16.04.1923
Sameinað þing: 3. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í D-deild Alþingistíðinda. (3174)

128. mál, héraðsskóli á suðurlandsundirlendinu

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Það er álit margra manna, að skólabáknið í landinu sje vaxið þjóðinni yfir höfuð eins og nú er komið, og að kenslumenning æskulýðsins komi ekki að þeim notum, er til mætti ætlast. Kann það að þykja undarlegt, að jeg, sem gerist nú flutningsmaður þess, að enn sje stofnað til skóla í viðbót, skuli þó vera meðal þeirra, er telja ofvöxt í skólakerfinu.

Að minni hyggju er það megingallinn, hve mikið af skólamentuninni er orðið handahófsmentun. Sjermentaskólarnir eru ekki nema fyrir fáa, og eiga ekki að vera nema fyrir fáa, en alþýðumentunin, sem svo mjög hefir dregist úr sveitum til kaupstaðanna, og þá einkum til Reykjavíkur, virðist meir hafa orðið til þess að dreifa og veikja en sameina og styrkja þann þjóðernishug og þær gáfur, er ungu fólki búa í brjósti, þegar leitað er á burt úr foreldrahúsunum til aukins mentaþroska. Það er þannig orðin sannfæring margra til sveitanna, er byggist á dýrkeyptri reynslu margra sveitaheimila, margra foreldra, að öll þessi alþýðumentun, þessi farandmentun, stefnulaust bóknám, eitthvað út í bláinn, með kaupstaðaráhrifum, miður hollum að mörgu leyti, sje einhver drýgsti þátturinn í losinu, dreifingunni, aðgerðaleysinu, er nú ógnar öllum landslýð. — En æskulýðurinn vill fara að heiman, hvað sem það kostar, og leita sjer mentunar, og víða er ekki í önnur hús að venda en þessa handahófsskóla, flesta í kaupstöðunum, alla langt frá föðurhúsunum; á þetta að öllu leyti við um sveitaheimili á Suðurlandsundirlendinu, því eins og kunnugt er, eru þar engir skólar, aðrir en nokkrir barnaskólar.

Alþýðan víðs vegar um sveitir landsins hefir nú kvatt sjer hljóð og heimtar lagfæringu í þessum efnum, og leitar hennar með þeirri rökfærslu, að á sama hátt og háskólinn þarf sanna vísindamenn fyrir kennara, svo að hinir lærðu menn framtíðarinnar geti kallast sannmentaðir menn, og kennarar stýrimannaskólans þurfa að bera gott skyn á siglingafræði, til þess að kenslan svari tilganginum þar, svo þurfi alþýðumentun til sveita að vera í fullu samræmi við þroskaþörf bændastjettarinnar. Alþýðumentun unglinga til sveita þarf því að sníðast eftir lifnaðarháttum, starfsháttum og hugsunarhætti bændalýðsins, öllu eins og það ætti að vera. Með þessari alþýðumentun framtíðarinnar á alt að leita síns markmiðs, horfa til andlegs og veraldlegs þroska, en ekkert að kenna tilgangslaust eða hugsunarlaust, eins og nú brennur um of víða við.

Samkvæmt þessu á alþýðumentun hinna ungu til sveita að veitast í sveitunum sjálfum, í hjeraðaskólunum fyrirhuguðu, þar sem góður og víðsýnn kennari blæs nemendunum þeim anda í brjóst, er verður lífsandi farsællar bændastjettar í framtíðinni. Eiga hjeraðsskólarnir á þennan hátt að verða einskonar tákn hinnar þjóðlegu viðreisnar. Enginn unglingur að týnast, því síður nokkur góð hugsun að týnast, alt að taka framförum og fólkinu að fjölga í sveitunum.

Á þessu viðreisnarstarfi er þegar byrjað, þótt skemra sje á veg komið en skyldi. Eiðaskólinn ber þess ljósan vott, að vel er á stað farið.

Nú eru það einkum tvö hjerað, er hafa gert alþýðuskólastofnun að áhugamáli sínu, Þingeyingar annars vegar, en Sunnlendingar, bygðarlögin hjer austan heiðar, hins vegar. Aðstaðan er að sumu leyti lík, en að öðru leyti ólík; hvorirtveggja hafa safnað allmiklu fje til skólanna, Sunnlendingar þó vissulega miklu meiru. Með fjárloforðum sínum til hjeraðsskólans, sem jeg veit, að þeir munu standa við, er á reynir, sýna þeir og sanna, hve mikið þeir vilja leggja í sölurnar til að koma áhugamáli sínu í framkvæmd. Hjeraðsskólinn er þar vissulega alment áhugamál, ekki síður glöggra og gætinna manna en hinna. Að fjársöfnun og almennum áhuga geri jeg því ráð fyrir, að Sunnlendingar sjeu komnir spöl lengra í þessu máli en Þingeyingarnir, en hins vegar er staðurinn ekki ákveðinn og maðurinn ekki fundinn, eða að minsta kosti ekki ákveðinn, til að veita skólanum forstöðu. Þar standa Þingeyingarnir betur að vígi, og það fylkir þeim fram fyrir okkur Sunnlendinga, er til fjárlaganna kemur, sem þingið hefir nú til meðferðar. Í Þingeyjarsýslu hefir alþýðumentun um langt skeið verið í tiltölulega góðu horfi, — best hjer á landi —, hún hefir borið þeim mikla ávexti. Það er, að ætlun minni, alþýðumentun Þingeyinga og engu öðru að þakka, hve framarlega þeir hafa komist á mörgum sviðum þjóðlífsins á síðari áratugum; það er henni að þakka, hve margir bændur þar nyrðra hafa orðið þjóðkunn skáld, og hún á drjúgan þátt í því, hve þeir, þingeysku bændurnir, hafa komist tiltölulega lengra en aðrir bændur landsins í pólitiskri starfsemi nú hið síðasta, og nægir þar að nefna það, að tveir þeirra hafa náð ráðherradómi.

Þingeyingar æskja því hjeraðsskólans, af því að þeim er það ljóst af reynslunni, hvað aukin mentun, enn þá meiri alþýðumentun, er holl, þegar hún er heimafengin. Þeir eru lengst komnir, en vilja komast lengra. Sunnlendingar æskja hjeraðsskólans aftur á móti fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að þeim er það ljóst, hvað vantandi alþýðumentun til sveitanna er lamandi í samkepni lífsins og háskasamleg fyrir framtíð Suðurlands.

Það er annars merkilegt, að Suðurlandsundirlendið og fjalllendissveitirnar, sem að því snúa, þetta langstærsta og veglegasta hjerað landsins, sem ætlað er að taka svo margskonar stakkaskiftum í nýbreytni búnaðarmálanna og samgöngumálanna, skuli vera jafnherfilega afskift, að því er skólahald og sveitamentun snertir, og raun er á. — Í Borgarfirði er myndarlegur bændaskóli og einnig alþýðuskóli, í Dalasýslu var lengi búnaðarskóli, nú mun þar og víðar vestra vera alþýðuskóli í sveit, er nýtur nokkurs ríkisstyrks; á Blönduósi er kvennaskóli, á Hólum í Hjaltadal bændaskóli, á Möðruvöllum í Hörgárdal var þjóðkunnur alþýðuskóli, er að vísu fluttist til Akureyrar, en nýtur sín þar tiltölulega vel til menningar unglingum úr sveit, þótt í kaupstað sje; á Laugalandi í Eyjafirði var kvennaskóli; um Þingeyjarsýslu þarf ekki að tala, og hvað Austfirði snertir, er nóg að nefna Eiðar. Um Suðurland austan Hellisheiðar er öðru máli að gegna. Til forna vora þar hin ágætustu mentasetur, svo sem Haukadalur, Oddi og Skálholt, en eftir að Skálholtsskóli lagðist í auðn, og síðan er á annað hundrað ár, hefir engin mentastofnun, nema ef vera skyldu barnaskólar í kauptúnum, sjest á Suðurlandsundirlendinu. Höfuðstaðaráhrifin, með kostum sínum og stórgöllum, hafa sogað sunnlenska menning til sín.

Á þessu verður nú að ráða bráða bót, og er hjeraðsskólabeiðni Sunnlendinga jafnt nauðsynjakrafa sem rjettlætiskrafa. Þeir eiga meiri rjett á alþjóðarstyrk til alþýðuskóla en nokkurt annað bygðarlag. Þeir hafa langa lengi verið settir hjá, og hjeraðsskólinn hjer fyrir austan á að verða útvörður sveitamenningarinnar gagnvart þeirri stórbæjatísku, er kaupstaðirnir draga nú meir og meir dám af, og þar er til mests að vinna á Suðurlandsundirlendinu, sem höfuðstaðurinn á svo greiðan aðgang að það er allra vilji austanfjalls, að varleg í og haglega verði sótt fram til sigurs í þessu máli. Mönnum er augljóst, að ekki nægir að fá skólanefnu með einhverjum kennara. Skólinn þarf að vera á hagkvæmum stað, haganlega gerður og umfram alt hafa á að skipa góðum kenslukröftum; afla sjer lærðra, víðsýnna og þjóðlegra kennara, og einkum forstöðumanns, annars kann að verða ver farið en heima setið.

Til þess nú að allur þessi nauðsynlegi undirbúningur verði gerður, er sjálfsagt, að þeir, sem eiga að fylgja málinu eftir af hálfu hjeraðsmanna, undirbúningsnefndirnar, er kosnar hafa verið í austursýslunum, og landsstjórnin, er á einnig að flýta framkvæmd svona góðs máls, taki höndum saman og búi skólamálið faglega í hendurnar á næsta þingi, en þá á það að vinnast fram til sigurs. Í þessu skyni er tillaga þessi komin fram.

Það er óþarft að eyða mörgum orðum að tillögunni sjálfri. Jeg hefi leitast við að sýna fram á, hví hún er fram komin og fyrir hverskonar máli hún á að greiða; það er nægilegt. Vonandi verða Sunnlendingar sammála um skólasetrið, þegar á hólminn kemur, en ágæt trygging fyrir, að ágreiningur í þeim efnum tefji ekki málið nje spilli því, er að fela landsstjórninni sjálfri þá ákvörðun, í samráði við hjeraðsfulltrúana. Á þeirri samkomu gleymist öll hreppapólitík, en alt miðast við hagkvæmustu niðurstöðuna. Þá er og óhjákvæmilegt að gera áætlun um gerð og skipulag skólans nú sem bráðast; þar hefir ríkið fagmönnum á að skipa, og ættu þeir, í samráði við fulltrúana austan að, auðveldlega að geta áætlað stofnkostnað o. s. frv., svo að færi nærri sanni, en slík áætlun er nauðsynleg áður en lengra er farið. Þegar staðurinn er ákveðinn, kostnaðaráætlun gerð og fjársöfnun hjeraðsmanna trygð, er komið í það horf, að sá eða þeir, er hlutaðeigendur vildu helst aðhyllast sem væntanlega kennara, gætu gefið svör, jafnframt því sem styrkurinn yrði veittur úr ríkissjóði, en tillaga þessi er vonarbrjef um, að það verði gert á næsta þingi, ef fjárhagurinn leyfir á nokkum hátt, og jeg vil segja, að hann leyfi fátt, ef ekki þetta, þótt Sunnlendingar hafi notið mikillar hjálpar úr landssjóði til margra verklegra efna — stundum að vísu til áhættusamra tilrauna — hafa þeir verið afskiftir um alla hjálp til skólamentunar heima fyrir, og nú er að bæta þeim það. Og viss er jeg um, að óhætt er að greiða fje úr ríkissjóði til að bæta hinn andlega jarðveg æskulýðsins austanfjalls; það er ekki að óttast rangar áætlanir nje þá „Skeiðaklöpp“, er vart verði á unnið og geri fyrirtækið svo fjarskalega torsótt eða vafasamt, hvort það muni svara kostnaði.

Að síðustu skal jeg taka það fram að hv. þm. er óhætt að samþykkja tillöguna þeirra hluta vegna, að þeir binda hinu nýja þingi engar óeðlilegar kvaðir á herðar. Þeir, sem samþykkja nú, lýsa aðeins velþóknun á málinu og svona löguðum undirbúningi og ætlast til, að það vinnist fram til fulls sigurs á næsta þingi, ef ástæðurnar leyfa; er það nógur varnagli, en sómi hverjum þingmanni að rjetta svona góðu máli hjálparhönd.