11.05.1923
Sameinað þing: 6. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í D-deild Alþingistíðinda. (3182)

161. mál, bannlögin

Flm. (Magnús Jónsson):

Þegar till. þessi er skoðuð í sambandi við umræður þær, sem farið hafa fram um undanþáguna frá bannlögunum á tveim þingum, þá talar hún í raun rjettri fyrir sjer sjálf. Jeg get því verið mjög fáorður.

Það mun, held jeg, vera nokkurn veginn samróma álit, að undanþágan, sem veitt hefir verið frá aðflutningsbannslögunum, hafi ekki verið æskileg, eins og hún var til komin, og að hún hafi ekki getað sýnt rjettan þingvilja um málið sjálft, heldur hafi hún verið neyðarúrræði, sem gripið var til sakir lífsnauðsynjar. Þessi undanþága hefir, rjett á litið, slegið vopnin jafnt úr höndum beggja aðilja þessa máls, bannmanna, sem með henni hafa mist nokkuð af því, sem þeir höfðu náð, og andbanninga, sem án efa vildu berjast fyrir afnámi bannlaganna að frjálsum þjóðarvilja. Hljóta því allir góðir menn að vera óánægðir með þessi úrslit, sem orðin eru.

Á máli þessu eru tvær hliðar. önnur veit inn á við, að okkur sjálfum, og það er hún, sem hefir ráðið úrslitunum. Hana er ekki til neins að draga inn í þessar umræður. Það er afgert mál, sem ekki verður aðgert að sinni. Við höfum greitt okkar lausnargjald til þess að leitast við að vernda fjárhagslegt sjálfstæði.

En hin hliðin snýr út á við. Ísland er einmitt í þessu máli í nokkurskonar brennidepli. Í þessu máli hefir verið og verður eftir því tekið úti um heim, hvar sem um vínbannsmálið er rætt og ritað, og það er víða. Þetta er ekki lítilsvert atriði. Sumum hefir jafnvel fundist það vera stærsta atriðið. Það er þessi hlið málsins, sem tillagan snertir.

Nú má að vísu vita, að allir sanngjarnir menn hafa sjeð, að hjer var um neyðarvörn að ræða og annað ekki. Í augum þeirra er þetta ekki okkur til meiri vansa en það er yfirleitt að verða fyrir ofbeldi annars, sem sterkari er. Ef sterkur maður misþyrmir konu eða fulltíða maður barni, þykir það hans skömm, en ekki konunnar eða barnsins, sem fyrir verður. Svo er og um þau viðskifti, er stærri og sterkari þjóð býður smáþjóð birginn, hvort sem gert er með vopnum eða öðru. Þá hefir og Alþingi í raun rjettri lýst því sama yfir, sem í tillögunni stendur, með því að haga atkvæðum svo, að engum getur til hugar komið, að sjálft bannmálið og afstaðan til þess hafi ráðið því, hvernig atkvæði fjellu. En samt sem áður er það rjett og gott, að samtök hafa orðið um það að láta þessa tillögu fram koma, til þess að taka af allan efa.

Hún mun fara víða þessi ályktun, víðar en nokkurt annað plagg frá þessu þingi. Hún haggar að vísu engu í þeirri niðurstöðu, sem orðin er, en samt er hún mikils virði. Það er svo mikið skrafað um það úti um heim, að vernda eigi rjett smáþjóðanna gegn ofbeldi frá þeim stærri. Þessi yfirlýsing frá þingi einnar smæstu þjóðarinnar getur nú komið sem prófsteinn á þetta skraf. Hún er yfirlýsing um það, að við viljum fá að ráða því sjálfir, hvort við bjóðum eitthvað eða bönnum hjer innan lands. Hún er yfirlýsing um það, að þó að hægt sje að neyða okkur til ráðstafana, sem okkur er þvert um geð, þá er ekki hægt að umsnúa sjálfum vilja okkar og skoðunum. Er vonandi, að allir háttv. þingmenn geti verið samtaka um slíka yfirlýsingu.