08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í D-deild Alþingistíðinda. (3168)

119. mál, verslunarsamningur við Rússland

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg held, að hv. þm. Ísaf. (JAJ) hafi misskilið talsvert í máli þessu. Hjer er ekki að ræða um stjórnmálasamning, enda hefir að eins eitt ríki álfunnar gert slíkan samning við Rússa. En mjög mörg þeirra hafa þegar gert verslunarsamning, og er það ekki sama og að viðurkenna stjórn þeirra að lögum. Hafa Rússar látið sjer það lynda, enda er hin raunverulega viðurkenning fólgin í viðskiftum milli þjóðanna.

Þá gerir sami hv. þm. (JAJ) lítið úr hagnaði þeim, sem við hefðum af verslunarsamningi við Rússa. Er ekki nema eðlilegt, að hann líti svo á það mál, þar sem hann telur þá ekki vilja kaupa annað en úrkast, og það höfum við ekki á boðstólum. En ef þeir vilja kaupa á annað borð, hví skyldu þeir þá ekki heldur vilja betri vöru en lakari? Það fæ jeg ekki skilið, og jeg efast ekki um, að hægt verði að fá tiltölulega hærra verð fyrir betri vöru þar sem annarsstaðar. Nei, meinið er, að ekkert hefir verið gert til að útvega nýja markaði fyrir sjávarafurðir okkar, nema það, að sendur var maður síðastl. vetur til Suður- Ameríku.

Og við megum ekki negla okkur við þá fordóma, að Rússar geti ekki etið nema úrkast, sem aðrir vilja ekki. Við vitum það eitt, að þetta er feikna fólksmörg þjóð, og því ómögulegt að segja, nema hún kaupi eitthvað af afurðum okkar. (JAJ: Hvað segir reynsla Norðmanna?). Já, vel á minst. Þar fór þm. (JAJ) með tóma vitleysu. Jeg hefi hjer við hendina þingtíðindin frá síðasta þingi, þar sem hæstv. atvrh. (KIJ) fór nokkrum orðum um norska samninginn við Rússland. Ráðherrann segir svo m. a.:

„Mjer hefir nýlega borist í hendur hið alþekta norska blað, „Tidens Tegn“. Stendur þar, að Noregur hafi fullgert samninga við Rússland um að selja því 100000 tunnur af stórsíld á 27 kr. tunnuna fob, 300000 tunnur af vorsíld á 20 kr. tunnuna fob, og 20 milj. kg. af saltfiski, verkuðum eins og Rússar vilja hafa hann, á 40 og 35 aura kg. fob og án umbúða. Blaðið segir, að alls muni þessi sala nema 161/2 milj. kr. Það er því auðsjeð, að hjer er um mikinn samning að ræða og hagfeldan fyrir Noreg“.

Af þessu má sjá, að það er rangt hjá hv. þm. Ísaf. (JAJ), að Norðmenn hafi selt fyrir 10–15 kr. tunnuna. Og ef við höfum selt mest af okkar síld fyrir 22 kr. danskar, þá hafa Norðmenn engan veginn gert verri kaup við Rússann.

Blekkingar þessa hv. þm. (JAJ) eru því auðsæjar. Eru þær leifar af gömlum fordómum, sem smámsaman þokast burt, því erfitt mun til lengdar að útiloka frá umheiminum jafnmargar miljónir manna og Rússland byggja, þó að það hafi verið gert að mestu um langt skeið, og enda Þýskaland líka.

Jeg hygg, að við gætum haft óbeinan hagnað af því að selja Rússum síld, jafnvel þó að þeir borguðu ekki jafnmikið sem Svíar, því ef við sendum síld til Rússlands, þá minkar framboðið á sænska markaðinum, og síður hætta á, að verðið fjelli þar úr hófi fram.