08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í D-deild Alþingistíðinda. (3167)

119. mál, verslunarsamningur við Rússland

Jón Auðunn Jónsson:

Hv. flm. (JB) gat þess, að nú væri kominn á verslunarsamningur milli Rússa og því nær allra landa Evrópu. Hjelt jeg, að hv. þm. (JB) hefði sjeð það, sem skrifað var frá Rússlandi, þegar danska nefndin fór þangað til þess að semja. Er það haft eftir Litvinoff, að aðeins Eistland og Þýskaland, og Noregur að nokkru leyti, hafi gert samninga við Rússland. Er þetta birt í Berlingske Tidende síðast í mars.

Jeg tel í sjálfu sjer ekkert á móti því að gera samning við Rússland, en jeg hygg lítið upp úr því að hafa fjárhagslega. Hv. flm. (JB) benti rjettilega á það, að samningarnir hefðu verið Norðmönnum mjög til hagsbóta. En það stóð alveg sjerstaklega á, þegar Norðmenn sömdu. Þeir áttu þá hátt upp undir miljón tunnur af síld. Settu þeir nokkuð af henni í bræðslu, en seldu hitt til Rússlands. Rússar keyptu um 230 þús. tunnur á 10–15 kr. tunnuna, en Norðmenn skuldbundu sig til þess að útvega skip til flutnings gegn hæfilegu farmgjaldi. Slík sala hefði ekki verið til hagsbóta fyrir okkur, þó að hún hafi verið það fyrir Norðmenn, því að hæsta sala fob í Noregi var 151/2 kr. tunnan af vorsíld, en við höfum eigi selt til Svíþjóðar fyrir minna en 23 aura danska pr. kg. undanfarið.

Hvað fiskinn snertir, þá kaupa Rússar eigi annan fisk en norskan fisk frá Finnmörk, og það eingöngu ljelega vöru. Nú er afarmikill afli þar um slóðir, bæði af ufsa, keilu og smáfiski. En það er mjög lítið um fiskinn skeytt og hann illa verkaður. Fyrir þennan fisk gáfu Rússar í fyrravor um 4–7 aura kg. Nefnd sú, sem keypti fiskinn fyrir Rússa, taldi það mjög leiðinlegt, að geta ekki keypt betri vöru, en þeir sögðu, að enginn markaður væri fyrir hana í landinu. Enda munu menn hafa heyrt það, að „vrag“-fiskur er í Noregi kallaður Rússafiskur. Menn mega því ekki halda, að nú sem stendur sjeu nokkrir hagsmunir í veði fyrir okkur, hvort sem við semjum við Rússa eða ekki. Hins vegar sje jeg ekkert því til fyrirstöðu, að gerður sje við þá verslunarsamningur. Það þarf ekki að verða okkur til tjóns á nokkurn hátt.

Það, sem aðallega knúði Dani til að semja við Rússa, var, að ýmsir danskir iðnrekendur og verslunarmenn eiga mjög miklar eignir í Rússlandi, sem þeir hafa engin not haft af síðan byltingin varð þar, þangað til nú, að þeir vonast eftir að fá yfirráð yfir þessum eignum, þegar verslunarsamningur er gerður með þjóðunum. Að öðru leyti hafa Danir einnig talsvert að selja Rússum, og hafa gert, enda þótt enginn verslunarsamningur hafi verið gerður milli stjórnanna. T. d. seldu þeir Rússum í fyrra talsvert af landbúnaðarvjelum og verkfærum, og svo fræi.

Eins og jeg tók fram, hygg jeg, að ekki komi til mála, að við getum selt Rússum neitt að ráði af afurðum okkar. Til þess eru þær of dýrar og um of langan veg að flytja, borið saman við Noreg til dæmis.