02.03.1923
Neðri deild: 10. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í D-deild Alþingistíðinda. (3186)

40. mál, skipun nefndar til að íhuga vatnamálin

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg get að mestu leyti vísað til greinargerðarinnar um þetta mál. Eins og kunnugt er, eru vatnalagafrumvörpin nú lögð fyrir þingið í 5. sinn. Á 4 undanförnum þingum hefir því verið hagað svo, að sjerstakar nefndir hafa verið skipaðar til að fjalla um þau. Í þetta sinn er vikið frá þeirri reglu; frv. lögð fyrir Ed. og sett í allshn., sem í þessum málum hefir bætt við sig tveim mönnum. En með því að allshn. í Nd. er svo hlaðin störfum, þá teljum við flutningsmenn till., að rjett sje, að sjerstök nefnd sje kosin í málin hjer í deildinni, sem geti farið að sinna þeim þegar. Teljum við þá meiri líkur til, að einhver endalok fáist á þeim á þessu þingi. Virðist það ekki geta gengið svo lengur, að málin þvælist fyrir þinginu án fullnaðarafgreiðslu, enda þinginu tæpast vansalaust að láta þau mæta slíkum hrakningi og áður.