02.03.1923
Neðri deild: 10. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í D-deild Alþingistíðinda. (3189)

40. mál, skipun nefndar til að íhuga vatnamálin

Jón Þorláksson:

Jeg er sammála hv. samþm. mínum (JakM), að ekki sje ástæða fyrir deildina að kjósa slíka nefnd, sem hjer er um að ræða. Málinu liggur ekkert á. Í raun og veru eru allar ástæður, sem fyrir lágu, þegar málið var tekið upp, burtu fallnar. þörfin lítil á sjerleyfislögum, því ekki er hætta á, að ráðist verði í framkvæmdir. (SvÓ: Spádómur!). Þetta er enginn spádómur, heldur bygt á þeirri staðreynd, að slík fyrirtæki eiga nú afarerfitt uppdráttar fjárhagslega í þeim löndum, sem hafa miklu betri aðstöðu fyrir vatnsafl sitt en okkar land, og þetta gerir það að verkum, að ekki er fýsilegt að hefja framkvæmdir. Má og minna á, hvernig fór á síðasta þingi. Nefndin hjelt nokkra fundi, og síðan heyrðist ekkert um málið. Hygg jeg, að nú muni fara eins. Sje jeg ekki ástæðu til að kjósa nefnd með þessar líkur fram undan.

Efri deild vísaði málinu til allsherjarnefndar, og þingsköpin gera beint ráð fyrir, að sama nefnd fjalli um mál í báðum deildum, og hygg jeg því rjett að vísa málinu til allsherjarnefndar, ef það kemur hingað frá hv. Ed., þótt að vísu muni heimilt að kjósa hjer sjerstaka nefnd í það.