11.04.1923
Efri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í D-deild Alþingistíðinda. (3246)

129. mál, húsmæðraskóli á Staðarfelli

Halldór Steinsson:

Jeg finn mig knúðan til að segja nokkur orð um þessa þáttill. Fyrir 2 árum afhenti Magnús bóndi Friðriksson ábúðar- og eignarjörð sína Staðarfell landinu til eignar, gegn 3 þúsund króna árlegu tillagi úr ríkissjóði meðan þau hjón lifa, bæði eða annað. þetta var þá kölluð gjöf, og er það enn af sumum, en það er fjarstæða að nefna það slíku nafni. Það er því aðeins hægt að kalla þetta gjöf, að menn búist við, að hjónin verði svo skammlíf, að ríkissjóður þurfi ekki að greiða meira en sannvirði jarðarinnar nemur. En sem betur fer, eru ekki líkur til annars en heiðurshjónum þessum verði langra lífdaga auðið. En þá má líka snúa dæminu við. Þá er þessi afhending ekki lengur gjöf, heldur baggi, sem getur með tímanum orðið þyngslabaggi. Jörðin Staðarfell er samkv. fasteignamatinu virt á 30 þúsund krónur með öllum húsum. En af þessum húsum voru eitt eða tvö undanskilin af eiganda jarðarinnar. Jeg er nú talsvert kunnugur þarna, og eftir því, sem jeg þekki til, þá er ekki hægt að selja jörðina við þessu verði á þessum tímum, eða þá að minsta kosti ekki hærra. En ef gengið er út frá 30 þús. kr. sem sannvirði jarðarinnar, þá má ekki leigja hana fyrir minna en 3 þús. kr. á ári, til þess að hægt sje að borga rentur, viðhald og fyrningu. En jörðin er nú leigð núverandi ábúanda, sýslumanni Dalamanna, fyrir 1800 kr. að nafninu til, en hann má greiða eitthvað af því í jarðabótum, svo afgjaldið mun ekki fara langt fram úr 1000 krónum. Ef nú það hjónanna, sem yngra er, verður sjötugt, sem vel má gera ráð fyrir, þá verður á þeim tíma búið að borga úr ríkissjóði 45 þús. krónur, fyrir utan rentur og renturentur, sem þó verður að taka með í reikninginn, þegar jörðin er ekki leigð nægilega hátt. Má áætla, að það verði með öllu og öllu 60–70 þús., og er þá komið tvöfalt sannvirði jarðarinnar. En þá er ekki langt frá því, að afhending þessi, sem í upphafi var kölluð gjöf, sje orðin þyngslabaggi. Auk þess er meiri baggi; á jörðinni hvíldu 8 þús. kr. til ríkissjóðs, sem landið tók að sjer.

Jeg þykist nú hafa sýnt fram á það í fyrsta lagi, að jörðin er, eins og stendur, baggi á ríkissjóði, með því að hún er leigð út helmingi of lágt, og í öðru lagi, að líklegt er, að verð jarðarinnar fari mikið fram úr sannvirði. En þá kemur spurningin, hvort það sje sjálfsagt að hafa húsmæðraskólann þarna. Um það geta verið skiftar skoðanir. Jeg er eins kunnugur þarna og flestir aðrir þm. og tel, að margir staðir aðrir sjeu eins heppilegir. Jörð þessi er erfið afnota, en það mega skólajarðir ekki vera. Hún er afskekt og erfitt til aðdrátta, auk ýmsra galla, sem jeg hirði ekki að telja hjer. En úr því að búið er að kaupa jörðina, hygg jeg, að það verði ofan á, að skólinn verði reistur þarna á sínum tíma, en sá tími er enn ekki kominn. Herdísarsjóðurinn er nú milli 90–100 þús. kr., og það er auðvitað mál, að hann mundi ekki hrökkva til þess að koma á fót og starfrækja skóla þennan. Því að þótt myndarlegt hús sje á Staðarfelli, þá er það ekki stærra en svo, að það nægði starfsfólki því, er þar þarf að vera. Auk þess hefir Magnús Friðriksson rjett til að búa þar í 4 herbergjum meðan hann lifir. Það mætti því búast við, að þar yrði að reisa stórt og vandað hús, en það er fjárhag ríkissjóðs ofvaxið, eins og ástatt er. Þess vegna álít jeg, að það sje síður en svo, að nú sje tími til kominn að hefjast handa í þessu máli.

Auk þessa er eitt atriði enn, sem gerir það að verkum, að jeg er algerlega fráhverfur þáltill. þessari, þótt jeg hefði annars verið henni hlyntur að efninu. En það er ákvæðið í tillgr., að stjórnin skuli eftir tillögum eða í samráði við forseta Búnaðarfjelagsins gera ráðstafanir um stofnun þessa skóla. Þetta ákvæði er hið fáránlegasta, og mig furðar á því, að hv. flm. (JJ) skuli hafa dottið ofan á aðra eins fjarstæðu. Það er eins og gert sje ráð fyrir, að námsmeyjar frá þessum skóla verði aðeins húsmæður í sveit, en þá er verksvið hans nokkuð þröngt. En jeg býst nú við, að frá þessum skóla komi meyjar, sem verða húsmæður í öllum stjettum, og mætti þá eftir sömu hugsunarreglu benda á forseta Fiskifjelagsins sem ráðunaut stjórnarinnar. (JJ: það má bæta honum við). En hvað sem þessu líður, þá er þetta ákvæði óþarft og óviðunandi. Jeg hygg, að óhætt sje að treysta stjórninni til þess að ráðfæra sig við þá, sem best skyn bera á þessa hluti, en það álít jeg, að sjeu húsameistari og forstöðukonur kvennaskólanna. Hjá forseta Búnaðarfjelagsins er engin sjerþekking í þessum efnum, nema að því er snertir búskapinn á jörðinni, en það er aukaatriði, sem auk þess margir aðrir en stjórn Búnaðarfjelagsins mundu geta gefið bendingar um.

Af þessum ástæðum, sem nú hefi jeg nefnt, er jeg á móti þessari þáltill. Tel jeg þó rjett, að mál þetta sje athugað í nefnd, og geri jeg það að tillögu minni, að umræðu þessari verði frestað og málinu vísað til mentamálanefndar. Í henni á hv. flm. (JJ) sæti og forstöðukona stærsta kvennaskólans hjer.