11.05.1923
Sameinað þing: 6. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í D-deild Alþingistíðinda. (3232)

160. mál, vantraust á núverandi stjórn

Forsætisráðherra (SE):

Mjer skilst svo, að hv. 1. þm. Ám. (EE) hafi nú leyst frá skjóðunni og hafi nú komið fram með alt, sem til var á reiðum höndum. Hann telur mig hafa gefið Framsóknarflokknum loforð, sem síðar hafi verið brotin. Væri þetta rjett, þá mætti segja, að hjer væri sakarefni á ferðum, því þá kröfu verður þó skilyrðislaust að gera til ráðherra, að þeir efni loforð sín. En gallinn er aðeins sá, að hv. þm. fer hjer með ósatt mál. Fyrst er nú það, að þegar Framsóknarflokkurinn sneri sjer til mín og bað mig að mynda stjórnina, þá mintist enginn á það við mig, að þess væri óskað, að málaskiftingin væri áfram óskift í stjórnarráðinu,en hitt er satt,að áður en ráðuneytið var myndað, þá komu 3 þm. frá Framsóknarflokknum og mæltust til þess við mig, að málaskiftingunni yrði haldið áfram óbreyttri, en því lofaði jeg alls engu um. Á fundi þeim, sem jeg hjelt með ráðherraefnunum rjett áður en jeg lagði til við konung, að ráðuneytið yrði skipað, tók jeg það fram, að fyrst um sinn mætti málaskipunin vera sú sama og þá var, en tók jafnframt fram, að á þessu gæti orðið breyting. Fjármálaráðherra ljet þess þá getið, að honum væri kunnugt um, að Framsóknarflokkurinn óskaði, að bankarnir væru áfram undir honum, en jeg tók fram, að á þessu gæti einnig orðið breyting. Svo skýr var afstaða mín í þessu máli. það hefir nú verið kallað „valdarán“ af einstöku mjer velviljuðum mönnum, að jeg lagði til við konung, að skipun hinna æðstu embætta, svo sem bankastjóra, hæstarjettarembætta o. fl., væri undirrituð af forsætisráðherra. En þessi ráðstöfun var gerð eftir samþykki meiri hluta stjórnarinnar á ráðherrafundi. Og best sjest það á því, að fjármálaráðherra bað alls ekki um lausn frá embætti sínu, að hann lagði enga alvarlega áherslu á þetta mál, þótt hann væri því ekki samþykkur. Þessi breyting, sem jeg hefi nefnt áður, var því bæði fyllilega lögleg og með henni var ekkert loforð brotið. Því þau loforð, sem aldrei hafa verið gefin, er ekki hægt að brjóta.

Þá var hv. þm. óánægður með, að þegar fresturinn til þess að sækja um bankastjórastöðurnar var útrunninn, þá skyldi ekki vera skipað strax í stöðurnar. Til þess er því að svara, að þegar þessi frestur var útrunninn 1. febrúar, var jeg veikur, en átti þó tal við hina ráðherrana um þetta, og varð að samkomulagi, að ekki yrðu skipaðir menn í stöðurnar fyrst um sinn, en þeir menn voru settir, sem nú gegna þessum starfa. Veit jeg ekki betur en þetta hafi gefist mjög vel, og enginn veit jeg til að hafi kvartað yfir hinum settu mönnum. Jeg get einnig getið þess, að þegar Eggert Claessen fór utan, fór hann þess á leit við mig áður, að ekki yrði skipað í bankastjórastöðumar fyr en hann kæmi aftur, því að bankastjórnin hefði gert ýms „plön“, sem ruglast gætu, ef nýir menn yrðu skipaðir meðan hann væri burtu. Það hefir oft áður verið sett í embætti, og oft um miklu lengri tíma, og veit jeg ekki til, að fundið hafi verið að því. Aðalatriðið er, að mennirnir sjeu vel valdir.

En það er annað atriði, sem liggur á bak við hjá hv. flm. vantraustsins (EE). Því er ekki hægt að neita, að hann muni hafa gert sjer vonir um að verða bankastjóri við Íslandsbanka, og að honum hafi því brugðist vonir í þessu efni. Það má nú vel vera, að það sje sumra skoðun, að þessi hv. þm. hefði átt að verða bankastjóri, en það var ekki mín skoðun, og er ekki enn, og síst nú, eftir að hafa sjeð, hvað úrræðalítill hann er í þessu áhugamáli sínu hjer í dag.

Hv. þm. (EE) talaði enn um valdarán í sambandi við þetta mál, en jeg skil ekki, við hvað hann á nú með því, sökum þess, að ekkert hefir gert verið, sem ekki er fullkomlega löglegt.

Þá var hv. þm. (EE) að víta stjórnina fyrir frumvarpið um eftirlit með sparisjóðum og bönkum. Jeg get ekki sjeð, hvernig hægt er að gefa stjórninni það að sök, þótt hún vilji hafa sem best eftirlit með bönkum og sparisjóðum í landinu. Það hefir verið sýnt fram á það, að nú standa inni í sparisjóðum um 7 miljónir af sparifje landsmanna, og er því full ástæða fyrir stjórnina að tryggja eftirlit með þessu mikla fje. Frv. um þetta efni hefir nú þegar verið samþykt í hv. Nd. með miklum meiri hluta og auk þess enn sem komið er haft góðan byr í hv. Ed., svo að allar líkur eru til þess, að frv. þetta verði að lögum. þetta sýnir, að þingmenn eru sammála stjórninni um þetta, og ætti stjórnin því síst að þurfa að vænta vantrausts fyrir það, sem hið háa Alþingi er henni sammála um.

Viðvíkjandi frv. stjórnarinnar um nýtt embættakerfi skal jeg geta þess, að þar var farið fram á svo stórfelda breytingu á því fyrirkomulagi, sem nú er, að það var mjög eðlilegt þó það gengi ekki fram á þessu þingi, og var varla hægt að gera sjer vonir um það. Var enda engu spilt, þótt það biði til næsta þings eða svo. Hefir þjóðin nú tækifæri til þess að athuga þetta við kosningamar í sumar, og það er sannfæring mín að ekki líði mörg þing áður en það verður samþykt.

Þá var hv. flm. till. óánægður með eftirlitið með fyrirtækjunum austan fjalls, og varð hann einna þungorðastur um þau. Jeg skal ekki fara langt inn á sögu þessa máls, en á nokkur atriði verð jeg þó að drepa. Formaður sparisjóðsins á Eyrarbakka sneri sjer upphaflega til mín sem formanns bankaráðs Íslandsbanka og bað um lán handa sparisjóðnum. Því var neitað af bankastjórninni, enda þá ekki kominn samningurinn milli bankanna, svo Íslandsbanki sá sjer ekki fært að lána fjeð. Síðan var leitað til Landsbankans, en hann setti það skilyrði, eins og Íslandsbanki mundi einnig hafa gert, ef hann hefði viljað lána, að hann mætti senda 2 menn til þess að athuga hag sparisjóðsins. Lofaði hann þó engu um lán, jafnvel þó niðurstaðan af rannsókninni yrði sparisjóðnum í hag. En þá sagði formaður sparisjóðsins, að einmitt hv. 1. þm. Árn. (EE), útibússtjóri Landsbankans, hefði gert alt til þess að spilla fyrir sparisjóðnum, svo að rannsókn úr þeirri átt — Landsbankaáttinni — væri sama og ef ætti að leggja það undir dóm eiturbyrlarans sjálfs, hvort einhverjum hefði verið gefið eitur.

Jeg tel sjálfsagt, að stjórnin láti rannsaka sparisjóðinn á því stigi, sem hann nú er, og veit jeg að núverandi fjármálaráðherra muni taka vel í það. En annars hefir það komið mjög undarlega við mig, hversu oft þessi hv. 1. þm. Árn. (EE) fer inn á það, hve tæpt sparisjóðurinn er staddur. Það getur verið, að það sje af ást til sparisjóðsins, en satt að segja efast jeg um hreinskilni hans í þessu máli. Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til þess að fara frekar út í þetta. Hefi jeg hrakið öll atriði í ræðu hv. flm. till. (EE).

Þá kom fram fyrirspurn frá hv. þm. Str. (MP) um það, hvort stjórnin hugsaði sjer að bæta við þriðja ráðherranum. Jeg hefi látið rannsaka ítarlega, hvort heimilt sje að hafa færri en 3 ráðherra. Lögin frá 1917 ákveða, að ráðherrar skuli vera 3, en stjórnarskráin kveður svo á, að með konungsúrskurði megi breyta tölu þeirra. En svo er spurning, hvort ekki sjeu í stjórnarskránni ákvæði, sem geri það að verkum, að ekki sje hægt að hafa færri en 3 ráðherra. Forsetaúrskurður hefir fallið um það hjer í þinginu, að samrýmanlegt sje við stjórnarskrána að hafa 2 ráðherra. En sannleikurinn er nú sá, að tvær greinar í stjórnarskránni mætti eðlilegast skilja svo, að þær gengju út frá fleirum ráðherrum en 2. Verði vantraustsyfirlýsingin samþykt, er auðvitað ekkert um þetta að segja, en sitji stjórnin áfram, hefir hún hug á því að bæta þriðja manni við í stjórnina.

Afstaða mín til dagskrárinnar er þessi:

Jeg þykist mega treysta því, að Alþingi vilji hafa þingræðisstjórn. Ef nú hin rökstudda dagskrá verður samþykt, þá er það merki þess, að þingið telji núverandi stjórn vera þingræðisstjórn og vilji hafa hana á fram.