11.05.1923
Sameinað þing: 6. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í D-deild Alþingistíðinda. (3233)

160. mál, vantraust á núverandi stjórn

Bjarni Jónsson:

Það er ekkert að óttast, þótt jeg standi upp, því jeg ætla mjer ekki nein sláturverk. En jeg er svo undarlega viðkominn þetta mál, að jeg verð að gera grein fyrir atkvæði mínu, og er því þó ekki vanur.

Á síðasta þingi var eitt mál, sem jeg lagði ríka áherslu á við stjórnina, að framfylgt yrði, og hjet ella að bera fram vantraustsyfirlýsingu á hana nú á þessu þingi. Enda þótt hæstv. stjórn hafi nú reynst tómlát í þessu máli, þá treystist jeg þó ekki til að koma með vantraustsyfirlýsinguna, því að þótt menn hefðu slæðst með, þá hefði það verið af öðrum ástæðum, enda getur ræst úr þessu máli enn. Málið var heldur ekki þannig vaxið, að jeg vildi leggja það undir atkvæði manna nú. Tel jeg rjettast, eins og nú er komið málum, að bíða átekta, uns fuglinn Fönix rís ungur og alfjaðraður upp úr ösku kosninganna.

Að öðru leyti hefi jeg ekkert út á stjórnina að setja. Sá ráðherra, sem jeg var tregastur til að styðja í stjórnina, hæstv. atvrh. (KIJ), hefir reynst málum mínum og míns kjördæmis vel, og hefi jeg ekkert sjerstakt út á hann að setja. Jeg mun því greiða þessari dagskrá atkvæði mitt og geng þess ódulinn, að hið háa Alþingi samþykki hana og láti hv. 1. þm. Árn. (EE) fara fýluferð í þessu máli, og að það samþykki dagskrána því aðeins, að það vilji láta stjórnina sitja áfram, því þá er borgið þingræðinu.

Eitt vil jeg leiðrjetta í ræðu hv. flm. till. (EE). Hann sagði, að þeir menn, sem stilt hefðu upp stjórninni, hefðu sett henni skilyrði viðvíkjandi bankamálunum. En enda þótt sá flokkur, sem hann er í, hafi gert það, þá er það ekki einhlítt, sökum þess, að tveir flokkar stóðu að myndun stjórnarinnar, og setti annar flokkurinn engin skilyrði viðvíkjandi þessu máli. Gat eins verið, að sá flokkur hefði þveröfugar skoðanir við Framsóknarflokkinn í þessu máli.