03.05.1923
Neðri deild: 56. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í D-deild Alþingistíðinda. (3205)

152. mál, sjúkravistarstyrkur handa geðveikum þurfamönnum

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Það er öllum kunnugt, að sjúkrahælið á Kleppi er löngu orðið of lítið, og er það almennur vilji þjóðarinnar, að það verði stækkað sem fyrst. En til þess að bæta úr brýnustu þörfinni hefir verið stofnað hjer lítið bráðabirgðahæli handa geðveikum mönnum, sem nefnt hefir verið Litli-Kleppur. Og þótt það sje næsta ófullnægjandi og sannkallað neyðarúrræði að gera út þetta hús hjer í bænum, þá hafa menn þó orðið fegnir að skjóta þangað inn mönnum, sem orðið hafa fyrir því óláni að missa heilsuna á þennan veg, og sem erfitt og nærri ógerningur oft og einatt er að hafa heima í sveitunum. En vistin á þessu bráðabirgðahæli hefir af skiljanlegum ástæðum orðið nokkuð dýr, 8–10 kr. á dag, að því er jeg hefi komist næst, og er það sýnilegt, að þetta kemur mjög tilfinnanlega niður á þeim, sem þurfa að senda sjúklinga þangað, hvort sem það kemur niður á bæjar- eða sveitarfjelögum eða einstaklingum. Hins vegar er ekki óeðlilegt, þótt vistin verði svona dýr, þar sem tilkostnaðurinn hefir hlotið að verða mikill við að koma hælinu upp og starfræksla þess að sama skapi mjög dýr hlutfallslega. Auk yfirvarðmannsins eru 3 aðstoðarmenn, sem gæta sjúklinganna, en húsrúmið á hinn bóginn svo lítið, að það rúmar aðeins 8 sjúklinga. Einnig hefir orðið að endurbæta húsið mikið og laga skemdir, sem iðulega geta átt sjer stað, af völdum sjúklinganna. Að þessu athuguðu er það engin furða, þótt mikill kostnaður komi á hvern sjúkling. En einmitt um þennan háa kostnað hafa kvartanir komið hvaðanæfa frá, og er vonlegt, að menn finni til þess að þurfa að borga með geðveikum mönum þar margfalt gjald á við það, sem greitt er með sjúklingum á Kleppi. Enda er sannast að segja, að það sje að öllu leyti sanngjarnt að þeir, sem sækja í þessa viðbót eða bráðabirgðahæli, verði látnir sæta sömu kjörum og á Kleppi, meðan ríkið skýtur sjer undan þeirri skyldu, að stækka það hæli. Í þá átt, að ríkið bæti hinum framfærsluskyldu þennan umframkostnað, er hlýst af því, að Kleppshælið er ófullnægjandi, fer tillaga sú, sem hjer liggur fyrir. En nú hefir komið fram brtt. við tillögu mína, frá hv. þm. Borgf. (PO), þar sem gert er ráð fyrir, að ákvæðið nái einungis til þurfamanna, og hefi jeg fyrir mitt leyti ekkert á móti því, að hún nái fram að ganga, enda munu flestir þessara vesalinga vera í flokki þurfalinga, sveitarómaganna. Þá er og ákveðið í brtt., hvað meðlag með sjúklingunum megi vera hæst, eða 8 kr. á dag. Þessu get jeg líka fylgt, þar sem þetta eru eðlilegar skorður við því, að það fari fram úr öllu hófi, þótt jeg hins vegar búist við, að meðlagið þurfi ekki, eins og í garðinn er búið, að teljast afarhátt, þótt það yrði alt að 10 kr. á dag. Til samanburðar skal jeg geta þess, að dæmi munu til þess, að goldnar sjeu með sjúklingum 10–12 kr. á dag á öðrum sjúkravistarhælum. Hefi jeg það eftir lækni.

Síðast eru þá tryggingarákvæðin, eða það skilyrði fyrir þessum styrk, að stofnunin sje háð eftirliti heilbrigðisstjórnarinnar. Get jeg að sönnu einnig fallist á þetta atriði, þótt mjer dyljist annars ekki, að þetta ákvæði sje viðkvæmast. Litla-Kleppi er komið upp af vandræðum, og er það ekkert leyndarmál, að synt hefir verið milli skers og báru með yfirumsjónina. Hún er nú sem stendur í höndum geðveikralæknisins á Kleppi og fleiri lækna, svo því ætti að vera sæmilega borgið og sæmilega trygt, að um sjúklingana fari eins vel og hægt er að gera ráð fyrir. En hvort hæstv. landsstjórn eða landlæknir vill samþykkja þetta, veit jeg ekki, en tel þó víst, að þar sem hjer er um sanngirnismál að ræða, þá muni engin mótmæli koma þaðan. Og hvernig svo sem Litli- Kleppur annars er úr garði gerður, þá er hann undir lækniseftirliti og hefir aðeins verið settur til bráðabirgða, uns Kleppur er stækkaður, sem auðvitað þarf að gera sem allra fyrst. Vil jeg svo ekki fjölyrða frekar um þetta, og get að öllu leyti fallist á brtt. hv. þm. Borgf. (PO), að sumu leyti sem meinlausar og að öðru leyti nauðsynlegar.