11.05.1923
Sameinað þing: 6. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í D-deild Alþingistíðinda. (3236)

160. mál, vantraust á núverandi stjórn

Gunnar Sigurðsson:

*) Það getur verið, að þetta þurfi að vera meira en dálitil athugasemd, því hjá hv. 1. þm. Skagf. (MG) er „öllu snúið öfugt þó aftur og fram í hundamó“ í þessu máli, sem hann hefir lengi gengið með, þótt svo fari að lokum, að hann verði að eta alt ofan í sig. Jeg vil því í þessu sambandi skora á hæstv. atvrh. (KIJ) að lýsa yfir því, að jeg á engan þátt í þessari uppgjöf. Jeg keypti fiskinn eftir matsvottorði eiðsvarinna manna og gekk aðeins inn í boð annars manns. En varan reyndist svikin vara. Og jeg get lagt fram vottorð sýslumannsins í Hafnarfirði um það, að hann hefði gefið mjer eitthvað upp af þessu, þótt honum hefði sjálfum ekki verið gefið upp.

Annars þarf jeg ekki að fjölyrða meira um þetta, því þm. (MG) mun ekki spinna silki úr þessu máli. Og ósannindum hans öðrum þarf jeg ekki einu sinni að svara, svo sem því, að jeg hafi verið gerður gjaldþrota, eða að stungið hafi verið upp í mig bitum. Honum mun hættara við slíku en mjer.

*) Ræðu þessa hefir þm. (GunnS) ekki yfirlesið.