11.05.1923
Sameinað þing: 6. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í D-deild Alþingistíðinda. (3239)

160. mál, vantraust á núverandi stjórn

Jakob Möller:

Jeg skal geta þess út af orðum hæstv. atvrh. (KIJ), að jeg hafði gleymt fyrri afstöðu hans í verslunarmálunum, en hins vegar var mjer kunnugt um það, að hann var meðlimur í fjelaginu Stefni, þegar hann varð ráðherra, og vissi jeg, að það fjelag hafði frjálsa verslun ofarlega á sinni stefnuskrá. Hjelt jeg því, hvað sem fyrri afstöðu hæstv. ráðherra (KIJ) leið, að þá mundi hann ekki hafa gengið frá þessari seinni stefnu sinni.

En skilyrðið frá minni hálfu var og ófrávíkjanlegt, alveg án tillits til þess, og fyrst stjórnin einu sinni gekk inn á það, hlaut jeg að treysta því, að stjórnin mundi uppfylla skilyrðið. En um leið og hún hafði brotið það, var mín afstaða glögg gagnvart hæstv. stjórn, og þetta mátti henni og ljóst vera á síðasta þingi, eftir því sem orð fjellu þá.