05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í D-deild Alþingistíðinda. (3198)

155. mál, atvinnuleysisskýrslur og atvinnubætur

Jakob Möller:

Jeg stend upp til þess að mæla með því, að 1. liður tillögunnar verði samþyktur. í raun og veru er það sá eini liður tillögunnar, sem nauðsyn er á að samþykkja. Reykjavík er orðin svo stór, að það verður að teljast nauðsynlegt, að sjerstakt eftirlit sje með atvinnuleysinu í bænum, og það fer best á þann hátt, sem hjer er farið fram á. Hjer hefir áður verið safnað líkum skýrslum, en þær hafa verið vefengdar. Það mun nú vera á annað ár síðan þetta var gert, og varð allmjög deilt um það, hvort skýrslurnar væru rjettar. Jeg gerði það þá að tillögu minni, að gangskör yrði gerð að því að rannsaka þetta að opinberri tilhlutun, og man jeg það, að jeg sætti hörðum ákúrum fyrir það af hálfu flokksmanna hv. flm. (JB). Nú hefir hann þó sannfærst um, að nauðsynlegt sje að safna þessum skýrslum á þann hátt, að þær verði ekki vefengdar.

Hina tvo liði tillögunnar verð jeg að telja marklitla, og get jeg vísað til ræðu hæstv. atvrh. (KIJ) um það. Ef atvinnuleysi verður mjög tilfinnanlegt, tel jeg sjálfsagt, að eitthvað verði gert til þess að bæta úr því. Hins vegar er tilgangslítið að samþykkja svona tillögu. Framkvæmdamöguleikarnir eru takmarkaðir, enda getur stjórnin altaf skotið sjer undan þessum framkvæmdum. Vil jeg t. d. benda á landsspítalann, sem samþyktur hefir verið þing eftir þing, en jafnan verið frestað vegna fjárhagsörðugleika. Jeg sje því ekki þörf á að samþykkja 2. og 3. liðinn, þar sem jeg tel þá algerlega þýðingarlausa.