11.05.1923
Sameinað þing: 6. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í D-deild Alþingistíðinda. (3235)

160. mál, vantraust á núverandi stjórn

Jakob Möller:

Mjer virðist hjer vera í mikið óefni komið, og var jeg um hríð að hugsa um að bera fram dagskrá, er enn betur skýrði ástandið en gert er í þeirri till., er fyrir liggur, en jeg hvarf frá því, er jeg heyrði yfirlýsingu hæstv. forsrh. (SE) um skilning hans á þeirri dagskrá, er nú hefir verið fram borin, og eftir að hafa heyrt ræðu hv. 1. þm. Skagf. (MG). Jeg get fallist á það, eftir yfirlýsingu hæstv. ráðherra, að þingræðinu sje borgið með samþykt þeirrar dagskrár, en þó því aðeins, að meiri hluti hv. þm. greiði henni atkvæði sitt. Væntanlega má þó, ef ekki er öðru lýst yfir, skilja þannig afstöðu þeirra hv. þm., sem ekki greiða atkvæði, að þeir vilji með því stuðla að því, að stjórnin fái að sitja áfram, og þeir veiti henni þannig óbeinan stuðning. Annars þykir mjer kynlegt, ef þeir hv. þm. geta látið skilja þá afstöðu sína þannig, sjerstaklega þar sem úr þeirri átt, eða af framsögumanni þess flokks, hv. 1. þm. Skagf. (MG), hefir verið borið upp á hæstv. stjórn, að hún hafi stungið upp í fylgismann sinn 9–10 þúsundum króna. Nú, en ef þeir vilja veita stjórninni fylgi eftir eða jafnframt því sem þeir bera hana slíkum sökum, þá þeir um það. En ef jeg væri sannfærður um, að stjórnin hefði gert slíkt, og þá jafnframt um það, að líklegt væri, að hún gerði það oftar, þá væri það eitt nóg til þess, að jeg gæti ekki setið hjá við þessa atkvæðagreiðslu. Og jeg ætla ekki að sitja hjá. Jeg mun greiða mitt atkvæði á móti dagskránni. Jeg get hvorki veitt hæstv. stjórn beinan stuðning, með því að greiða atkv. með dagskrártill., nje óbeinan, með því að greiða ekki atkv.

Hæstv. forsrh. (SE) veit það vel, að þegar stjórnin var mynduð á síðasta þingi, var það ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir stuðningi eða hlutleysi af minni hendi, að stjórnin fylgdi fram frjálsri verslun. En nú hefir það komið fram í umræðum um steinolíuverslunina, að skilningur hennar á því hugtaki er mjög rúmur og rýmri en jeg get fallist á. Jeg tel það og upplýst við umr. um olíueinkasöluna, að henni hafi verið komið í framkvæmd án fullnægjandi heimildar, fyrir vilja örfárra manna, en í því tiltæki hafi í raun og veru falist fullkomið gerræði gagnvart meiri hluta þingsins. Jeg get ekki litið eingöngu á það, að komið sje að þinglokum, fyrst jeg get ekki varið það fyrir samvisku minni og sannfæringu, að rjett sje að styðja stjórnina. Úr því að vantrauststill. er komin fram, verður hver þm. að greiða atkv. eftir því trausti, sem hann ber til stjórnarinnar.