist, að slík verslun borgi sig.

Það efast nú líklega enginn um það, að við höfum fulla þörf á því að fá markað í Rússlandi fyrir vörur okkar. Menn eru að tala um, að nauðsyn beri til að takmarka síldveiði Íslendinga vegna þess, að við getum ekki selt nærri alt, sem við getum veitt. Fróðir menn þar um hafa fullyrt, að sá markaður, sem nú er fyrir íslenska síld, geti ekki tekið við miklu meiru en 200 þús. tunnum. Og ef meira sje á boðstólum, hrapi verðið niður úr öllu valdi. En Rússland er stórt og mannmargt. Þangað hafa Norðmenn selt afarmikið af síld. Og hví skyldu Íslendingar ekki alveg eins geta selt þangað sína síld, sem þar að auki er miklu betri verslunarvara ? Og næðum við þar fótfestu, væri engin hætta á því, að við mættum ekki veiða eins mikið og við gætum, af ótta við það, að geta ekki selt. Það væri heldur engin vanþörf að reyna að útvega nýjan markað fyrir saltfiskinn. Eftir því kappi, sem flestar þjóðir leggja nú á fiskiveiðarnar, þá fer áreiðanlega að verða þrengra um sölu á gömlum slóðum. Og eftir því sem íslenski fiskiflotinn eykst og veiðin þar af leiðandi meiri, þá getur hið sama borið að og um síldina. Þess vegna þurfum við að leggja alt kapp á að hafa sem víðast markað. Þing og stjórn virðist líka vera á þessari skoðun, þar sem nú er árs árlega veitt fje í þessu skyni.

Það væri misskilningur, ef menn ímynduðu sjer, að Rússar vildu ekki kaupa nema hinar lökustu og ódýrustu vörutegundirnar og að þeir leggi aðaláhersluna á verðið, en ekki gæðin. Þeir vilja auðvitað fá sem allra besta vöru, og um verðið fer náttúrlega eins og gengur og gerist. Sá, sem selur, vill fá sem hæst verð, og hinn, sem kaupir, vill borga það allra minsta, sem hann kemst af með.

Jeg hefi heyrt marga segja, að þótt Rússar vildu kaupa, þá gætu þeir ekki borgað. Það mun nú sennilega vera rjett, að þeir mundu ekki geta borgað í gulli. En þeir hafa vörur til að borga með. Þar á meðal vörur, sem við kaupum og notum mikið af, svo sem er rúgur og timbur. Vöruskifti gætu því átt sjer stað. Rússar ætla sjer t. d. á þessu ári að flytja út um 80 þús. smálestir af rúgi. Og rússneski rúgurinn er alkunn ágætisvara, miklu betri en hinn hálfþroskaði danski rúgur, sem við kaupum hingað malaðan.

Eins og menn ef til vill vita, hefir rússneska stjórnin á hendi alla verslun ríkisins, bæði út- og innflutning. Og hún mun líka helst kjósa að gera viðskifti við ríki eða stofnanir, sem hafa á sjer opinberan blæ. Henni þykir það meiri trygging fyrir því, að ekki sjeu brögð höfð í frammi. Og gæti jeg því langhelst trúað, að ef við hefðum við þá einhver viðskifti, þyrfti það að vera að opinberri tilstuðlan.

Annars býst jeg ekki við, að Rússum sje það neitt keppikefli að gera við okkur samninga. Við höfum svo fátt að bjóða, sem þeir geta ekki fengið annarsstaðar. Og framleiðsla okkar er það smáræði fyrir þarfir hinnar mannmörgu þjóðar. Fyrir þá eru t. d. 100 þúsund tunnur af síld lítilræði. Okkur munar þetta ákaflega miklu.

Jeg lít svo á, að það sje í okkar þágu, að verslunarsamningur við Rússa komist á, svo hægt sje að fara að vinna að því, að viðskifti hefjist.

Í tillögunni er eðlilega ekkert á það minst, á hvern hátt slíku verslunarsambandi verði komið á, en jeg tel það sjálfsögðustu leiðina, að íslenskur maður eða menn verði sendir til Rússlands í þessum erindum. Þeir geta af meiri kunnugleik um talað en útlendir menn, sem ekki eru kunnugir högum vorum nje háttum.