05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í D-deild Alþingistíðinda. (3201)

155. mál, atvinnuleysisskýrslur og atvinnubætur

Jakob Möller:

Jeg hefi skilið þessa till. svo, að hún væri aðallega borin fram vegna Reykjavíkur. Hefi jeg einnig litið svo á, að þessa væri þörf hjer, en ekki annarsstaðar á landinu. Með öðrum orðum, jeg gerði ekki ráð fyrir, að till. væri fram komin af fræðilegum, heldur af „praktiskum“ ástæðum, í því skyni að fá glögt yfirlit yfir hag almennings hjer í Reykjavík. Jeg skil því ekki í því, er hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) fór að blanda hagstofunni í málið. Ef farið væri að safna þessum skýrslum um alt land, myndi hagstofan auðvitað gera yfirlit yfir þær. En þá væru þær áður búnar að vinna sitt „praktiska“ gagn — en það er einmitt þetta. Nú er slíkum skýrslum safnað af öðrum málsaðilja, og því viðbúið, að þær verði litaðar, samkvæmt þörfunum. Eru þær þá nokkurs konar vopn í höndum þeirra til að þvinga fram vilja sinn. Furðar mig á, að hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) skuli heldur vilja hafa slíkar skýrslur en þær, sem gefnar yrðu út af óvilhöllum mönnum. Jeg efast ekki um, að hjer hafi verið ráðist í atvinnubótafyrirtæki án þess að knýjandi þörf væri fyrir það. Það er af því, að umsögn þeirra, sem áttu hagsmuni sína þar undir, hefir verið tekin trúanleg, án gagnrýningar. Hins vegar getur og komið fyrir, að skelt verði skolleyrunum við slíkum kröfum, þó að þörfin sje alveg knýjandi. Hjer við bætist svo, að þessar skýrslur myndu án efa verða til þess að verka hamlandi á innflutningsstrauminn til bæjanna. Yrði þeim safnað að staðaldri, sem jeg geri þá ráð fyrir, þá myndi það koma nokkurn veginn nákvæmlega út, hve margir væru atvinnulausir til jafnaðar. Á atvinnuleysistímum hlytu þá skýrslurnar að líta svo út, að þær yrðu til að fæla menn frá að leita til bæjanna, og væri það mikils virði. Jeg sje því yfirleitt ekki betur en að þessi ráðstöfun verði undir öllum kringumstæðum til góðs, og vil jeg því eindregið ráða hv. deildarmönnum til að samþykkja hana.