05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í D-deild Alþingistíðinda. (3196)

155. mál, atvinnuleysisskýrslur og atvinnubætur

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg skal ekki brjóta þá reglu, sem hjer hefir verið upp tekin, að vera stuttorður, eftir því, sem hægt er um slíkt mál sem þetta. þessi till. er flutt til þess að vekja Alþingi og landsstjórn til umhugsunar um eitt hið stærsta böl á undanförnum árum í þjóðfjelagi voru, en það er atvinnuleysið. Það hefir verið svo gífurlegt nú á tveim síðustu árum að minsta kosti, að mörg hundruð eða jafnvel þúsundir manna hafa verið atvinnulausir meiri hluta vetrar. Þegar svo þar við bætist, að vinnan er stopul á sumrin og lítið upp úr henni að hafa, þá er skiljanlegt, að ástandið hjá þjóðinni sje ekki gott, sjerstaklega í sjávarþorpunum.

Fyrst er þá í till. þessari farið fram á það, að hæstv. stjórn reyni að fræðast um það, hvernig ástatt sje í landinu með atvinnu. Hjer hefir slíkum skýrslum aldrei verið safnað, að undanteknu því, sem Alþýðusamband Íslands leitaði sjer upplýsinga um atvinnulausa menn hjer í Reykjavík í vetur sem leið, og einu sinni áður, sumarið 1920. Í öðrum löndum er nákvæmlega fylgst með í þessum efnum. Skýrslur eru samdar um þetta vikulega í borgum og bæjum og athugað, hvort tala atvinnulausra manna hækkar eða lækkar. Þykir þetta mjög þýðingarmikið fyrir lönd og þjóðir. Um þýðingu þessa máls þarf jeg ekki mikið að ræða; jeg geri ráð fyrir, að öllum komi saman um, að atvinnuleysi sje eitthvert hið stærsta böl, enda þótt skoðanir sjeu skiftar um það, á hvern hátt best verði úr því bætt. Ætti enginn ágreiningur að þurfa að verða um það, að ríkisstjórninni væri falið að leggja fyrir bæjar- og sveitarstjórnir að safna skýrslum um þetta; eru þessar skýrslur engu síður nauðsynlegar en margar aðrar, sem lögboðnar eru og hagstofan fær.

Jeg hefi borið till. upp í 3 töluliðum og skift þeim fyrsta í 2 stafliði, og geri jeg ráð fyrir, að greidd verði atkv. um stafliðina hvoru út af fyrir sig, og eins um töluliðina. Um ákvæðið í 1. tölulið b, að Alþýðusamband Íslands geri tillögur um skýrslugjafirnar, þá getur nú vel verið, að einhverjir setji sig á móti því. En mjer finst það engin goðgá, þótt það gerði tillögur um þetta, og hygg jeg, að þær bendingar, er það kynni að geta gefið stjórninni í þessu máli, gætu orðið að gagni.

Þá er önnur tillagan, um að stjórnin styðji bæjar- og sveitarfjelög til þess að framkvæma nauðsynleg mannvirki, til að bæta úr atvinnubresti. Sú leið, sem hjer er farið fram á, er ekkert einsdæmi fyrir okkur. Þessi skoðun er altaf að ryðja sjer meir og meir til rúms erlendis. T. d. var í Englandi fjöldi manns atvinnulaus, þegar stríðinu var lokið, og var þá hafist handa þar með ýmsar verklegar framkvæmdir, sem annars átti ekki að byrja á strax. Sömu leið hafa einnig aðrar þjóðir farið um langt skeið. Sá stuðningur landsstjórnarinnar, sem hjer er átt við, er meðal annars sá, að stjórnin samþykki lántökur bæjar- og sveitarfjelaga til þess að bæta úr atvinnuleysi, með því að ráðast í verklegar framkvæmdir.

Þá er 3. liðurinn, að stjórnin láti framkvæma nauðsynleg mannvirki þau, sem ríkisstjórninni er að lögum heimilt að ráðast í, ef atvinnubrestur er í landinu. Og jafnvel þótt ekki væri brýnn atvinnuskortur, þá ætti samt að ráðast í nauðsynleg fyrirtæki, svo sem landsspítalann og stækkunina á Kleppi.

Mundi þetta koma vel heim við hagsmuni landsins, ef framkvæmt væri á þeim tímum, þegar atvinnubrestur væri. Auk þess er till. orðuð þannig, að ekki er farið fram á neinar framkvæmdir, sem ekki eru heimilaðar í lögum.

Viðvíkjandi 2. tölulið get jeg einnig tekið það fram, að hæstv. atvrh. (KIJ) lýsti því yfir hjer í þinginu í fyrra, í sambandi við eina brtt. við fjárlögin, að ef nauðsyn bæri til, þá myndi stjórnin hlaupa undir bagga með bæjar- og sveitarfjelögum. Samþykt þessarar till. hefði því aðeins þá þýðingu í þessa átt, að það lýsti vilja þingsins og gæfi hæstv. stjórn heimild, sem gott væri að hafa. Aðstreymið að Reykjavík hefir verið svo mikið á undanförnum árum, að fjöldi manns kemur hingað, sem ekkert hefir að starfa. Jafnvel nú á vertíðinni, þegar mest hefir verið um fiskinn, hefir fjöldi manna enga atvinnu fengið, og má því búast við mjög vondu ástandi, þegar fram á sumarið kemur. Og ef svo færi, að togararnir yrðu stöðvaðir, þá mundi verða mjög mikið um atvinnuleysi hjer, og vil jeg skjóta því til hæstv. stjórnar, að hún sjái um, að þessi atvinnutæki, togararnir, verði ekki stöðvaðir, því það væri beinlínis gerræði, eins og nú er ástatt. Fólkið er nú svo margt, að líklegt er, að þessar atvinnubætur yrðu ekki til langframa nægilegar til að varna atvinnuleysinu. En þá verður að hugsa um að ráða bót á því á annan hátt, t. d. með nýbýlum, sem þingið hefir lítið hugsað um enn þá. En meðan ástandið er eins og það er nú, eru þessar atvinnubætur nauðsynlegar.

Jeg vil í þessu sambandi minnast lítið eitt á, hvaða ástæður liggja til þess, að fólk flykkist til kaupstaðanna. Því er oft kastað fram, að um það ráði mestu skemtanafýsn fólks og að því leiðist í sveitunum. Jeg held, að þetta sje ekki með öllu rjett, og líklega að langminstu leyti. Það fer miklu fremur til kaupstaðanna vegna þess, að þar er frekar hægt að detta ofan á eitthvað að gera, sem ekki fæst í sveitunum. Og svo er önnur orsökin sú, að eigendur stórjarða í sveitunum bola burtu ábúendum smærri jarða og kota, til þess að geta lagt smærri jarðirnar undir sig. þannig veit jeg af tveim stórjörðum, ekki langt frá Reykjavík, þar sem margbýli var áður, en er nú komið undir yfirráð eins manns, svo að hinir hafa allir orðið að hröklast burtu. Voru 7 býli á annari jörðinni, en 13 býli á hinni, og fólkið mun hafa verið alls yfir 100. þurfti sá á fyrnefndu jörðinni að selja jörðina, og vildi því losna við þurrabúðarmennina, en hinn þóttist ekki geta þverfótað fyrir kotkörlum, og hrakti þá því í burtu. Er býlið nú komið í mestu niðurníðslu og hefir bóndinn nú ekki meiri heyafla en áður fekst af hálfri jörðinni; getur hann nú að vísu þverfótað fyrir kotkörlum, en hann getur nú ekki sett fram bát vegna fólksleysis og hefir heldur engan, ef hann vill láta gera eitthvað viðvik fyrir sig. Jeg segi frá þessu til þess að sýna fram á, að ástæður þær, sem venjulega er haldið á lofti, muni ekki vera þær einustu fyrir aðstreyminu til kaupstaðanna.

Segi jeg svo ekki fleira um þetta að svo stöddu, en vænti, að hv. Alþingi fallist á till. mínar og hæstv. stjórn framkvæmi þær svo eins og til er ætlast.