11.05.1923
Sameinað þing: 6. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í D-deild Alþingistíðinda. (3231)

160. mál, vantraust á núverandi stjórn

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Jeg hefði ekki kvatt mjer hljóðs af nýju, ef hæstv. forsrh. (SE) hefði ekki langað svo mjög til þess að heyra eitthvað meira um sig og stjórn sína. Hann sagði, að jeg væri varla fær um að bera fram vantraust, og tek jeg það ekki neitt illa upp. Hann segir það svona sjer til meinlausrar málamýkingar og hugarhægðar. Jeg er þar í mínum rjetti, sem hver annar þm.

Hæstv. forsrh. (SE) líkti þessari aðferð minni við morðtilraun. Kvað hann þetta líkjast því, sem rekinn væri hnífur í bak stjórnarinnar. Hann má nota um þetta þær samlíkingar, sem honum þóknast, hæstv. ráðherra, en jeg verð þó að segja það, að ef þetta á að kallast morðtilraun, þá verða þeir margir morðingjarnir í þingfrjálsum löndum. Í nálægum löndum er það einmitt venjulegt að bera vantraust þannig fram í beinu sambandi við önnur mál, og þá ekki fátítt, að það sje að óvörum. Það var mjög eðlilegt, að vantraustið kæmi fram út úr landvarnarmálinu, því vantraust á stjórn er þess eðlis, að það getur gripið inn í hvert mál, sem fyrir kemur á þinginu, og það því fremur, sem það tekur til aðgerða hennar og reynir á traust hennar. Hins vegar get jeg skilið það, að hæstv. forsrh. (SE) finnist þetta bein morðtilraun við sig, því hann mun líta svo á, að líf sitt byggist algerlega á ráðherrastöðunni. Jeg verð annars að álíta, að jeg hafi komið fram löglega með vantraustið, og hjer geti því ekki verið um neina morðtilraun að ræða og ekkert að afsaka annað en skort á hinu stjórnföðurlega trausti.

Hæstv. forsrh. (SE) sagði, að jeg hefði haft mýmörg tækifæri til að segja stjórninni á annan hátt frá breyttri afstöðu minni gagnvart henni, þótt jeg hefði ekki valið þessa leið. Finst þá hæstv. ráðherra (SE) eðlilegra, að jeg hefði farið heim til hans og hvíslað í eyrað á honum: „Æ, góði, nú treysti jeg þjer ekki lengur?“ það er sú sjálfsagða aðferð, sem jeg hefi valið. Sú eina þinglega og viðeigandi aðferð til að kunngera stjóra, að hún njóti ekki þingmannatrausts. Jeg hefi flutt þessa till. upp á mitt eindæmi og er enginn flokkur á bak við mig, og því síður nokkur einstaklingur, og fer jeg þessu fram í fullu samræmi við þingsköpin. — Annars er það, eins og jeg tók áður fram, ein aðalástæða mín fyrir flutningi þessarar till., að stjórnin er ósamstæð. Það er eins um hana og þingið, alt gengur á ská og skjön og á þetta einn drýgsta þáttinn í því, hvernig þingræðið hjá oss er að fara út um þúfur. Hjálpar einmitt stjórnin sjálf best til að halda við þessari ringulreið.

Fyrverandi stuðningsflokkur hæstv. stjórnar hefir nú komið fram með rökstudda dagskrá, í því skyni að eyða málinu, og er ekki neitt við því að segja. Flokkurinn um það. En úr andstöðuflokknum hefir einn hv. þm. risið upp með slíkum garra, að broslegt má heita, er um andstæðing hæstv. stjórnar er að ræða. Segir hann, að sjer og ýmsum öðrum hv. þm. þyki ekki ástæða til að greiða atkvæði um dagskrána. Þetta eru bærilegir karlar! Vík jeg nánar að þeim síðar, hv. 1. þm. Skagf. (MG) og hv. þm. A-Sk. (ÞorlJ).

Hæstv. forsrh. (SE) sagðist skora á mig að koma fram með alt það versta, sem jeg vissi um stjórnina. Ef hann á við eitthvað borgaralega svívirðilegt, þá veit jeg ekki um neitt slíkt í fari hæstv. stjórnar. En úr því hann hefir viljað mála þetta með svo sterkum litum og heitið á mig að koma með alt það versta, þá ber hann nú ábyrgðina á því, að jeg fer inn á einstakar stjórnarathafnir hans. (Forsrh. SE: Jeg bið einmitt um það). Jeg skal þá nefna atriði, sem kom til mála milli hæstv. stjórnar og stuðningsflokks hennar á þeim dögum, sem hæstv. forsrh. (SE) talaði mjúklegar til manna en hann gerir nú, á meðan hann átti alt undir þingmannafylgi, á meðan hann var að komast til valda. Þá var það af þessum flokki tekið fram sem ákveðið skilyrði, að vissir, ákveðnir málaflokkar heyrðu til hverjum einstökum ráðherra. Var þar meðal annars ákveðið, að bankamálin skyldu heyra undir fjrh. fyrv. (MagnJ). Játti stjórnin öllu þessu og tók við völdum með þeim skilyrðum. En viti menn! Þegar komið er fram á sumar, gýs alt í einu upp sá kvittur, að búið sje að taka bankamálin úr höndum fjármálaráðherra, eða þann þátt þeirra, er mestu varði, veitingarvald á bankastjóraembættum, og leggja þau undir forsætisráðherra. Sýndi það sig brátt, að þetta var satt, er hæstv. forsrh. (SE) tók að skipa þessum málum og setti meðal annars 2 menn í bankastjórastöður Íslandsbanka. Sje jeg ekki, að með nokkru móti sje hægt að kalla þetta annað en valdarán. Því víst er um það, að þetta var ekki gert með samþykki þáverandi fjármálaráðherra, og með því var gengið á, eða rjettara mundi að segja svikin, skýlaus loforð stjórnarinnar til stuðningsflokksins. Jeg vil ekki að svo stöddu leggja neinn dóm á það, hvort þetta muni hafa verið heppileg skifti, en hinu verð jeg að halda fram, að aðferðin sje í alla staði óforsvaranleg og ósæmileg og út af fyrir sig nóg vantraustsástæða, og þarf stjórnin því síður að undrast tiltæki mitt. Þarf að leggja á ströng ákvæði um það, að stjórnin brjóti ekki þannig af sjer skilyrði stuðningsflokks síns á milli þinga, og flokkurinn á að sýna það, að hann eigi í fórum sínum rjettláta gremju gegn stjórn, er gengur á gefin heit.

Jeg get svo látið þess getið, úr því að jeg fór að minnast á þetta, að þegar sá ráðherra, sem nú er farinn frá, var sviftur þessu valdi, þá ráðlagði jeg honum að segja af sjer, og hefði það verið rjetta svarið. En hann kaus nú hitt, að sitja enn um skeið, og var það illa farið. Embættisbræður hans beittu hann órjetti og hann átti að slíta samvinnu við þá.

Og fyrst jeg er nú einu sinni farinn að ræða um syndir hæstv. stjórnar, þá get jeg eins vel haldið áfram þarna og talað um áframhaldið af meðferð hennar á bankamálinu. Fyrst auglýsti hún stöðurnar lausar, en í stað þess að skipa svo í þær einhverja þeirra manna, sem sóttu, þá þóknaðist henni að setja menn til bráðabirgða. Hefir þess verið getið til, að hæstv. ráðherrar ætluðu að geyma sjálfum sjer þessar stöður, ef svo illa kynni að takast til, að þeir töpuðu trausti þingsins. Veit jeg ekki, hvað satt kann að vera í þessu, og mun best að láta reyndina skera úr. En jeg verð þó að taka það fram, að ef þetta skyldi liggja til grundvallar fyrir þessum ráðstöfunum hæstv. stjórnar, þá er sú aðferð með öllu fordæmanleg. Og hvað sem kann að valda, þá er þetta mjög undarleg ráðstöfun, að auglýsa fyrst lausar. stöðurnar til umsókna og sinna svo ekkert umsóknunum, heldur setja 2 menn, og það annan þeirra mann, sem ekki hafði einu sinni sótt. Jeg veit, að þetta hefir mælst mjög illa fyrir úti um landið, og jeg tel það líka með öllu óverjandi. Þessir menn, að þeim alveg ólöstuðum, geta ekki beitt sjer við bankastörfin á meðan ósjeð er, hvort þeir eiga að vera þar lengur en svona til bráðabirgða sem varaskeifur, eins vel og hægt væri, ef þeir hefðu veitingu og væru orðnir fastir fulltrúar þjóðarinnar þarna, sem svo mjög mæðir á, og áskilið hefir verið af þinginu, að vel og fast væri um búið. Þarna hefir hæstv. forsrh. (SE) einnig mjög brugðist trausti og tilætlun þingsins.

Þetta veit ráðherrann, að er víðs vegar um land álitið alleinkennilegt og óviðeigandi og stjórninni til dómsáfellis, og af þinginu á það að vera talið óverjandi, ef hæstv. stjóra vill ekki svo vel gera að skýra þær ástæður, sem hún hefir fram að færa þessu til rjettlætingar, að halda bankastjórastöðunum við Íslandsbanka lausum og óráðstöfuðum langan tíma, alveg að ástæðulausu, eftir alt, sem á undan er gengið og ofan í þingviljann. Þjóðin, sem óskar eftir öryggi bankans, vill fá að vita, hvort þessir bankastjórar eiga að vera með takmarkaðri ábyrgð sem settir eða með fullri ábyrgð sem skipaðir forstjórar þessarar stofnunar; nú eru þeir hvorki sem fugl eða fiskur.

Ef stjórnin vill bæta fyrir sjer með því að skipa menn nú þegar í þessar stöður, er það ekki nema gott og rjett, því nóg er að verið. Skora jeg á hana að skipa þá tvo, sem settir eru í bankastjórastöðurnar, ef hin hæstv. stjórn ætlar sjer þær ekki sjálfri, svo sem hún er grunuð um. Ekkert af þessu hefi jeg sagt til ámælis þeim mönnum, sem eru settir bankastjórar, heldur til ámælis landsstjórainni, er tekur svona á málinu.

Þar sem jeg nú hefi getið um þetta tvent sjerstaklega sem gildar vantraustsástæður, þ. e. brigðmælgi við stuðningsflokkinn og ótilhlýðilega meðferð á Íslandsbanka, eins og jeg hefi drepið á þau mál og eins og þau hafa komið fram að öðru leyti, þá ætti slíkt að nægja sem ákveðin og sjerstök kæruatriði frá minni hálfu, og þótt jeg sje einn til frásagna að þessu sinni og hljótt í kringum mig, mun það síðar verða viðurkent af allri þjóðinni, að jeg lýsi ekki vantraustinu að ófyrirsynju.

Auk þess sem jeg nú hefi tekið fram, get jeg endurtekið það, sem jeg sagði áðan, að stjórnin er yfir höfuð ákaflega haltrandi og óákveðin í öllum sínum gerðum, sem og von er, þegar enginn ákveðinn flokkur er til henni til stuðnings og enginn ákveðinn þingvilji henni að baki og enginn getur með vissu sagt, hvað það er, sem heldur stjórninni á floti, annað en viljinn til að fljóta. Skal jeg enn geta um það, er sýnir ljóslega, hve tiltektir hæstv. stjórnar eru af handahófi og fráleitar, að þegar þingið um daginn vildi setja rannsóknarnefnd á Íslandsbanka, þá varð hæstv. forsrh. (SE) alt í einu svo snjallur, að hann fann upp á því að bera fram eða láta bera fram frv. um þennan eftirlitsmann með bönkum og sparisjóðum, enda þótt hann í umræðum um það rannsóknarmál hefði margsinnis tekið fram, að hann þættist hafa heimild í lögum til þess að framkvæma þetta eftirlit og gera rannsókn á sparisjóðum, þegar honum sýndist þess vera þörf. þetta litur alt því kynlegar út, sem afstaða hans til þess sparisjóðsins, sem að allra dómi er lakast stæður, er alveg sjerstök. Það gerir ekki svo mikið til, þótt jeg nefni þennan sparisjóð, allir hv. þm. munu hafa heyrt eitthvað getið um hann. Það er sem sje sparisjóður Árnessýslu á Eyrarbakka, sem jeg á við. Þegar þessi sparisjóður komst í kröggur og var nær að þrotum kominn, bar hann sig upp við núverandi stjórn og leitaði liðsinnis hennar, sem eðlilegt var og lögum samkvæmt. Mun það hafa verið um mánaðamótin janúar og febrúar síðastl. Jeg veit ekki til þess, að nokkur liðveisla sje komin enn, enda þótt hæstv. ráðherra játi sig hafa heimild til þess að láta rannsaka þennan sparisjóð sem alla aðra. Allir munu verða að játa, að þessi dráttur er óheppilegur. Er Eyrarbakkasparisjóður einn hinn stærsti á landinu og mikið í húfi að láta hagsmuni svo margra, sem þar eiga hlut að máli, reka á reiðanum svo og svo lengi. Getur slíkt skeytingarleysi dregið dilk á eftir sjer fyrir Árnesinga fyrst og fremst og Rangæinga, og síðan önnur hjeruð.

Vænti jeg því að fá nú að heyra ástæður hæstv. ráðherra fyrir þessum drætti.

En nú á svo sem að bæta úr því, sem ábótavant er um banka og sparisjóði, með eftirlitsmanninum, þeim með 16 þús. kr. launin og langtum meira þó, nýju embætti á sama þingi og ætlað var að koma sýslumönnunum fyrir kattarnef. Þetta er nú samkvæmni!

Hæstv. ráðherra (SE) leyfir sjer að nefna þingtraust og gott samkomulag. Jeg leyfi mjer að halda því fram, að þingtraust stjórnarinnar sje sama og ekkert og samkomulag og samræmi eigi sjer stað um fátt annað en að sitja í völdum. Jeg hefi skýrt það með dæmum, hvernig stjórnin þvælist þar á milli flokka, eftir því sem verkast vill; það þarf engrar endurtekningar.

Alt, sem jeg hefi nú talið, eru fullar og nægar sakir. Eða hvað vill hæstv. stjórn meira? Jú, jeg skal enn minnast á nokkur atriði, og þá fyrst það, er eigi verður fært til ákveðinna verka, stjórninni til foráttu, en það er einmitt verkleysið, aðgerðaleysið, það, hvað hún er ónýt, samhliða mistökunum á því sem gert er.

Þá vil jeg og minnast á það, sem er alleinkennilegt í fari hæstv. forsrh. (SE), er hann svaraði því um stjórnarfrv., að þótt þau væru feld, hrakin eða dagaði uppi í þinginu, þ. e. hvernig sem með þau væri farið, þá þyrfti stjórnin ekki að leita sjer trausts þess vegna. Jeg drap á þetta sem eina af ástæðum mínum fyrir vantrausti á núverandi stjórn, þótt eigi væri það aðaleða höfuðástæða. Hann taldi sýslumannafækkunina vera framtíðarmál, mál, sem eigi kæmi til framkvæmda fyr en síðar, og þá smátt og smátt. Samt er þetta þýðingarmikið stefnumál eigi að síður, og að láta það viðgangast, að slík stórmæli sem þessi stjórnarfrv. voru, sæti slíkum afdrifum, sem þau hafa hlotið, án þess að mjamti í stjórninni eða það sjáist, hvort henni líkar betur eða miður, það er svo að kalla óskiljanlegt, ef eigi væri vitanlegt það sem er, að þessi stjórn er lasburða og vanmáttug og metur mest að hanga.

Aðgerðir eða aðgerðaleysi stjórnarinnar hefir bitnað allhart á mínum kjósendum eigi síður en öðrum, t. d. þar sem er sparisjóðurinn á Eyrarbakka, sem jeg nefndi áðan; og þá er enn annað, spítalinn sama staðar. Þó ætla jeg ekki að ræða það mál nú að öðru leyti, en læt hæstv. forsrh. (SE) um það, hvort hann æskir þeirra umræðna; trúi jeg vart, að hann muni þess óðfús. Læt jeg svo þetta í garð hæstv. ráðherra nægja að sinni.

Hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) hefir á alleinkennilegan hátt gripið inn í þetta mál með dagskrá sinni, er hann vill nota til þess að víkja þessu máli mínu á bug. Þó stendur það hvergi í þessari dagskrá hv. þm., að strandferðaskipið Esja sje á förum og þess vegna verði að láta vantraustið niður falla að sinni. Það vantaði einungis á, til þess að ferðamaðurinn kæmi fram altýgjaður í dagskránni. Hitt segir hann, og er þar óspar á áhersluorðin, að áliðið sje orðið þingtímans. Það er að vísu satt, en þó finst mjer alleinkennilegt, að hv. þm. leggur svo mikla áherslu á það, er hann má vita, að til eru þau mál, er meira varða en þingslit, og þá ekki síst, hvort stjórninni sje treystandi til þess að fara með völdin. Hann telur, að jeg hefði haft nægan tíma til þess að koma fram með þetta vantraust mitt þær 12 vikur, sem þingið hefir staðið. Þetta er satt. Jeg hefi heyrt þessa mótbáru fyr í kvöld, og endurtek því nú enn, að jeg bjóst alls ekki við, að það yrði mitt hlutskifti að gera þetta, en vænti þess af ýmsum öðrum, bæði af viðtali við ekki svo fáa þm., sem skírskotuðu til blaðs, sem talið er eiga talsvert í stjórninni. Taldi jeg því líklegt, að formenn flokkanna yrðu til þess eða þá að stjórnin sjálf leitaði traustsyfirlýsingar hjá þinginu. Þetta hefir nú hvorttveggja brugðist. Þó hefi jeg sannorða menn fyrir því, að hæstv. forsrh. (SE) hafi gefið það fyllilega í skyn í hv. efri deild, að hann myndi fyr en þingi lyki leita álits stuðningsflokksins um stuðninginn. En þetta virðist alt hafa ætlað að gleymast, og því minni jeg á það.

Jeg hefi ekki sjerlega margt að segja við ræðu hv. 1. þm. Skagf. (MG). Hann reis upp með fítonskrafti miklum (jeg bið hæstv. forseta áminna mig, ef þetta er óþinglegt orð), en jeg get ekki skilið, hvers vegna hann fór að taka upp þykkjuna fyrir stjórnina, ef hann telur sig ekki stuðningsmann hennar. Það kynni þá að vera það, að jeg hefi áður hjálpað til að fella þá stjórn, sem hann átti sæti í, og þess vegna hafi honum eymst fyrir við ræðu mína nú og hún vakið gamla harma. Þetta sannar líka orðbragð hans. Hann kallaði mig kolamokara, þegar jeg var við það riðinn að steypa honum úr stjórnarsessi, og nú endurtekur hann það orð. Líklega er hann hræddur við, að kafbáturinn kunni að granda honum, þar sem hann ferðast á ræningjasnekkju um friðuð höf. Ætti hann því að tryggja sjer eitthvert flokksflotholtið til þess að hann sökkvi ekki. Hann hefir í þessum kafbátaummælum sínum náð hámarki fyndninnar, og endurtekur sig svo ár eftir ár, eins og skrumkarlar, er segja hreystisögur frá fyrri árum. Svo var hann altaf að tala um einhverja familíu. Hann sver sig sannarlega, hv. 1. þm. Skagf. (MG), í ættina, eða eins og hann nefnir það sjálfur, í familíuna á þinginu, sem hann telur sig höfuðið á; einkenni hennar er þjösnaskapur og dólgslegt og ósmekklegt orðbragð, er þeir eiga í hlut, er þessi herra telur sig eiga grátt að gjalda. Jeg er á meðal þeirra að því leyti, að jeg vildi ekkert hafa með hann að gera í ráðherrasæti. Hann talaði um, að þetta væri fjölskyldu- eða familíu- misklíð innan Framsóknarflokksins, en það var þó með öllu ástæðulaust, þar sem jeg var búinn að lýsa því yfir, að jeg hefði komið fram með þetta vantraust upp á mitt eindæmi, og bæru flokksbræður mínir því enga ábyrgð á því, og því síður nokkrir aðrir. Þar leitar þm. upp getsakir, er hann telur mjer til smánar. Tillagan hefir eigi valdið neinu harki, neinni misklíð; þessi hv. þm. einn spýtir mórauðu, einhverju sem þarf að fá útrás.

Jeg hefi svarað því fyr, sem þessi þm. segir eftir öðrum, hví jeg hafi ekki komið fyr með vantraustið. Er óþarft að endurtaka þær ástæður. Þeir syngja þar við sama tón, hann og hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ). Þinglausnir og kosningar eru þeirra rök. Þvílík pólitík!

Þá kveðst hv. 1. þm. Skagf. (MG) ófús að mynda stjórn með mjer. Hefir hann dreymt, að jeg bæði hann þess? Aumingja maðurinn. Altaf ráðherradómur og ný stjórnarmyndun í huga hans.

Ósæmilegt er það af hv. umræddum þm. (MG) að dylgja með það, að jeg myndi ekki hafa borið fram vantraustið, ef stjórnin hefði stungið einhverri fjárhæð eða bitlingi að mjer. Þetta sýnir, hversu hann er vandur að vopnum. Jeg hefi ekkert tilefni gefið til að vera núð slíku um nasir. En hv. 1. þm. Skagf. (MG) er að verða bitlingakóngur.

Ekki þarf jeg að svara ummælum hv. 1. þm. Skagf. (MG) í garð fyrv. fjrh. (MagnJ). Þau orð hans sýna best, hvernig manninum er tamast að berjast.

Jeg ætla ekki að orðlengja frekar um þetta mál, enda er jeg brátt dauður að ræðutölunni, en vil þó taka það fram, sem jeg gleymdi viðvíkjandi dagskrá hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ), að ef hún verður samþykt og till. mín kemur þannig ekki til atkvæða, tel jeg þá, sem greiða atkv. móti dagskránni, með minni till., sem og er rjett. Vænti jeg, að þeir mótmæli, er þarna hafa aðra skoðun. E n sjálf dagskráin felur það í sjer, að auðsjeð er, að þeir, sem samþykkja hana, bera ekkert traust til stjórnarinnar.